Ævi­tekjur kvenna

Þórunn Sveinbjarnardóttir skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar

Í um­ræðu um launa­mun kynjanna á ís­lenskum vinnu­markaði gleymist stundum að horfa á stóru myndina. Svo virðist sem öll á­hersla sé lögð á að skýra burt þann kyn­bundna launa­mun sem finnst. Að mínu á­liti skekkir það myndina sem nauð­syn­legt er að skoða og færir um­ræðuna frá aðal­at­riðum yfir í auka­at­riði.

Um­ræðan um launa­mun kynjanna þarf að snúast um heildar­tekjur og þar af leiðandi um ævi­tekjur kynjanna.

Ævi­tekjur kvenna á Ís­landi eru að jafnaði 20% lægri en ævi­tekjur karla. Árið 2019 var meiri­hluti kvenna hér á landi í neðri helmingi tekju­stigans. Enn eru konur á vinnu­markaði „til færri fiska metnar“ og gildir þá einu hvort þær hafa lokið há­skóla­námi eða ekki.

Árið 2019 var munurinn á tíma­kaupi sér­fræðinga 18%, það er, tíma­kaup karlanna var 18% hærra en kvennanna!

Hvaða þýðingu hefur það að konur hafi að jafnaði 20% lægri tekjur en karlar yfir ævina? Það dregur úr fjár­hags­legu sjálf­stæði kvenna og rýrir hlut­verk þeirra sem fyrir­vinna á sínu heimili.

Eftir­launin verða lægri en karla og því er mun lík­legra að konur búi við fá­tækt þegar þær verða gamlar en karlar. Konur eru þorri ein­stæðra for­eldra hér á landi. Lægri tekjur draga meðal annars úr mögu­leikum barna þeirra til tóm­stunda og fram­halds­náms.

Konur sem starfa í kvenna­stéttum upp­lifa líka sterkt að fram­lag þeirra á vinnu­markaði er lítils metið. Það hefur bein á­hrif á sjálfs­mynd og sjálfs­traust margra kvenna. Skila­boðin eru skýr: Störf kvenna eru minna virði en störf karla.

Það er komið að kvenna­stéttunum. Sam­fylkingin vill beita sér fyrir því að styrkja stöðu kvenna á vinnu­markaði og hækka launa­setningu kvenna­stéttanna. Kjara­samningar eru að sjálf­sögðu gerðir á milli aðila vinnu­markaðarins en það skiptir miklu að hin pólitísku skila­boð séu skýr og tæki­færin nýtt til að bæta stöðu kvenna á vinnu­markaði.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. júní