Skapandi samvera, jöfn tækifæri í barnamenningarborginni Reykjavík

Ellen Calmon er formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, einnig er hún fulltrúi í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði.

Borgarlandið, söfn, leikvellir og önnur útivistarsvæði bjóða upp á fjölmörg tækifæri fyrir fjölskyldur og vini til að njóta skapandi og uppbyggjandi samveru. Ég hvet borgarbúa til að líta sér nær og nýta þá innviði sem borgin hefur upp á að bjóða og þá sérstaklega barnafjölskyldur.


Stærstu minningar barnæskunnar og uppbyggilegustu stundirnar eru oftar en ekki gæða samvera með okkar nánustu. Þær þurfa ekki að kosta mikla fyrirhöfn eða fjármuni.


Reykjavíkurborg er borg barnamenningar og hefur skartað Barnamenningarhátíð um nokkur misseri. Hátíðin var haldin í ár með óvenjulegum hætti en tókst frábærlega. Boðið var upp á fjölmarga viðburði í mörgum hverfum borgarinnar. Iðkun barnamenningar þarf ekki að einskorðast við hátíð, heldur er hægt að hvetja börn til þátttöku í menningu og listum, bæði til sköpunar og að njóta allt árið um hring.

Jöfn tækifæri og aðgengi að menningu og listum

Þátttaka í hvers kyns menningarstarfi er mikilvægur grunnur í menntun og þroska barna okkar. Þess vegna er það sérstök áhersla Samfylkingarinnar að öll börn og ungmenni hafa jöfn tækifæri og aðgengi að menningu og listum.

Söfn borgarinnar bjóða reglulega upp á tækifæri til skapandi samveru, má þar til dæmis nefna sýningu sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum til 19. september og nefnist „Eilíf endurkoma - Kjarval og samtíminn“. Reglulega hefur verið boðið upp á leiðsögn fyrir börn og fjölskyldur og er næsta leiðsögn á dagskrá laugardaginn 11. september kl. 11. Alla daga er hægt að fá lánaðan bakpoka í móttökunni á Kjarvalsstöðum sem inniheldur ýmis spennandi verkefni sem leiðir fjölskylduna í skemmtilegt ferðalag í gegnum sýninguna.

Mig langar einnig til að nefna sýningarröðina „Hjólið“ sem Myndhöggvarafélagið í Reykjavík hefur sett upp í opinberu rými og stendur yfir til 5. september. Þar gefst borgarbúum tækifæri á að skoða fjölmörg og ólík listaverk með því að þræða sig eftir hjóla- og göngustígum borgarinnar sem er tilvalin samverustund fyrir fjölskylduna. Þannig er hægt að samtvinna útivist, hreyfingu, menningu og listir. Hægt er að sjá staðsetningu listaverkana á göngu- og hjólakortum á hjolid.is

Nýtum alla borgina til samveru og valdeflingar

Samvera er besta forvarnarráðið og styrkir tengsl, traust og vináttu fjölskyldna – barna og fullorðinna. Þar eru unglingarnir okkar ekki undanskildir. Við, fullorðna fólkið, höldum stundum að þau hafi mögulega ekki áhuga á slíkum samverustundum, sem er alls ekki alltaf rétt ályktað hjá okkur og því sérstaklega mikilvægt að við hvetjum þau og virkjum til þátttöku. Altaf er hægt að finna eitthvað áhugavert við að vera fyrir fólk á öllum aldri í borginni.

Þá getur verið mjög valdeflandi fyrir börn og lærdómsríkt að fela þeim það verkefni að skipuleggja óvissuferð fjölskyldunnar í borginni. Hægt væri að heimsækja annað borgarhverfi og finna alla afþreyingu þar til að njóta; svo sem leikvelli, söfn, útilistaverk, sundlaug, bókasafn eða annað sem hverfið býður upp á. Leyfum börnunum að ráða för, hvetjum þau til að vera frjó og skapandi, treystum þeim, tökum þeim áskorunum sem þau koma fram með og leyfum okkur svo að fylgja þeim.

Setjum nesti í bakpoka, tökum með okkur aukaföt, lítið teppi, hoppum í Strætó, hjólum, leikum okkur á öðrum skóla- eða leikskólalóðum. Verum ófeimin við að taka okkur pláss og setjast niður með föggur okkar, teppi og kaffibrúsann. Ákveðum að eiga útidag fjölskyldunnar, í Fjölskyldu- og húsdýargarðinum, Árbæjarsafni, Elliðaárdalnum, á Klambratúni, við tjörnina í Hólmaseli eða við Korpúlfsstaði svo eitthvað sé nefnt. Þá má einnig hjóla í miðborginni, heimsækja listasöfn, keppast í París á Laugaveginum og enda svo í sundi í Vesturbæjarlauginni.

Munið að borgarlandið, söfnin og menningarstofnanirnar eru okkar allra. Kennum börnunum á borgina. Kennum þeim að meta ólíka menningu og listir. Hvetjum þau til að vera skapandi og að hugsa út fyrir rammann. Öðruvísi verður ekkert nýtt til.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. ágúst 2021.