Ríkisstjórnin teflir velferð barna í tvísýnu
Ellen Calmon er borgarfulltrúi og formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.
Fjöldi barna á biðlistum Þroska- og hegðunarstöðvar, Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og Barna- og unglingageðdeildar (BUGL) hefur margfaldast síðastliðin ár. Um er að ræða grunngeðheilbrigðisþjónustu og bráðageðheilbrigðisþjónustu, þjónustu við börn sem eru alvarlega veik. Núverandi ríkisstjórn hefur brugðist þessum börnum og fjölskyldum þeirra.
Þungbærar og langvarandi afleiðingar
Ef grunngeðheilbrigðisþjónusta er ekki tryggð þá eykst vandinn, börnin verða alvarlega veik og þurfa þá eðli málsins samkvæmt á brýnni, meiri og mörg hver á langvarandi þjónustu að halda. Börn sem ekki njóta þjónustu strax eiga meiri hættu á að lenda í vanvirkni sem getur fylgt þeim inn í unglingsárin, jafnvel fullorðinsárin og getur leitt til örorku. Það er því gríðarlega mikilvægt að heilbrigðiskerfið grípi þau sem fyrst og veiti viðeigandi þjónustu. Samkvæmt 24. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að viðurkenna eigi „… rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skuli kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu.“ Sú er því miður ekki raunin á Íslandi í dag.
Foreldrar og forsjáraðilar fara heldur ekki varhluta af ástandinu. Ef geðheilbrigðisþjónusta við börn er ekki tryggð á fyrri stigum eykst andlegt álag á foreldra og forsjáraðila á meðan beðið er eftir þjónustu. Langvarandi andlegt álag getur einnig valdið líkamlegum einkennum sem svo getur þróast í alvarlegan heilsubrest. Í sumum tilvikum dregur svo úr virkni einstaklingsins að hann getur jafnvel ekki sinnt starfi á vinnumarkaði og í erfiðustu tilvikunum er þekkt að sumir foreldrar hljóta örorku í kjölfar slíks álags.
Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2015 voru rúmlega 390 börn á biðlista Þroska- og hegðunarstöðvar, 120 börn á biðlista göngudeildar Barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) og 208 börn á biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Í skýrslunni stendur: „Að mati Ríkisendurskoðunar er sá langi biðtími sem einkennt hefur geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga óviðunandi. Auk þess að ganga gegn lögbundnum skyldum ríkisins stefnir þessi bið bæði langtímahagsmunum þess og velferð einstaklinga í tvísýnu.“
Biðlistastjórn barnanna 2021
Árið er 2021 og biðlistinn hefur bara lengst þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Núna í júlí eru um 750 börn á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöð, í mars var 131 barn á biðlista hjá BUGL, í janúar voru 343 börn á biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og allt að tveggja ára bið eftir þjónustu.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið í samtölum við fagfólk þá má gera ráð fyrir að biðlistar hjá bæði BUGL og Greiningar- og ráðgjafarstöðinni telji nú fleiri börn um miðsumar en þau voru á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.
Því ætti öllum að vera ljóst að núverandi ríkisstjórn er hvorki að fara eftir lögum í landinu, Barnasáttmálanum, né hefur hún brugðist við alvarlegum athugasemdum Ríkisendurskoðunar frá árinu 2015.
Fjárfestum í börnunum
Það er rándýrt fyrir samfélagið að hafa börn á biðlistum. Það kostar okkur fjárhagslega, tilfinningalega, félagslega, samfélagslega, það kostar okkur lífsgæði og vinnuafl. Ríkið ber höfuðábyrgð á heilbrigðisþjónustu við börn. Biðlistastjórn barnanna þarf burt. Ég vil forgangsraða fjárfestingartækifærunum og tryggja fjárfestingu í börnunum.