Rauði þráðurinn

Rauði þráðurinn er vikuleg samantekt af helstu fréttum frá okkar kjörnu fulltrúum á þingi og í sveitarstjórnum.

Eldhúsdagar, skimanir og vanfjármögnuð hjúkrunarheimili

 

Logi, Oddný og Rósa tóku þátt í eldhúsdagsumræðum í vikunni. Þar gerðu þau upp störf þings og ríkisstjórnar síðastliðin fjögur ár.

Helga Vala Helgadóttir spurði forsætisráðherra út í tilfærslu á skimun fyrir leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélaginu um áramótin til heilsugæslunnar og flutning greininga sýna frá félaginu til útlendrar greiningarstofu. Undanfarið ár hefur verið mjög löng bið eftir niðurstöðum.

Ríkisstjórnin hafnaði öllum breytingartillögum Samfylkingarinnar við fjármálaáætlun til næstu 5 ára. Oddný Harðardóttir vakti athygli á, í ræðu sinni um fjármálaáætlun, að samkvæmt þessari áætlun munu kjör aldraðra og öryrkja ekki verða bætt, löggæslan verður áfram fjársvelt og biðlistar í heilbrigðiskerfinu munu halda áfram að lengjast. Þá er metnaðarleysi í loftslagsmálum algjört og ríkisstjórnin boðar leið niðurskurðar. Hún boðar gamaldags leið sem meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur varað við.

Logi Einarsson spurði heilbrigðisráðherra út í vanfjármögnuð hjúkrunarheimili. Samfylking leggur áherslu á sterkt opinbert heilbrigðiskerfi sem tryggir almenningi um allt land aðgang að gjaldfrjálsri þjónustu. Vanfjármögnuð hjúkrunarheimili hafa leitt af sér að sveitarfélög neyðist til að segja upp samningi um rekstur þeirra og ríkið semji því í kjölfarið við einkahlutafélög.

Félagshyggja í Fjarðabyggð

Fjarðalistinn er félagshyggjuframboð í bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Forseti bæjarstjórnar og oddviti Fjarðalistans, Eydís Ásbjörnsdóttir, hefur verið flokksbundin í Samfylkingunni frá stofnun hennar og skipar nú þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

Í málefnasamningi meirihluta Fjarðalista og Framsóknarflokks eru skýrar áherslur á velferð og bætt lífsgæði fjölskyldna í Fjarðabyggð.

Á kjörtímabilinu hefur velferð og jöfnuður verið sérstakt leiðarljós í allri vinnunni og staðið hefur verið vörð um hag fjölskyldufólks. Gjaldskrár leikskóla, frístundaheimila og tónlistarskóla standast vel samanburð við önnur sveitarfélög og eru með því hagstæðasta sem þekkist á landinu.

Frá upphafi kjörtímabils hafa verið tekin skref í lækkun gjaldskrá skólamáltíða í Fjarðabyggð, en máltíð sem kostaði 450 kr. árið 2018 kostar 150 kr. í dag.  Skólamáltíðir í leik- og grunnskólum verða gjaldfrjálsar frá haustinu 2021 sem er gríðarlega mikilvægt skref til að geta boðið öllum börnum upp hollan mat óháð efnahag foreldra, auk þess að spara barnafólki talsverðar upphæðir á hverju ári. 

Mikil áhersla hefur verið lögð á eflingu snemmtækrar íhlutunar með verkefni sem kallast Sprettur. Sprettur gengur út á teymisvinnu fagfólks og foreldra með því markmiði að börn sem lenda í einhverskonar vanda fái sem fyrst viðeigandi aðstoð áður en vandinn dýpkar. Verkefnið fór af stað á árinu 2020 og miklar væntingar eru um að það skili árangri í að fyrirbyggja þjáningar barna og foreldra. Verkefnið mun til lengri tíma einnig skila fjárhagslegum ávinningi.  

Fjarðabyggð byggir á traustum grunni öflugs iðnaðar, fiskveiða og  fiskvinnslu. Mikilvægt er að leggja áherslu á örugga innviði um allt land, þeir eru grunnstoð velferðar og öflugs atvinnulífs.

Þrátt fyrir þrönga fjárhagsstöðu vegna loðnubrests og heimsfaraldurs hafa þessir þættir gert Fjarðabyggð kleift að gera samfélagið sem lífvænlegast og stuðlað að jöfnuði og velferð fyrir alla íbúa.