Heilsuöryggi kvenna

Helga Vala fréttabanner

Helga Vala, þingmaður og þingframbjóðandi í Reykjavík norður - 1. sæti, skrifar hér um klúður heilbrigðisyfirvalda við flutning skimunar á leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslustöðva.

Frá síðustu áramótum hafa okkur ítrekað borist fréttir af klúðri heilbrigðisyfirvalda við flutning skimunar á leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslustöðva, Landspítala og danskrar rannsóknarstofu í Hvidovre. Starfsfólk allra þessara staða er vel hæft til sinna starfa en það breytir því ekki að ákvarðanataka heilbrigðisyfirvalda um flutning sýnanna úr landi og framkvæmdin í kjölfarið virðist vera svo illa unnin og ómarkviss að eftir standa þúsundir kvenna í óvissu um heilsufar sitt. Þessar konur hafa bent á vandann en ekki náð að opna augu heilbrigðisyfirvalda. Fjöldi heilbrigðisstarfsmanna hefur einnig látið í sér heyra undanfarna mánuði en ekkert er heldur á þá hlustað heldur haldið áfram með ferlið eins og ekkert sé.  

Á Alþingi hefur þetta dæmalausa ástand verið rætt margsinnis, hvort tveggja í þingsal sem og í Velferðarnefnd Alþingis. Þá hefur Alþingi, að frumkvæði allra þingmanna stjórnarandstöðu, samþykkt skýrslubeiðni til heilbrigðisyfirvalda um það hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmd þessarar ákvörðunar.

Eftir því sem málið er rætt frekar hér á Alþingi kemur æ betur í ljós hversu illa ígrunduð sú ákvörðun var að flytja öll leghálssýni úr landi. Svör virðast berast seint og illa frá hinni dönsku rannsóknarstofu til Íslands. Einnig hefur komið fram að færa þarf sýnin yfir á danskar kennitölur áður en þau eru send úr landi og þegar svörin berast tilbaka þarf að færa sýnin tilbaka yfir á íslenskar kennitölur viðkomandi kvenna. Þannig þarf að tvíbreyta grunnupplýsingum á þessum krabbameinssýnum og eykur það eitt og sér mjög á flækjustig og hættu á mistökum á að rangar upplýsingar berist umræddum konum. Loks hefur verið á það bent að þegar niðurstöður rannsókna kvenna, sem leitað hafa til kvensjúkdómalækna utan heilsugæslu, berast tilbaka til Íslands þá sé oft ansi djúpt á svörum til þeirra kvenna og ekki síður þeirra lækna sem þær þjónusta. Þeir læknar, sem vegna sjúkrasögu kvennanna þurfa að fá frekari upplýsingar um einstaka sýni, geta ekki eins og áður átt samtal við rannsóknaraðila, því lítil tenging er við rannsóknarstofuna ytra. Það getur skipt máli, að sögn sérfræðinga, hvort umrædd kona hafi einhverja sögu um frumubreytingar þegar teknar eru ákvarðanir um meðferð eða ekki. Þetta samtal hefur nú, vegna ákvarðana heilbrigðisyfirvalda, verið rofið og heilsuöryggi kvenna minnkar.  

Eftir að hafa heyrt álit fjölda sérfræðinga í málaflokknum held ég að ráð sé að færa þessar rannsóknir aftur til Íslands. Hér er þekking og tækjabúnaður til að annast þetta og þeim mun meiri tími sem líður í þeirri óvissu sem nú ríkir þeim mun meiri hætta er á að óafturkræft tjón eigi sér stað. Enginn vill bera ábyrgð á slíku.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. maí.