Menn sem óttast almannahagsmuni

Logi Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar er oddviti í Norðausturkjördæmi

Logi Einarsson Þingflokksformaður

Sólin hækkar enn á lofti og við hlökkum til sumarsins. Ef fram heldur sem horfir kemst lífið hér á landi í eðlilegra horf. Við getum klappað fyrir þríeykinu og öllu framlínufólki faraldursins, sem getur nú aftur horfið til annarra mikilvægra starfa fyrir samfélagið.

Það eru fjórir mánuðir til mikilvægra alþingiskosninga og ef ekki verður bakslag í baráttunni við veiruna, munu þær ekki snúast fyrst og fremst um sóttvarnaraðgerðir heldur hvers konar framtíð við kjósum okkur. Á hún að byggjast á aðferðum fortíðarinnar eða eigum við að nota tækifærið til að læra af mistökum fyrri tíma? Brýnna er en nokkru sinni að takast á við mikilvægustu verkefnin sem síðasta öld skildi eftir handa okkur að leysa: loftslagsógnina og misskiptingu. Ekki síst munu þær snúast um nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja lýðræði umfram ofurvald sérhagsmuna.

Farsæl framtíð okkar er komin undir því að almannahagsmunir ráði ferðinni en ekki sérhagsmunir. Næstu kosningar munu því í ríkari mæli en oft áður snúast um grundvallarafstöðu í stórum málum. Ríkisstjórn of ólíkra flokka sem kallar á miklar málamiðlanir, og leiðir til kyrrstöðu í lykilmálum, er því alls ekki svarið sem við þurfum nú.

Almannahagur í stað sérhagsmuna

Við í Samfylkingunni viljum að almannahagur sé alls staðar hafður að leiðarljósi. Við viljum byggja samfélag þar sem börn geta vaxið áhyggjulaus úr grasi, þar sem jafnvægi ríkir milli vinnu og einkalífs og þar sem allur almenningur hefur aðgang að öruggu húsnæði og gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Við viljum stokka upp í flóknum kerfum og gera þau gagnsærri og mannlegri, svo þau þjóni þörfum fólks.

Við viljum auka verðmætasköpun, fjölga stoðum undir efnahagslífið til að draga úr sveiflum. Það heyrist oft talað um þetta og virkar stundum eins og orðin tóm en þetta er raunverulega hægt. Þá verður hins vegar að styrkja markvisst nýsköpun og hugvitsiðnað, og tryggja fólki jafnan aðgang að fjölbreyttri menntun og þjálfun sem kallast á við þá stefnu. Samhliða þessu er það risastórt verkefni að mæta óhjákvæmilegum breytingum á vinnumarkaði sem fylgja tæknibyltingu, aukinni alþjóðavæðingu og loftslagsvá. Í tengslum við allt þetta viljum við stíga miklu stærri og markvissari skref í loftslagsmálum.

Réttlátari skiptingu gæða

Við viljum tryggja réttlátari skiptingu gæða, m.a. með skattkerfi sem styður við lág- og millitekjuhópa en hyglir ekki auðmönnum og mikilvægum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Við viljum nýja stjórnarskrá og festa í sessi þjóðareign auðlinda og tímabindingu afnota af þeim svo að eðlileg endurnýjun eigi sér stað og réttlátur arður renni til þjóðarinnar af sameiginlegum auðlindum.

Við viljum horfa opnari augum til umheimsins, gefa þjóðinni val um endurupptöku aðildarviðræðna við Evrópusambandið og setja okkur metnaðarfulla græna utanríkisstefnu, þar sem við nýtum rödd okkar á alþjóðavettvangi til að stuðla að friði, jöfnuði og sjálfbærni.

Græn félagshyggjustjórn er svarið

Samfylkingin hefur verið heiðarleg í afstöðu sinni til mögulegrar setu í ríkisstjórn og gert kjósendum það ljóst hvað það mun tákna að loknum kosningum að kjósa hana, ólíkt þeim flokkum sem „ganga óbundnir til kosninga“. Við teljum nauðsynlegt að mynda græna félagshyggjustjórn, frá miðju til vinstri. Við teljum líka að við séum það afl sem geti leitt saman þessa flokka, eins og dæmin sanna víða um land í sveitarstjórnum.

Það að hafna samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn eftir kosningar er ekki af tilefnislausu. Við erum sannfærð um að stefna jafnaðarmanna verði að ráða för við að takast á við mikilvæg verkefni og nauðsynlega uppstokkun úreltra kerfa. Það krefst samhentrar og framsýnnar ríkisstjórnar sem er reiðubúin til að ráðast gegn ríkjandi ójöfnuði og er jafnframt nægilega djörf og skapandi til að ganga keik til móts við spennandi en flókna framtíð; með hag allra að leiðarljósi.

Þetta óttast sérhagsmunaöflin skiljanlega. Við höfum séð að undanförnu hvernig sterkir hagsmunahópar og einstök fyrirtæki hafa grímulaust beitt einstaklega óvönduðum meðölum m.a. í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þá hafa auðugir einstaklingar jafnvel keypt dýru verði óskammfeilnar útvarpsauglýsingar gegn Samfylkingunni, með rangfærslum og árásum.

Þetta sýnir þá ógn sem sérshagsmunaöflin telja sér stafa frá Samfylkingunni. Þessir menn munu ekki linna látum í þessari baráttu, enda er þeim ljóst að að gott gengi Samfylkingarinnar er tryggasta leiðin til að koma í veg fyrir að hörðustu íhaldsöflin hafi stöðugt tögl og hagldir við stjórn landsins og stýri áfram í þágu sérhagsmuna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. maí 2021.