Ríkisstjórnin talar tungum tveim

Sóttvarnarráðstafanir hafa enn á ný verulega íþyngjandi áhrif á daglegt líf okkar. Þetta eru eðlileg viðbrögð sóttvarnarlæknis sem sér smitum fjölga á ógnarhraða í samfélaginu með áður óþekktum hætti.

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Börn og ungmenni virðast smitast mun frekar af þessu breska afbrigði og eins og sóttvarnarlæknir segir þá er eitt smit nóg til að koma af stað nýrri bylgju.

Landamærin okkar leka þrátt fyrir að nú sé krafist neikvæðs Covid-vottorðs af ferðafólki og tvöföld sýnataka framkvæmd með sóttkví á milli. Eftirlit með sóttkvínni er því miður lítil ef nokkur. Allt of margir segjast vita af fólki sem mætir til vinnu og skilar börnum í skóla þrátt fyrir að eiga að vera í sóttkví. Bara það að ekki sé fylgst með því hvernig fólk kemur sér af flugvellinum sendir þau skilaboð út í samfélagið að stjórnvöld hafi í raun ekki miklar áhyggjur af því hvort fólk virði sóttkví. Ef einungis 5% þeirra sem hingað koma svíkjast undan erum við í hverri viku með 70 einstaklinga sem geta borið smit út í samfélagið. Það skiptir því máli að auka varnirnar eða hætta þeim. Þetta hálfkák virðist ítrekað vera að koma okkur í vanda á sama tíma og ráðherrar ríkisstjórnarinnar senda afskaplega misvísandi skilaboð út um heim allan.

Í síðustu viku komu dómsmálaráðherra og ferðamálaráðherra út af ríkisstjórnarfundi og tilkynntu opnun á ferðir fólks utan Schengen svæðis á næstu dögum. Ferðafólk með vottorð um bólusetningu eða mótefni væri velkomið. Heilbrigðisráðherra birtist næst og sagði litakóðunarkerfi taka gildi 1. maí sem gæfi fólki frá grænum og gulum svæðum ákveðið frelsi á landamærum en eldrauð svæði þýddu skyldudvöl í sóttvarnarhúsi. Þá birtist forsætisráðherra og sagði að þrátt fyrir vottorð yrði fólk að fara í sýnatöku og sóttkví.

Það hefur gætt nokkurrar óþreyju í samfélaginu vegna þessara óskýru upplýsinga því þótt Evrópa sé með samræmt litakóðunarkerfi þá eru ríki utan Evrópusambandsins ekki með slíkt kerfi. Þá eru sum ríki með rauðar, gular og grænar borgir í bland. Þeir einstaklingar sem koma frá gulum og grænum svæðum mega þá koma með neikvætt Covid próf og fara í eina sýnatöku á landamærum en halda því næst út í samfélagið, óháð því hvaða ferðalag átti sér stað áður en í flug var haldið og hvar var millilent. Það hvernig farþegar landa utan litakóðunarkerfis eiga að einkenna sig er óljóst.

Bretar leggja bann á óþörf ferðalög og ætla að sekta fyrir slíkt á sama tíma og ríkisstjórn Íslands býður sömu ferðalanga velkomna til Íslands. Nýsjálendingar banna öll óþörf ferðalög en ef ferð er nauðsynleg þá verður viðkomandi að dvelja í 14 daga sóttkví í sóttvarnarhúsi. Já, landamærin okkar leka og munu gera það áfram ef þessar marglaga reglur hinna ýmsu ráðherra taka gildi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.