Lykillinn að framtíðinni - ræða formanns

Kæru vinir, það er gott að vera hér í dag í þessu fjölmenni. Loksins hittumst við aftur eftir rúmlega ár af rafrænum lausnum.

Ekkert kemur í staðinn fyrir það að hittast augliti til auglits í pólitísku stuði, og ég gleðst innilega yfir að við séum hér saman í upptakti að kosningunum í haust.

Sumarið er framundan og stemmingin öll á uppleið. Fólk að plana ferðalög, á hvaða bensínstöð eigi að leysa út ferðagjöfina frá ríkisstjórninni og við unnum næstum því Júróvisjón - annað árið í röð! Geri aðrir betur.

Brátt verðum við vonandi laus við veirufjandann, glaðbeitt og búin að taka þátt í árgangamótinu í bólusetningum.

Við þökkum Víði, Ölmu, Þórólfi og öllum þeim sem stóðu vaktina og héldu okkur á floti gegnum faraldurinn. Við vorum heppin að eiga þau að í gegnum þetta kóf – og við skulum standa upp og klappa fyrir þeim.

 

Kæru félagar,

Í haust blasir hins vegar önnur mynd við. Þá þurfum við vonandi ekki að takast á um sóttvarnaraðgerðir – heldur um það hvernig framtíð við ætlum að byggja hér út úr faraldrinum.

Yfirskrift fundarins okkar í dag er Lykillinn að framtíðinni. Þessi lykill felst í fjárfestingu í fólki, stuðningi við fjölskyldur og heilbrigðum húsnæðismarkaði. Þessi verkefni eru góð í sjálfu sér. En þau borga sig líka - því hér er á ferðinni undirstaða öflugs efnhagslífs og hagvaxtar.

Því miður hefur stuðningur við fjölskyldur dregist saman síðustu ár og engin breyting orðið á því í tíð sitjandi ríkisstjórnar. Ef ekkert verður að gert, mun það grafa undan samfélagsgerðinni og verðmætasköpun. Við getum snúið vörn í sókn. Við getum valið betri leið.

Á eftir munu glæsilegir frambjóðendur Samfylkingarinnar úr öllum kjördæmum kynna nokkur lykilmál okkar fyrir fjölskyldur þessa lands.

Við trúum því að verkefni okkar í stjórnmálum sé fyrst og fremst að tryggja lífskjör og lífsgæði venjulegs fólks og þá þurfi að byrja á heimilunum og fjölskyldunum.

Það eru einnig klassísk mál jafnaðarmanna um allan heim, því engar framfarir hafa orðið á þessum sviðum nema jafnaðarmenn hafi komið þar að.

Við erum stolt af sögunni okkar, stolt af uppbyggingu á félagslegu húsnæði, stolt af leikskólabyltingunni og einsetningu skóla í samstarfi við verkalýðshreyfingu og sveitarfélög.

Og við erum stolt af forverum okkar, sem voru óþreytandi að berjast fyrir sínum hjartans málum – og hikuðu ekki við að standa uppí hárinu á íhaldsöflunum sem reyndu að leggja steina í götur framfara.

Kæru vinir, verum stolt af afrekum okkar fólks og glæsilegri sögu íslenskra jafnaðarmanna og nýtum hana sem vegarnesti í átt að nýjum sigrum fyrir flokkinn okkar og fjölskyldurnar í landinu.

Kæru félagar,

Við erum ekki síst mætt á þennan auka flokksstjórnarfund til að búa okkur betur undir kosningarnar í haust – ég vil í því sambandi þakka tugum sjálfboðaliða sem hafa að undanförnu hringt þúsundir símtala til flokksfólks til að undirbúa slaginn. Og gaman að sjá mörg þeirra hér í dag.

Hápunktur fundarins er svo staðfesting á listum flokksins í öllum kjördæmum. Það verður sannarlega gleðilegt að bera þá upp.

Á þeim er spennandi blanda af þekktum andlitum og nýjum, ungu fólki og eldra; þingmönnum, sveitarstjórnarfólki, ásamt kempum úr atvinnulífinu og félagsmálum vítt og breitt af landinu.

