Lykillinn að framtíðinni - lífsgæði venjulegs fólks

Við eigum að fjárfesta í fólki, styðja fjölskyldurnar og gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðan, skapa íslenskum heimilum öryggi. Þetta margborgar sig hvernig sem á það er litið. Þetta er lykillinn að framtíðinni.

Öruggt húsnæði er grunnþörf sem allir eiga rétt á, þetta er mannréttindamál. Stöðugur húsnæðismarkaður dregur líka úr efnahagssveiflum, styður við atvinnulífið, treystir hagkerfið - og getur um leið verið besta leiðin til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum. Samfylkingin leggur þess vegna til að ríkið stuðli að stöðugri, betri og grænni uppbyggingu. Til þess þurfum við skýra framtíðarsýn og við eigum að vera óhrædd við að beita hinu opinbera á markvissan hátt.

Öll börn eiga rétt á því að geta vaxið áhyggjulaus úr grasi og fá sömu tækifæri óháð efnahag, búsetu eða bakgrunni. Síðustu ár hefur verið grafið undan stuðningi við barnafjölskyldur á Íslandi, allt of mörg börn búa við þröngan og óöruggan húsakost, stór hluti barna hefur engan aðgang að tómstundastarfi og biðlistar á barna- og unglingageðdeild hafa aldrei verið lengri. Samfylkingin vill umbylta fjárhagslegum og félagslegum stuðning við börn og foreldra.

ÖRUGGT HÚSNÆÐI FYRIR ALLA

Minnkum spennu á markaði, tryggjum framboð, aukum húsnæðisöryggi leigjenda, drögum úr sveiflum og aukum nýsköpun og græna framþróun!

STÖÐUGRI UPPBYGGING: Við viljum gera sérstakt átak til að tryggja uppbyggingu fjölbreyttra íbúða og sjá til þess að fjórðungur byggingarmagns verði fyrir almennar íbúðir, félagslegar íbúðir eða aðrar leiguíbúðir. Við viljum að ríkið beiti sér með markvissari hætti til að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði og heilbrigðari leigumarkaði sem mun draga úr sveiflum í efnahagslífinu.

BETRI UPPBYGGING: Við viljum að ríkið móti raunverulega stefnu í nýsköpun og rannsóknum í byggingariðnaði og tryggi fjármagn til þess. Það er algjör forsenda þess að hægt sé að hraða  framþróun, auka gæði og byggja upp græna byggð í öllum landshlutum. Við viljum endurskoða starfsemi byggingarfulltrúaembætta með það að markmiði að gera verkefni þeirra þjónustumiðaðri. Og við viljum endurskoða hina íslensku byggingarreglugerð og samræma við hin norrænu ríkin til að auðvelda uppbyggingu án þess að gefa eftir í gæðum.

GRÆNNI UPPBYGGING: Við viljum nýta græna hvata til uppbyggingar svo unnt sé að ná loftslagsmarkmiðum. Það verður að flétta loftslagsstefnu inn í öll skipulagsmál, græn innkaup og fjárfestingar hins opinbera. Kraftmikil uppbygging með þéttingu byggðar er lykilatriði. Sérstök áhersla verði lögð á aðgengi að almenningssamgöngum við uppbyggingu almennra íbúða í þéttbýli um allt land og tekinn upp sérstakur almenningssamgöngupassi fyrir námsmenn og leigjendur á lágum tekjum.

FJÖLSKYLDUVÆNT SAMFÉLAG

Umbyltum stuðningi við barnafjölskyldur á Íslandi, setjum á norrænt barnabótakerfi og styðjum við foreldra með hærri fæðingarorlofsgreiðslum. Tryggjum börnum jafnt aðgengi að tómstundum og gjaldfrjálsri geðheilbrigðisþjónustu um allt land!

MEIRI FJÁRHAGSSTUÐNINGUR VIÐ BARNAFJÖLSKYLDUR: Umbyltum barnabótakerfinu fyrir fjölskyldurnar í landinu. Greiðum þær út mánaðarlega, hækkum fjárstuðning og höfum þær óskertar upp að meðallaunum. Hækkum greiðslur fæðingarorlofs sem hafa ekki fylgt verðlagi og leitum leiða til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hækkum gólf á fæðingarorlofsgreiðslur svo að foreldrar á lágmarkslaunum haldi 100% af tekjum sínum. Hækkum fæðingarstyrk fyrir stúdenta og foreldra utan vinnumarkaðar.

ÖLL BÖRN EIGA AÐ GETA TEKIÐ VIRKAN ÞÁTT Í TÓMSTUNDASTARFI: Hátt í fimmtungur barna á Íslandi tekur ekki þátt í íþrótta- tónlistar- myndlistar- eða öðru ungmennastarfi. Í þessu birtist mikill ójöfnuður sem verður að leiðrétta. Ríkið verður að tryggja sveitarfélögum nægt fjármagn í þessu skyni og veita styrki til verkefna sveitarfélaga og félagasamtaka sem stuðla að félagslegri virkni ungs fólks. Við viljum ráðast í að móta aðgerðaráætlun um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna með skilgreindum ábyrgðar- og framkvæmdaraðilum. Slíkt skilar sér margfalt til baka. Sérstakt átak verði fyrir jaðarsett börn.

FRAMKVÆMUM STÓRÁTAK Í GEÐHEILBRIGÐISMÁLUM: Geðheilsu barna og unglinga á Íslandi er að hraka með vaxandi einkennum kvíða og þunglyndis. Það er ólíðandi. Við viljum að niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu verði fjármögnuð ­– og byrjað á því að gera sálfræðiþjónustu barna og unglinga upp að 25 ára aldri gjaldfrjálsa. Útrýmum biðlistum á BUGL og tryggjum börnum með alvarlegar þroskaskerðingar greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra. Eflum geðheilbrigðisþjónustu um allt land með því að fjölga geðlæknum í föstum stöðum á landsbyggðunum.