Fáránlega góð fjárfesting

Kristrún fréttabanner

Kristrún Frostadóttir skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir komandi þingkosningar.

Kristrún Frostadóttir Formaður Samfylkingarinnar

Við sjáum til lands og veiran er á undanhaldi. Það er uppgangur fram undan og hann verður að vera í þágu okkar allra. Samfylkingin kynnti í vikunni sex vinnumarkaðs- og skattatillögur sem miða að því að flýta ráðningum og gera fólki kleift að vinna sig hraðar upp eftir atvinnuleysi. Tillögurnar auka fyrirsjáanleika fyrirtækja og launafólks inn í veturinn, verja afkomuöryggi og draga úr kostnaði vegna atvinnuleysis.

1% atvinnuleysi kostar ríkissjóð 6 milljarða króna á ári og tillögur okkar munu borga sig upp á 1 til 2 árum með aukinni virkni í hagkerfinu og hraðari tekjuvexti. Ein mikilvægasta aðgerðin sem við viljum að komi til framkvæmda strax í sumar er skattafsláttur fyrir fólk sem snýr aftur til starfa eftir atvinnuleysi. Útfærslan er einföld og felst í því að einstaklingur fær tvöfaldan persónuafslátt í jafn marga mánuði og viðkomandi var atvinnulaus.

Um er að ræða virka vinnumarkaðsaðgerð sem gerir fólki kleift að vinna upp tekjufall hraðar og getur skipt sköpum fyrir fjölskyldur sem hafa þurft að ganga á sjóði sína eða safnað skuldum vegna atvinnuleysis. Þetta er góð hagstjórn og dregur úr ójafnaðaráhrifum kórónuáfallsins. Samhliða þurfum við að styrkja öryggisnetin okkar, skerpa á ráðningarstyrkjum til að auka fyrirsjáanleika yfir vetrartímann og styðja betur við námsmenn og nýútskrifaða til að varðveita fjárfestingu okkar í ungu fólki.

Við leggjum einnig til aukinn stuðning við stúdenta og ráðningarstyrk til sex mánaða eftir útskrift úr háskóla eða iðnnámi. Þetta er sú efnahagsstefna sem Samfylkingin vill sjá og upptaktur að nýrri hugsun á sviði efnahagsmála þar sem kostnaður í dag er metinn í samanburði við kostnað í framtíð og glötuð tækifæri.

Þetta er nútímahagstjórn í takt við alþjóðlega þróun. Okkur gengur vel í baráttunni gegn veirunni. Það er skilvirkum sóttvörnum, vísindum, alþjóðasamstarfi og heilbrigðisstarfsfólkinu okkar að þakka – en ekki síst samstöðu almennings. Nú skulum við sigrast á efnahagsáhrifum faraldursins saman. Við erum í dauðafæri. Fjárfestum í fólki, hröðum ráðningum og búum í haginn fyrir betri framtíð.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. maí.