Ylvolgur og óljós sáttmáli

Þórunn,  kraginn, banner,

Eftir að hafa legið yfir texta í tvo mánuði birtu formenn Vinstrigrænna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks stjórnarsáttmála annars ráðuneytis Katrínar Jakobsdóttur á fyrsta sunnudegi í aðventu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður

Við yfirlestur flaug mér í hug að forystufólk stjórnarflokkanna hefðu ef til vill haft of rúman tíma til að dunda sér við textann en ekki varið nógum tíma í að ydda pólitíska hugsun, útfæra aðgerðir og forgangsraða verkefnum.

Stærstu pólitísku tíðindin í sáttmálanum eru þau að þunginn stjórnarsamstarfinu færist til Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins, þótt formaður VG sé áfram í verkstjórastólnum í forsætisráðuneytinu. Það er greinilega ekki lengur flokkað til pólitískrar dygðar í Vinstrigrænum að standa vaktina í heilbrigðis- og umhverfismálunum. Ríkisstjórnin ætlar ekki að hrófla við kerfi auðlindanýtingar og setja fiskveiðistjórnunarkerfið í nefnd. Hún hefur einnig gefist upp á því verkefni að breyta stjórnarskránni. Um leið og stjórnarflokkar lofa því að efla almannaþjónustuna er ekki að finna í hinum langa stjórnarsáttmála nein svör við því hvernig skuli endurreisa opinbera heilbrigðiskerfið, tryggja fjármögnun og mönnun til framtíðar.

Uppstokkun stjórnarráðsins er allrar athygli verð en ekki er jafn ljóst hvaða tilgangi sumar breytingarnar þjóna. Hafi ég skilið þetta rétt þá eiga menntamál nú heima í fjórum ráðuneytum og í raun búið að leggja mennta- og menningarmálaráðuneytið niður í núverandi mynd. Það er mikil tíðindi. Nú má vel vera að þessar breytingar stuðli að aukinni samlegð, framförum og betra starfi í hverju ráðuneyti en eitthvað segir mér að hálfgerð tilviljun ráði því hvernig verkefnum hefur verið skipt og skipað innan stjórnarráðsins. Eitt er þó ljóst, að fjölgun ráðuneyta hentar þriggja flokka samstarfinu vel og gefur fleiri stóla við ríkisstjórnarborðið en þó ekki nógu marga til að ráðherrakapall Sjálfstæðisflokksins gangi upp.

Um kjör þeirra efnaminnstu er fátt sagt annað en að þau eigi að batna eins og annarra, með vexti og velsæld eins og þar stendur. Kjaragliðnunin sem orðið hefur á milli lægstu launa og örorkulífeyris er ekki nefnd einu nafni. Fátækt einstæðra foreldra, nær alltaf mæðra, og barna þeirra er ekki skenkt hálf hugsun. Á einum stað var minnst á barnabætur sýndist mér. Ég fann engar raunhæfar tillögur um að bæta kjör þeirra sem efnaminnstu í okkar samfélagi í nýjum stjórnarsáttmála.

Endurkoma Sjálfstæðisflokksins í umhverfisráðuneytið, sem nú má einnig kenna sig við loftslag og orku, veldur áhyggjum. Ljóst er að  sjálfstæðismenn telja þá einu leið færa í baráttunni við hamfarahlýnun að stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Þau þurfa vissulega að eiga sér stað en við flóknu úrlausnarefni dugar ekki ein allsherjarlausn. Þar þarf margt að koma til og líklega má að fagna því sérstaklega að nefndar eru „hágæða almenningssamgöngur“ það sem við hin köllum borgarlínu í sáttmálanum.

Hinn ylvolgi og orðmargi stjórnarsáttmáli liggur fyrir. Nú er þess beðið að ný ríkisstjórn sýni á spilin i fjárlagafrumvarpinu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóv. 2021