Kjölfesturnar tvær

Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur, skipar 1. sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður

Við getum skipt hagkerfinu í tvo hluta. Annar sækir fram en hinn skapar kjölfestu sem sóknin byggir á. Fyrirtæki sem sækja fram á alþjóðlegum mörkuðum, stundum kölluð alþjóðageirinn, tilheyra sókninni sem mestar væntingar eru til. Þó hugvitið á bakvið geirann sé vissulega óþrjótandi þarf meira til að virkja hugvitsdrifna verðmætasköpun.
Alþjóðageirinn þarf kjölfestu sem öflugt velferðarkerfi veitir. Fólk þarf að þora að taka áhættuna sem felst í því að stofna fyrirtæki án þess að hafa áhyggjur af því að eiga ekki fyrir grunnþörfum. Þannig verða verðmæti til, með hugmyndaleit einstaklinga og velferðarkerfið sem bakhjarl. Við viljum ekki lifa í samfélagi þar sem tækifæri til slíkra ævintýra erfast. Hverra manna þú ert á ekki að skilgreina hvar þú starfar, sækir fram eða hvort þú treystir þér til að stofna fyrirtæki. Stuðningsnetið sem velferðarkerfið veitir, og þau sem þar starfa, eiga þannig drjúgan þátt í þeirri verðmætasköpun sem oft er eignuð sóknargeirum. Án þeirra myndi stór hópur fólks með frábærar hugmyndir aldrei geta fylgt þeim eftir.
Gengisstöðugleiki er önnur lykilbreyta í vexti alþjóðageirans. Alþjóðlegri sókn fylgir talsverð rekstraráhætta fyrir fyrirtæki þar sem launakostnaður er í íslenskum krónum en tekjur í erlendum gjaldmiðli. Umræðan um gjaldmiðilinn tekur alltof mikið mið af áskorunum fortíðarinnar. Óskað er eftir gengisstöðugleika, en inngöngu í myntbandalag ýtt til hliðar á þeim forsendum að fastgengi henti illa sveiflukenndu hagkerfi. Hugmyndin á bakvið uppbyggingu nýrrar stoðar í íslenskum útflutningi er einmitt að minnka sveiflur í útflutningi sem hafa fylgt okkar hrávöruhagkerfi, að sækja í auknum mæli í þjónustuútflutning sem samþættir sveiflur hagkerfisins við sveiflur viðskiptalanda okkar. Með því er ætlunin að aflétta því ástandi sem margir telja að kalli á sveigjanlegan gjaldmiðil.
Þessar tvær kjölfestur, velferðarkerfið og gengisstöðugleiki, eru forsendur þess að alþjóðageirinn vaxi og dafni á Íslandi og að hér verði til spennandi og vel launuð störf. Þangað skulum við stefna, úr einhæfu og sveiflukenndu hagkerfi fortíðar til móts við fjölbreytt og þróttmikið hagkerfi morgundagsins.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. júní.