Kæru vinir

Við erum breiður flokkur og þó að jafnaðarhugsjónin sameini okkur er eðlilegt að við tökumst á um leiðir að markmiðum eða hverjir bera stefnuna fram. Og þegar það bætist ofan á þann blóðhita sem einkennir oft hugsjónafólk, getur stundum orðið ansi heitt í kolunum. Og við skulum láta það vera styrk okkar en ekki fjötur um fót.

Notum sannfæringu okkar til að skapa deiglu og styrkja hvort annað, þannig að flokknum takist að komast í lykilstöðu 25. september. Virkjum hugsjónaeldinn til að ná árangri í kosningunum og koma áherslum jafnaðarmanna í ríkisstjórn Íslands að nýju.

Kæru vinir,

Það má eiginlega segja að erindi okkar við almenning megi helst finna í nafni flokksins: Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokki Íslands.

Rauði þráður okkar er sá að við trúum því innilega að samfélag byggt á miklum jöfnuði sé heilbrigðara, friðsælla og framsæknara en önnur.

Mörgum þykir það ótrúlegt, nú þegar liðið er á 21. öldina, trúa  sumir pólitískir keppinautar okkar enn á brauðmolakenninguna og telja að mikill jöfnuður sé þess vegna ekki eftirsóknarverður.

Við þá er auðvelt að kljást; hægt að vísa í fjölda alþjóðlegra rannsókna eða draga fram dæmi af sterkustu samfélögum veraldarsögunnar sem byggja á miklum jöfnuði og miklum félagslegum hreyfanleika.

Það er núna auðveldara að lifa ameríska drauminn í Svíþjóð en Bandaríkjunum sjálfum. Og við þurfum að halda vel á spöðunum til að Ísland verði ekki sömu öflum að bráð. Þau ráða nú þegar allt of miklu.

Aðrir reyna að slá okkur út af laginu og benda á að tekjujöfnuður sé með því mesta í heiminum og hér sé því allt í stakasta lagi. Þetta heyrum við frá jafnvel skynsömustu pólitíkusum.

Og vissulega er margt gott á Íslandi og við erum heppin að búa hér og því er ekki síst þakka áratugalangri baráttu verkalýðshreyfingarinnar og jafnaðarmanna.

En ójöfnuður er lúmskur fjandi. Hann er ekki alltaf augljós; getur verið illgreinanlegur og á sér ótal birtingarmyndir. Hann er ekki hótinni skárri fyrir því en þeim mun erfiðari viðureignar. Það er okkar að hafa upp á því hvar hann er að finna, greina hann, og finna leiðir til að uppræta hann.

Kæru félagar, Augljósasta birtingarmynd ójöfnuðar í íslensku samfélagi, er kannski hinn efnahagslegi ójöfnuður. Við sjáum oft fréttir af óhófi fólks sem kann ekki aura sinna tal og annarra sem geta ekki útvegað börnum sínum fæði, klæði eða öruggt húsnæði; hvað þá þátttöku í tómstundum; sem býr þá til nýjan ójöfnuð; hinn félagslega.

Þegar bent er á þetta er yfirleitt stutt í að fjármálaráðherra stökkvi fram og bendi á meðal kaupmátt eða kaupmáttaraukningu ársins. En meðaltölin sýna ekki raunveruleika allra.

Nú á tíma heimsfaraldurs - þar sem einungis hluti þjóðar hefur borið uppi allt efnahagshöggið - höfum við einmitt séð mjög skýrt, hversu lítið samhengi getur verið á milli meðaltala og aðstæðna einstakra hópa.

Ómarkvissar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa orðið til þess að hér á er að verða það sem hagfræðingar kalla K-laga kreppa: þar sem sumir verða miklu efnaðri, en aðrir hafa ennþá minna milli handanna en áður.

