Týnda kynslóðin: Eldri borgarar

Viðar Eggertsson, leikstjóri og verðandi eldri borgari skipar 3. sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar samdi ný lög um almannatryggingar sem tóku gildi í ársbyrjun 2017, „gleymdu“ þau þúsundum eldri borgara; lokuðu hreinlega augunum fyrir stöðu þeirra. Lögin spegluðu sýndarveruleika en ekki raunveruleikann.

Þarna „týndust“ þúsundir eldri borgara sem eftir lagasetninguna búa við óásættanlegan raunveruleika eftirlauna undir framfærsluviðmiðunum og síðan þúsundir sem rétt dansa á hengifluginu, þar sem ekkert má koma upp á sem hendir þeim fram af. Þá nægja óvænt lítils háttar aukaútgjöld eins og brostin pípulögn eða brotin rúða á heimilinu, að ekki sé talað um ef svo óheppilega vill til að tönn brotni til að þau komast nánast á vonarvöl. Því þá er atvikið orðið harmleikur sem setur fjárhag þessa fólks í uppnám.

Ekki tók betra við með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur

Eftir að lögin tóku gildi fyrir rúmum fjórum árum hefur sigið enn meir á ógæfuhliðina fyrir allt þetta „týnda“ fólk og það í boði ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Ellilífeyrir hefur að raungildi lækkað og er auk þess orðinn um 90.000 kr. lægri en lægstu laun á vinnumarkaði. Síðan bætast við óhóflegar skerðingar vegna lífeyrissjóðstekna sem hafa aukist síðan lögin tóku gildi í raun. Frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna upp á kr. 25.000 hefur ekki haggast í þessi fjögur ár þrátt fyrir síhækkandi verðlag og launavísitölu.

Lífeyrissjóðakerfið okkar hefur enn ekki náð fullum þroska og eftirlaun sjóðanna því ekki nægjanleg til framfærslu í flestum tilfellum. Þrátt fyrir þessa staðreynd þurfa eldri borgarar að sæta miklum tekjuskerðingum í almannatryggingum, þegar eftirlaunaaldri er náð.

Það má með réttu slá föstu að lög um almannatryggingar sem tóku gildi fyrir rúmum fjórum árum voru miðuð við stöðu mála í framtíðinni, kannski eftir 15-20 ár. En ekki eins og raunveruleg staða er í dag.

Bláeygður fjármálaráðherra

Þetta á við flest eldra fólk en vissulega ekki allt. Hvernig er hægt að vera fjármálaráðherra meira og minna frá árinu 2013 og horfa blákalt í augu þúsunda eldri borgara og segja: „Þið hafið aldrei haft það eins gott“? Þetta getur eingöngu sá sagt sem aldrei hefur allt sitt líf þurft að deila kjörum með fátæku fólki, aldrei þekkt fátækt fólk, aldrei umgengist fátækt fólk. Þetta getur sá einn sagt sem getur auðveldlega týnt fólki.

Fullur ellilífeyrir fyrir skatt og skerðingar er aðeins 266.033 kr. Samkvæmt upplýsingum frá TR þá fengu eingöngu 2.284 þennan ellilífeyri óskertan fyrir utan skatt. Það eru tugþúsundir eldri borgara sem þurfa að lifa á rauntekjum upp á 200.000-290.000 kr. Slík er meðferðin á eldri borgurum í almannatryggingakerfinu okkar. Nánast afnám allra frítekjumarka og 45% skerðingarmörk hefur í för með sér að eldra fólki með lágar tekjur eru flestar bjargir bannaðar.

Þungar álögur af litlum efnum

Þetta er „týnda fólkið“, sem hefur bæði lagt til hliðar lífeyrissparnað með greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóðina síðustu áratugina, oft af litlum efnum, og auk þess greitt eftirlaun til kynslóðarinnar þar á undan, sem ekki átti þess kost að greiða í lífeyrissjóði. Þess vegna er um að ræða tvöfalda lífeyrisbyrði hjá eldra fólkinu í dag.

Þessu verðum við að breyta. Þessu ætlum við að breyta.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. maí 2021.