Ójöfnuður Covid krísunnar

Stundum er sagt að erfiðleikar séu þroskandi og undanfarnir mánuðir hafa sannarlega verið lærdómsrík lexía fyrir mannkynið.

Magnús Árni Skjöld Þingframbjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, 4. sæti

Covid-19 faraldurinn, aðgerðirnar í kjölfarið og viðbrögðin við kreppunni sem hefur fylgt, hafa dregið fram í dagsljósið þann ótrúlega ójöfnuð og skekktu forgangsröðun sem finna má í heiminum í dag. Þetta hefur birst á alþjóðlegum vettvangi, þar sem afl hinna sterku og ríku hefur opinberast í uppkaupum þeirra á bóluefni því sem er að verða aðgengilegt á fyrstu mánuðum þessa árs, svo og innan samfélaga, þar sem minnihlutahópar og aðrir í viðkvæmri stöðu hafa bæði orðið helstu fórnarlömb sjúkdómsins sjálfs, svo og þeirrar efnahagskreppu sem fylgdi.

Birtingarmyndirnar eru margvíslegar. Allt frá hungurgöngum indversks verkafólks úr borgunum í heimabyggðirnar þegar stjórnvöld skelltu á algeru banni við starfsemi þeirra síðasta vor, hás hlutfalls svartra Bandaríkjamanna í hópi þeirra sem látist hafa úr sjúkdómnum, til þess hverjir verða helst fyrir barðinu á atvinnuleysinu sem aðgerðir gegn kreppunni hafa valdið. Hér á landi er það helst erlent vinnuafl, fyrst og fremst í ferðaþjónustu og tengdum greinum, konur og ungt fólk. Þá má einnig sjá dæmi um að stjórnvöld víða um heim noti faraldurinn sem átyllu til að grípa til harðari aðgerða gagnvart flóttafólki og öðrum í viðkvæmri stöðu.

Vissulega var heimurinn að fást við „fordæmalausa stöðu“ og margt gert án þess að afleiðingar þess væru fyllilega ljósar, en spurningin sem nú er brýnt að spyrja er hvernig verður þetta til frambúðar og hvenær lýkur þessu ástandi á þann hátt að baráttan gegn því verði ekki lengur nýt afsökun til beitingar misréttis og valds. Það má hrósa utanríkisráðherra Íslands fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna nú í febrúar, en það er dæmi um að Ísland hefur tækifæri til að láta rödd sína heyrast alþjóðlega um það sem máli skiptir.

Eins er mikilvægt að þær aðgerðir sem gripið er til, bæði efnahagslegar og á vettvangi heilbrigðismála, virki sem mótvægi gegn þessu misrétti. Það er t.d. ekki réttlátt að allir Bretar, Ísraelsmenn eða Íslendingar séu bólusettir á undan viðkvæmum hópum t.a.m. á Indlandi, í Bangladesh eða Kenýa. Covid krísan hefur opinberað betur en flest hinn djúpstæða ójöfnuð sem mannkynið býr við í því alþjóðakerfi sem nú er við lýði. Einnig hefur hún opinberað skakkt gildismat hér á landi og hefur félagið Femínísk fjármál bent á að aðgerðir íslenskra stjórnvalda til „atvinnusköpunar“ miðist fyrst og fremst við störf sem karlar gegna í miklum meirihluta, eins og í byggingariðnaði – sem reyndar er ekki í neinni kreppu – og svo megi búast við aðhaldsaðgerðum í geirum sem eru að miklu leiti mannaðir konum, eins og í heilbrigðis- og menntageiranum.

Auðvitað er erfitt fyrir okkur Íslendinga að breyta ójöfnuði alþjóðakerfisins, þó vissulega höfum við rödd langt umfram fólksfjölda í þeim stofnunum sem við tökum þátt í. En við getum að minnsta kosti horft í eigin rann og tryggt að viðkvæmustu hóparnir og þeir sem virkilega þurfa á liðsinni að halda til að glíma við afleiðingar þessarar fordæmalausu krísu fái þann stuðning sem þeir þurfa á að halda. Við þurfum að horfa gaumgæfilega á það sem gerst hefur undanfarið ár og læra af því. Þannig getur það orðið okkur til þroska og það er líklega það eina góða sem getur komið út úr þessu ástandi.

Höfundur er doktor í stjórnmálafræði. Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. mars.