Heilbrigðisþjónusta er ekki hilluvara

Fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar var staða heilbrigðiskerfisins, fjármögnun þess og þjónusta í brennidepli. Öllum sem kynnt hafa sér málið má vera ljóst að eftir sársaukafullan niðurskurð í kjölfar hrunsins hafa ríkisstjórnirnar sem setið hafa frá 2013 ekki haft þrek til að greiða skuld samfélagsins við heilbrigðiskerfið.

Þar með er ekki verið að segja að ekkert hafi verið gert en heimsfaraldurinn afhjúpaði veikleika og vanrækslusyndir sem ekki geta beðið lausnar.
Fyrrverandi forstjóri Landspítalans, Páll Matthíasson, orðaði það sem svo í pistli nýverið að hækka þyrfti rekstrarfé spítalans um a.m.k. 5% á ári svo að hægt sé að byggja upp og sækja fram. Samfylkingin vill byggja upp og sækja fram. Síðastliðin átta ár hafa rekstrarframlög til spítalans hækkað um 1,3% á ári sem dugar ekki til eðlilegrar uppbyggingar, viðhalds, tækjakaupa og tækniþróunar að ógleymdri mönnun lykilstétta í heilbrigðisþjónustunni. Nú hafa stjórnvöld tilkynnt að taka eigi Landspítalann af föstum fjárlögum og hefja fjármögnun í samræmi við verkefni hans. Vænta má að slík fjármögnun svari betur þörfum þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er á spítalanum og í ljósi ábendinga Páls Matthíassonar blasir við að verja þarf hærri fjárhæðum úr ríkissjóði til Landspítalans á næstu árum.
Formaður BSRB, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, hitti naglann á höfuðið þegar hún benti á að það að leita sér heilbrigðisþjónustu væri ekki eins og að kaupa vöru út í búð. Heilbrigðisþjónusta er ekki eins og hver önnur vara sem lýtur lögmálum framboðs og eftirspurnar og því segir „framleiðni“ ekki alla söguna. Hvernig er t.d. rétt að mæla framleiðni hjúkrunar eða geðheilbrigðisþjónustu sem krefst mikillar mönnunar og tíma? Góð heilbrigðisþjónusta er sniðin að þörfum einstaklingsins, gefur honum tíma og er veitt á réttum stað í heilbrigðiskerfinu. Hún er líka fjármögnuð með fullnægjandi hætti. Heilbrigðisþjónusta er ekki hilluvara.