Tækifæri til að breyta
Markaðshagkerfið er ekkert annað en rammi sem við höfum komið okkar saman um. Allar niðurstöður á markaði eru pólitískar enda hafa stjórnmálin mikil áhrif á leikreglurnar sem við spilum eftir.
Eitt dæmi eru breytingar sem gerðar voru á veiðigjaldalögum á yfirstandandi kjörtímabili og rýrðu veiðigjaldsstofninn umtalsvert. Sérmeðferð í bókhaldi sjávarútvegsfyrirtækja í formi afskrifta og himinhárra áætlaðra vaxtagjalda, sem eru frádráttarbær og í litlu samhengi við rekstrarumhverfi fyrirtækjanna, er ein af ástæðum þess að ríkið innheimti minna fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni í fyrra en af tóbaksgjaldinu.
Það er líka pólitísk ákvörðun að hanna skattkerfið þannig að skattbyrði eignamesta 1% er lægri en hjá þorra launafólks. Hræðsluáróður um áhrif stóreignaskatts á lítinn hóp, hóflegan skatt sem kemur í veg fyrir að eignir vindi upp á sig og valdi samfélagsrofi þar sem fjölskyldubakgrunnur hefur í auknum mæli áhrif á velgengni fólks, hefur borist frá stjórnarflokkunum. Þegar rætt er um ósanngirni og letjandi áhrif á fjárfestingu, atvinnutækifæri og hagvöxt, er öllu snúið á haus. Kemur ekki á óvart, enda er heimsmynd okkar jafnaðarmanna ólík íhaldsins. Við skiljum að grunnurinn sem samfélagið vex á er það sem heldur því saman, ekki hvað gerist í efsta þrepinu.
Framtíðarstörfin verða ekki bundin við náttúruauðlind og staðsetningu. Í þessu felast gífurleg tækifæri fyrir fámenna þjóð. En það sem ræður því hvaðan fólk sinnir slíkum störfum eru lífskjörin og samfélagsinnviðirnir, og þar eigum við í samkeppni við löndin í kringum okkur. Stjórnmálaflokkar sem átta sig á þessari heimsmynd skilja mikilvægi þess að bæta kjör meirihlutans, ekki minnihlutans. Ríkasta eina prósentið getur aldrei skapað jafnmikil verðmæti og hin 99%. Þess vegna er það góð og ábyrg hagstjórn að lækka skattbyrði millitekjufólks, barnafólks, öryrkja sem vilja vinna í auknum mæli og draga úr fjárhagserfiðleikum eldri borgara.
Samfélagið mótast af leikreglunum sem við setjum og það er kominn tími til að breyta þeim í þágu almennings. Kjósum Samfylkinguna.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. sept.