Þótt tekjujöfnuður sé hér mikill fer eignaójöfnuður hratt vaxandi og tölur frá fjármálaráðuneytinu sýna að mjög fámennur hópur rakar til sín megninu af nýjum auði sem verður til. Bilið breikkar á milli almennings og fárra auðjöfra, sem herða sífellt ítökin á flestum sviðum samfélagsins – og beita sér jafnvel með einkar ósvífnum hætti.

Jafnaðarmenn verða að koma með sanngjarnar, skynsamlegar og trúverðugar lausnir í vinnumarkaðs- og skattamálum til að takast á við þessa stöðu.

Þess vegna vill Samfylkingin réttlátara skattkerfi í takti við nýjan veruleika.

Samfylkingin vill að að fólk um og undir meðaltekjum greiði lægri skatta, en hinir auðugustu í samfélaginu. Við viljum að arður af stórgróða verði skattlagður betur og réttlátt gjald verði tekið fyrir nýtingu á sameiginlegum gæðum - sem verði tímabundin og afmörkuð út frá hagsmunum almennings – en ekki hönnuð í þágu sérhagsmunahópanna.

 

Kæra Samfylkingarfólk,

Þessi vaxandi munur á kjörum fólks, er meðal annars drifinn áfram af óréttlátu fiskveiðistjórnunarkerfi sem færir fáum einstaklingum nýtingu á gjöfulum auðlindum langt inn í framtíðina – milli kynslóða - án þess að þjóðin fái sanngjarnan skerf af eign sinni.

Þess vegna vill Samfylkingin nýja stjórnarskrá með skýru auðlindaákvæði. Og sættir sig við ekkert minna!

Og ójöfnuður þrífst víða en sést ekki alltaf utan á fólki. Sú staðreynd að þrítugir íslenskir karlmenn, með lægst menntunarstig, geti vænst þess að lifa nærri fimm árum skemur en best menntuðu kynbræður þeirra ætti vekja okkur til umhugsunar og hvetja okkur til aðgerða í heilbrigðismálum og að bæta aðstæður fólks víða á vinnumarkaðnum. Bilið milli menntunarhópa virðist vera að aukast hér á landi þegar lífslíkur eru skoðaðar.

Þess vegna vill Samfylkingin jafna tækifæri til menntunar.

Um árabil hefur dregið í sundur milli lægstu launa og lífeyrisgreiðslna. Sístækkandi hópur öryrkja og eldri borgara býr við óásættanleg kjör í ríku landi.

Fólk sem hafði jafnvel lítið milli handanna í gegnum lífið, er enn verr sett á þriðja æviskeiðinu.

Alltof margir innan þessa hópa falla á milli kerfa, festast í fátæktargildru, lifa jafnvel í einsemd og einangrun. Alltof margir þurfa að óttast um lífsafkomu sína, neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu og nauðsynleg lyfjakaup.

Þess vegna vill Samfylkingin hækka greiðslur og draga úr hindrunum og skerðingum fatlaðra og aldraðra.

Þá lifum við á húsnæðismarkaði sem er alltof sveiflukenndur, og fyrir vikið á ungt fólk erfitt með að koma sér þaki yfir höfuðið. Þau sem feta sín fyrstu spor í húsnæðisleit þurfa að hegða sér einsog spákaupmenn frekar en verðandi foreldrar sem vilja skapa fjölskyldu sinni öryggi og framtíðarheimili.

Þess vegna boðar Samfylkingin nýjar húsnæðislausnir með meiri fyrirsjánleika.

Þrátt fyrir að við búum í ríku landi bjóðum við barnafjölskyldum upp á verri kjör en hin Norðurlöndin, sem við erum í harðri samkeppni við um þetta sama fólk. Grafið hefur verið undan stuðningi við barnafjölskyldur með þeim afleiðingum að börn fá ekki sömu tækifæri til að þroska hæfileika sína óháð efnahag, uppruna eða búsetu.

Þess vegna boðar Samfylkingin umbyltingu í fjárhagslegum og félagslegum stuðningi við barnafjölskyldur um allt land!

