Kjölfesturnar tvær

Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur, skipar 1. sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður

Kristrún Frostadóttir Formaður Samfylkingarinnar

Við getum skipt hag­kerfinu í tvo hluta. Annar sækir fram en hinn skapar kjöl­festu sem sóknin byggir á. Fyrir­tæki sem sækja fram á al­þjóð­legum mörkuðum, stundum kölluð al­þjóða­geirinn, til­heyra sókninni sem mestar væntingar eru til. Þó hug­vitið á bak­við geirann sé vissu­lega ó­þrjótandi þarf meira til að virkja hug­vits­drifna verð­mæta­sköpun.

Al­þjóða­geirinn þarf kjöl­festu sem öflugt vel­ferðar­kerfi veitir. Fólk þarf að þora að taka á­hættuna sem felst í því að stofna fyrir­tæki án þess að hafa á­hyggjur af því að eiga ekki fyrir grunn­þörfum. Þannig verða verð­mæti til, með hug­mynda­leit ein­stak­linga og vel­ferðar­kerfið sem bak­hjarl. Við viljum ekki lifa í sam­fé­lagi þar sem tæki­færi til slíkra ævin­týra erfast. Hverra manna þú ert á ekki að skil­greina hvar þú starfar, sækir fram eða hvort þú treystir þér til að stofna fyrir­tæki. Stuðnings­netið sem vel­ferðar­kerfið veitir, og þau sem þar starfa, eiga þannig drjúgan þátt í þeirri verð­mæta­sköpun sem oft er eignuð sóknar­geirum. Án þeirra myndi stór hópur fólks með frá­bærar hug­myndir aldrei geta fylgt þeim eftir.

Gengis­stöðug­leiki er önnur lykil­breyta í vexti al­þjóða­geirans. Al­þjóð­legri sókn fylgir tals­verð rekstrar­á­hætta fyrir fyrir­tæki þar sem launa­kostnaður er í ís­lenskum krónum en tekjur í er­lendum gjald­miðli. Um­ræðan um gjald­miðilinn tekur allt­of mikið mið af á­skorunum for­tíðarinnar. Óskað er eftir gengis­stöðug­leika, en inn­göngu í mynt­banda­lag ýtt til hliðar á þeim for­sendum að fast­gengi henti illa sveiflu­kenndu hag­kerfi. Hug­myndin á bak­við upp­byggingu nýrrar stoðar í ís­lenskum út­flutningi er ein­mitt að minnka sveiflur í út­flutningi sem hafa fylgt okkar hrá­vöru­hag­kerfi, að sækja í auknum mæli í þjónustu­út­flutning sem sam­þættir sveiflur hag­kerfisins við sveiflur við­skipta­landa okkar. Með því er ætlunin að af­létta því á­standi sem margir telja að kalli á sveigjan­legan gjald­miðil.

Þessar tvær kjöl­festur, vel­ferðar­kerfið og gengis­stöðug­leiki, eru for­sendur þess að al­þjóða­geirinn vaxi og dafni á Ís­landi og að hér verði til spennandi og vel launuð störf. Þangað skulum við stefna, úr ein­hæfu og sveiflu­kenndu hag­kerfi for­tíðar til móts við fjöl­breytt og þrótt­mikið hag­kerfi morgun­dagsins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. júní.