Bundnar hendur skólafólks

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður, skrifar um skólamál.

Oddný,
Oddný G. Harðardóttir Alþingismaður

Hugmyndin um skóla án aðgreiningar var innleidd í grunnskólalög á grundvelli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Salamanca yfirlýsingarinnar frá 1996 og gengur út á það að skóli skuli mæta sérhverju barni í námi og félagsstarfi óháð atgervi þess eða stöðu.

Þetta var upphaflega sett í lög til þess að styrkja stöðu fatlaðra barna þannig að þau megi sem best þroskast og dafna innan samfélagsins en ekki á jaðri þess. Þessi hugmyndafræði beinir ekki síður sjónum að kenningum um fjölgreind og þeirri staðreynd að sérhvert barn, strákur eða stelpa, fatlað sem ófatlað, innfætt eða aðflutt, er einstakt og hvert og eitt býr yfir eigin hæfileikum og getu. Öll börn þurfa að fá tækifæri til að þroska hæfileika sína hvort sem um er í bóknámi, verknámi eða listum.

Þessi hugsun hefur fært nýja sýn inn í skólastarf með aukna áherslu á samstarf kennara og starfsfólks og margir skólar hafa náð góðum árangri  með innleiðingu fjölbreyttra og sveigjanlegra kennsluhátta.

Hins vegar hafa stjórnvöld beinlínis unnið gegn þessum markmiðum með ofuráherslu á bókleg samræmd próf þar sem allir skulu mældir með sömu mælistikunni. Þá skal steypa alla í sama mót óháð styrkleika eða áhugasviði, sem hefur orðið til þess að skólar hafa veigrað sér við að víkja frá þeirri línu sem mun koma til prófs, á kostnað frumleika, sveigjanleika, verknáms og listgreina.

Slagorð um menntasókn verða eins og óþægilegt suð í eyrum skólafólks ef ekki fylgir breytt forgangsröðun og fjármunir til athafna.  

Það er ekki nokkur vafi að við þurfum að veita skólum meira svigrúm til að koma til móts við hvert og eitt barn, en fyrst og fremst þarf að veita kennurum  svigrúm til að vinna eftir aðalnámskrá án þess að vera með hendur bundnar og fætur hlekkjaða.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. apríl.