Frá því smáa til hins stóra

Þótt yfirstandandi veirustríð skyggi  á flest annað í lok árs, standa Íslendingar og mannkynið allt andspænis öðrum enn stærri áskorunum, sem eru ekki síður flóknar.

Logi Einarsson Formaður Samfylkingarinnar

Ísland

Ísland er gjöfult land og við höfum gott tækifæri til að skapa samfélag þar sem öllum eru búin góð skilyrði. Við höfum tækifæri til að ráðast í djarfar aðgerðir til að tryggja betri framtíð. Í krafti  náttúruauðlinda hefur tekist að byggja upp ágætis velferðarkerfi, auk þess sem menntunarstig er hátt og launajöfnuður mikill í alþjóðlegu samhengi.  Að meðaltali má segja að við höfum það gott. En samt búa alltof margir við slæm kjör á Íslandi; öryrkjar, fjölmargir aldraðir auk þess sem þúsundir barna búa við skort. Velsæld okkar og nálægð hvert við annað ætti að koma í veg fyrir að við látum það viðgangast.

Við megum ekki sætta okkur við að aldraðir hafi ekki efni á nauðsynlegri læknisþjónustu, öryrkjar horfi inn í tóman ísskáp síðustu daga hvers mánaðar, fötluð börn og börn frá efnaminni heimilum geti ekki notið tómstunda og að of lítið sé hirt um sjúkdóma sem sjást ekki utan á fólki. Þá erum við nógu vel sett til að taka á móti fleira fólki sem leitar hingað til lands í sárri neyð. Okkur skortir ekki gæðin, við þurfum hins vegar að  skipta þeim jafnar.

Nýlega sá ég frétt um ríkan útgerðarmann sem tilkynnti um stóra bókargjöf til allra leik- og grunnskóla landsins. Hann sagði af því tilefni að það væri skynsamlegt að meira fé yrði eftir hjá fyrirtækjunum, þannig að þau gætu varið meira fé í samfélags verkefni, í stað þess að láta ríkisvaldinu það eingöngu eftir.

Þetta eru hættulegar hugmyndir og dæmi um hvernig lýðræðið gæti orðið auðræði að bráð. Það er einmitt mjög óskynsamlegt að innheimta of lág auðlindagjöld og láta það vera háð duttlungum einstakra auðmanna, hvernig samfélagið þróast. Það er skynsamlegra að hér sé sanngjarnt skattkerfi; fyrirtæki greiði eðlilegt gjald fyrir afnot af takmörkuðum auðlindum og það sé í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa að forgangsraða. Og stjórnvöld hafa ríkum skyldum að gegna þegar kemur að því að skapa félagslegan stöðugleika og auka jöfnuð. Reynsla síðustu tveggja ára sýnir okkur einmitt vel mikilvægi sterkrar almannaþjónustu og samneyslu þegar óvænt áföll dynja yfir. 

Jörðin

En um leið og við verðum að jafna stöðu landsmanna þurfum við líka að horfast, af fullri alvöru, í augu við þá hættu sem framtíðar kynslóðum er búin vegna ofbeitar okkar á jörðinni. Lengst af í grandvaraleysi en í seinni tíð með fullri meðvitund um afleiðingarnar.

Það er merkilegt að tilheyra lífi sem kviknaði vegna einstakrar staðsetningar jarðarinnar í alheiminum. Og jafnvel enn ótrúlegra að tilheyra þeim kynslóðum manna sem hafa búið við bestu skilyrðin í mannkynssögunni. Það væri þó dapurlegt að tilheyra einnig þeim kynslóðum sem hefðu það best um alla ókomna framtíð. Það er þó ekki útilokað, ef ríki heims ráðast ekki gegn loftslagsbreytingum af meiri krafti en hingað til.

Mannkynið stendur andspænis risavöxnum siðferðisvanda og Íslendingar eru ekki undanskildir. Stjórnvöld verða að hvetja til hagkvæmrar skynsamlegrar byggðar, stórefla almenningssamgöngur, leiða græna umbyltingu atvinnulífsins, efla alþjóðlegt samstarf og verja til alls þessa nægu fé.  

Umheimurinn

Ný tækni og sífellt hraðari þróun hennar er að gjörbylta samfélagi okkar og við verðum að sjá til þess að hún verði okkur til góðs og í þágu allra.

