Heil­brigðis­þjónusta er ekki hillu­vara

Þórunn,  kraginn, banner,

Fyrir ný­af­staðnar al­þingis­kosningar var staða heil­brigðis­kerfisins, fjár­mögnun þess og þjónusta í brenni­depli. Öllum sem kynnt hafa sér málið má vera ljóst að eftir sárs­auka­fullan niður­skurð í kjöl­far hrunsins hafa ríkis­stjórnirnar sem setið hafa frá 2013 ekki haft þrek til að greiða skuld sam­fé­lagsins við heil­brigðis­kerfið.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Þar með er ekki verið að segja að ekkert hafi verið gert en heims­far­aldurinn af­hjúpaði veik­leika og van­rækslu­syndir sem ekki geta beðið lausnar.

Fyrr­verandi for­stjóri Land­spítalans, Páll Matthías­son, orðaði það sem svo í pistli ný­verið að hækka þyrfti rekstrar­fé spítalans um a.m.k. 5% á ári svo að hægt sé að byggja upp og sækja fram. Sam­fylkingin vill byggja upp og sækja fram. Síðast­liðin átta ár hafa rekstrar­fram­lög til spítalans hækkað um 1,3% á ári sem dugar ekki til eðli­legrar upp­byggingar, við­halds, tækja­kaupa og tækni­þróunar að ó­gleymdri mönnun lykil­stétta í heil­brigðis­þjónustunni. Nú hafa stjórn­völd til­kynnt að taka eigi Land­spítalann af föstum fjár­lögum og hefja fjár­mögnun í sam­ræmi við verk­efni hans. Vænta má að slík fjár­mögnun svari betur þörfum þeirrar heil­brigðis­þjónustu sem veitt er á spítalanum og í ljósi á­bendinga Páls Matthías­sonar blasir við að verja þarf hærri fjár­hæðum úr ríkis­sjóði til Land­spítalans á næstu árum.

For­maður BSRB, Sonja Ýr Þor­bergs­dóttir, hitti naglann á höfuðið þegar hún benti á að það að leita sér heil­brigðis­þjónustu væri ekki eins og að kaupa vöru út í búð. Heil­brigðis­þjónusta er ekki eins og hver önnur vara sem lýtur lög­málum fram­boðs og eftir­spurnar og því segir „fram­leiðni“ ekki alla söguna. Hvernig er t.d. rétt að mæla fram­leiðni hjúkrunar eða geð­heil­brigðis­þjónustu sem krefst mikillar mönnunar og tíma? Góð heil­brigðis­þjónusta er sniðin að þörfum ein­stak­lingsins, gefur honum tíma og er veitt á réttum stað í heil­brigðis­kerfinu. Hún er líka fjár­mögnuð með full­nægjandi hætti. Heil­brigðis­þjónusta er ekki hillu­vara.