Svona væri hægt að halda lengi áfram og allt eru þetta viðráðanleg viðfangsefni fyrir jafnaðarmenn - því við þekkjum

leiðirnar!

En birtingarmyndirnar eru enn fleiri - og ekki síður mikilvægt að berjast gegn þeim sem byggja á inngrónu og aldagömlu samfélagslegu órétti. Ójafnrétti kynjanna er dæmi um slíkt.

 

Það er afleiðing mörg hundruð ára kerfis sem byggt eru upp af okkur karlmönnum, á forsendum karla til að þjóna körlum. Ljótustu dæmin eru af kynbundnu ofbeldi en vægari birtingarmyndir þarf einnig að uppræta. Þar er nærtækt að nefna óutskýrðan launamun kynjanna eða minna verðmætamat á dæmigerðum kvennastéttum.

Þetta er í sjálfu sér ósanngjarnt en líka óskynsamlegt út frá hagsmunum samfélagsins.

Þess vegna telur Samfylkingin að nú sé kominn tími á konur og kvennastéttirnar!

Félagar góðir,

Ísland eru um margt sérstakt. Landið er gríðarlega stórt en íbúarnir óskaplega fáir. Það var því skynsamlegt fyrir þjóð sem var að öðlast fullveldi fyrir 100 árum að leggja fyrst og fremst áherslu á uppbyggingu grunnstoða á einum stað; í höfuðborginni. Það hefur m.a. fært okkur öflug sjúkrahús, háskóla og menningarstofnanir en líka þjappað 70% þjóðarinnar á mjög afmarkað svæði landsins.

Þótt þessi ráðstöfun hafi verið skynsamleg verður að tryggja hinum 30 prósentum landsmanna ásættanlega þjónustu í heimabyggð eða greiðar samgöngur til höfuðborgarinnar. Byggðarójöfnuður er vaxandi vandamál sem verður að bregðast við.

Þess vegna vill Samfylkingin öflugt og vel þróað höfuðborgarsvæði en byggja líka upp fleiri kjarna og tryggja spennandi atvinnutækifæri og öfluga innviði um land allt!

Einhverjum finnst eflaust nóg um verkefnin hér innanlands og telja nægilegt að við hugsum bara um okkur sjálf.  En málið er þó ekki svo einfalt. Sem manneskjur í sífellt tengdari heimi eigum við auðvitað að láta okkur aðstæður allra jarðarbúa varða. 

Og þar fyrir utan verður loftlagsógnin - brýnasta og flóknasta áskorun mannkyns - aldrei leyst nema í víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi. Kóvid faraldurinn er nærtækt dæmi um hversu samhangandi hagsmunir allra þjóða eru,  þegar við glímum við við vá sem lýtur engum tilmælum eða landamærum. Góður gangur í bólusetningum er jú ekki síst Evrópusambandinu að þakka!

Þessvegna vill Samfylkingin alþjóðasamstarf aftur í öndvegi. Og kveikja að nýju í Evrópuhugsjóninni með því að gefa þjóðinni val um framhald aðildarviðræðna.

Við sjáum ótal tækifæri í Evrópusamvinnunni, og mér sýnist við nú vera eini flokkurinn á þingi sem er staðfastur í baráttunni fyrir Evru, stöðugum gjaldmiðli og lágum vöxtum, í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu.

 

Kæru vinir,

Ef ekki verður hugað að því sérstaklega munu lausnir á hamfarahlýnunni bitna harðast á þeim efnaminnstu og líka leiða til enn meiri ójöfnuðar.

Ein leið til að bregðast við loftslagsógninni er að mannkynið nái að virkja tækniframfarir til góðs –í þeim gætu falist lausnir sem minnkuðu kolefnisspor manna. Þær gætu líka aukið framleiðni og dregið úr hvers kyns ójöfnuði. Við gætum þarna slegið þrjár flugur í einu höggi.

En það getur líka allt farið á versta veg ef við sýnum ekki nægan metnað og þorum ekki að taka stjórn á hlutunum. Möguleikar okkar til þess að virkja þessar samfélagsbreytingar í þágu okkar felast í þekkingu og hugviti.