Nýlega las ég bókina Framtíð mannkyns eftir Michio Kaku. Hún fjallar um hugmyndir og leiðir til að gera nýja hnetti lífvænlega til búsetu manna. Vissulega ekki handan við hornið en ótrúlega spennandi. Þessi áform hafa nú þegar hraðað merkilegum nýjungum sem gagnast okkur í daglegu lífi, svo sem á sviði læknisfræði og grænna orkugjafa en líka með hversdagslegri hlutum s.s. ryksuguróbótum og sjálfkeyrandi bílum.

En þótt það sé skemmtilegt að láta hugann reika, jafnvel til fjarlægra vetrarbrauta, er líka nauðsynlegt að við lítum okkur nær; veltum fyrir okkur tilverunni hér og nú.

Hvað knýr áfram hugmyndir um landnám í geimnum? Er það fyrirsjáanleg fólksfjölgun, ævintýraþrá eða kannski neyslufrekja nútímamannsins, sem hendir hugsunarlaust gömlum, en nothæfum hlutum, þegar ný útgáfa kemur í sölu. Að minnsta kosti er nærtækt að álykta að vitneskjan um hættuna af loftslagsbreytingum hvetji frekar til slíkra áforma en hitt. Þó væri örugglega brýnna og augljósara að eyða meiri kröftum í að gera jörðina byggilega um ófyrirséða framtíð. Það er fjölmargt sem við gætum gert nú þegar en til þess þarf vilja. Við þessi stórhuga áform vakna ekki síður flóknar siðferðisspurningar. Hvaða þjóðfélagshópum er ætlað nema nýjar jarðir og hverjum er ætlað að verða eftir á jörðinni og af hverju einmitt þeim? Og í hvaða ástandi mun jörðin sem þau erfa verða.

Vissulega getur tæknin orðið mannkyninu til mikilla heilla og hún gæti eflaust opnað fámennri þjóð, í stóru landi, langt frá mörkuðum, ótrúleg tækifæri. Þess vegna er skynsamlegt að efla tækni og nýsköpun. En tækninni fylgja líka ógnir; ekki síst í veruleika sem drifinn er áfram af sífellt meiri hraða. Því þarf samhliða að auka framlag til hugvísinda og lista en ekki draga úr því , eins og gert er í nýjum fjárlögum. Við erum komin í verulega úlfakreppu þegar siðvitið nær í mesta lagi að narta í hæla hugvitsins.

Horfurnar

Öll þau risa verkefni sem við stöndum andspænis verða aldrei leyst nema við byggjum á gildum réttlætis og samhjálpar og í miklu víðtækara alþjóðlegu samstarfi en áður hefur þekkst. Það er því forgangsverkefni stjórnvalda að styrkja almannaþjónustu; koma á sanngjarnara skattkerfi og auka jöfnuð. Um leið þarf að tryggja að nauðsynlegar aðgerðir gegn loftslagsógninni og sókn á tækniöld leiði ekki til aukins ójöfnuðar. Loks þarf að breyta stjórnarskrá þannig að Ísland geti tekið þátt í fjölþjóðlegu samstarfi í ríkari mæli en áður.

Þó stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar sé fullur af góðum fyrirheitum, m.a. varðandi þær áskoranir sem hér er fjallað um, þurfa orðum að fylgja aðgerðir. Því miður gefa fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar ekki mikil fyrirheit um að brýnustu verkefnum Íslendinga verði sinnt af trúverðugleika. Það mun því koma í hlut stjórnarandstöðunnar og almennings að halda ríkisstjórninni við efnið: Það er hvorki réttlátt né efnahagslega skynsamlegt að leyfa fátækt að þrífast í svo auðugu landi. Auk þess ber okkur siðferðilega skylda til þess að skila jörðinni til komandi kynslóða í sómasamlegu ástandi.

Við í Samfylkingunni sendum landsmönnum árnaðaróskir á nýju ári og lofum því að vinna af heilindum í þágu almannahags og sjálfbærrar framtíðar. Þá sendum við þakkir til allra sem hafa staðið í eldlínunni, í tveggja ára snúinni baráttu við veiruna: Sérfræðingum, framlínufólki og ekki síst almenningi sem hefur sýnt ótrúlega samstöðu og erfiðum sóttvarnatakmörkunum skilning. Við erum vissulega ekki komin fyrir vind og verðum því að þrauka enn um sinn. Ég er þó sannfærður um að það mun takast fyrr en varir.

Gleðilegt ár.       

                                          

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 31.12.2021