Þessvegna mun Samfylkingin leggja fram metnaðarfullar hugmyndir í loftslagsmálum fyrir kosningarnar í haust.

Þess vegna vill Samfylkingin fjárfesta meira í menntun, nýsköpun, tækni og skapandi greinum.

Kæru félagar, okkar bíða semsagt ærin verkefni. Við þurfum að tryggja að allir komist sem best af stað eftir þennan veirufaraldur, ráðast gegn ójöfnuði hvar sem hann er að finna og koma í veg fyrir að hann aukist samfara þeim umskiptum sem framundan eru.

Samfylkingin vill þess vegna fjárfesta í framtíðinni. Í grunninnviðum samfélagsins. Í fólkinu í landinu.

Slíkar fjárfestingar skila sér margfalt til baka, fjárhagslega og félagslega. Þetta er heilbrigð skynsemi, undirbyggð með efnahagslegum rannsóknum, efnahagsstefna sem hefur verið tekin upp í flestum nágrannaríkjum okkar en nær ekki inn á borð hjá brauðmolafræðingum ríkisstjórnarinnar.

Við viljum byggja upp, ekki skera niður eins og ríkisstjórnin boðar í fjármálaáætlun sinni til næstu ára. Það er hrollvekjandi framtíðarsýn, að í stað þess að bæta almannaþjónustuna, útrýma biðlistum og fjárfesta í fólki, ætli fólk í alvörunni að hafa niðurskurðarhnífinn á lofti.

Það kann vel að vera að þetta óvenjulega stjórnarmynstur íhaldsflokka hafi hentað til að koma á pólitískum stöðugleika eftir skandala fyrri stjórna, en þessir flokkar munu ekki finna samhljóminn til að ráða við þau risastóru verkefni sem eru framundan. Málamiðlanir sem ósamstiga ríkisstjórn þarf að gera við hvert fótmál er ekki svarið við núverandi ástandi.

Þess vegna er nauðsynlegt að greiða veginn fyrir nýja ríkisstjórn að loknum kosningum sem er sammála um megin verkefnin framundan. Ríkisstjórn sem er auk þess óhrædd við nýja framtíð og nógu opin til að nýta skapandi lausnir. Ríkisstjórn sem er óhrædd við markvissari beitingu hins opinbera, sem skilur að til að bæta þjónustu við fólkið í landinu verði að stórauka samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

Stjórn sem mun sækja fram gegn ójöfnuði, auka húsnæðisöryggi fólks og stuðning við barnafjölskyldur, útrýma biðlistum eftir aðgerðum og geðheilbrigðisþjónustu.

Ríkisstjórn sem hefur burði til að takast á við sérhagsmunaöflin sem hafa fengið verðmætustu eign þjóðarinnar í sínar hendur.

Stjórn sem setur baráttuna gegn loftslagsvánni í fyrsta sæti, horfir opnum augum til umheimsins og áttar sig á að framundan er ekki áratugur kyrrstöðu, heldur áratugur aðgerða!

Sem betur fer sjáum við í könnunum möguleika á þess konar stjórn. Stjórn sem Samfylkingin getur haft forgöngu um að mynda. Það má kalla það Reykjavíkurmódelið, R-lista konseptið eða Græna félagshyggjustjórn.

Kæru vinir, það er þannig stjórn sem við skulum mynda eftir kosningarnar í haust, og það eru sterkar líkur á að það takist,

en það er okkar allra hér inni að sigla því í höfn. Svo verum samstíga, komum málefnum okkar skýrt á framfæri við almenning og gefumst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.
Hringjum í fólk, göngum í hús, verum óþreytandi talsmenn þess að jafnaðarmenn komist til aukinna áhrifa. Við höfum séð hvaða árangri við getum náð þegar við fáum að stjórna!

Það er gríðarmikið í húfi fyrir þjóðina og framtíð landsins.

Kæru félagar, Okkar tími er að renna upp. Framtíðin er okkar. Njótið dagsins.