Aðlögun er búin að vera og heyrir sögunni til

"Við þurfum sem sagt ekki fjöl­menn­ing­ar­stefnu fyrir inn­flytj­end­ur, heldur algilda hönnun fyrir allt sam­fé­lag­ið."

Sabine Leskopf Borgarfulltrúi

Við könn­umst öll við umræð­una um hvort var á und­an, eggið eða hæn­an. Það sama gildir svo sem um hug­taka­notk­un, spurn­ingin er hvort við þurfum fyrst að búa til hug­tak um fyr­ir­bæri eða eitt­hvað verður til og svo kemur orð yfir það. Kannski er hið rétta að orð kemur ein­ungis fram þegar þörf er á því, ef við erum ekki að tala um eitt­hvað eða teljum okkur ekki þurfa á því að halda, þá kemur orðið ekki eða nær aldrei flugi.

Orðið sem ég vil gefa hér vængi til að ná flugi til að verða von­andi orð árs­ins 2022, er rétt að yfir­gefa hreiðrið núna. Orðið er inn­gild­ing.

Íslensku­pró­fess­or­inn Eiríkur Rögn­valds­son hefur fjallað um nýyrði og bendir á að orðið var upp­haf­lega þýtt af Berg­lindi Rós Magnús og lýsti skóla án aðgrein­ing­ar. En lítum aðeins nánar á hug­tökin sem notuð eru í umræð­unni.

Í umræðu um inn­flytj­endur hafa verið að skil­greind þrjú hug­tök sem lýsa nálgun okkar og standa fyrir ákveðin við­horf. Þau eru:

  1. aðlögun
  2. fjöl­menn­ing­ar­stefna
  3. inn­gild­ing

Aðlög­un 

Aðlögun má skil­greina sem til­raun til að breyta því sem er öðru­vísi í það sem fyrir er.

Í mínum (út­lenska) mál­skiln­ingi er aðlögun alltaf tengd sagn­orð­in­u“að laga“. Við þurfum að laga þegar eitt­hvað er bilað eða passar ekki. Í þessu til­felli er ég ekki Íslend­ingur eins og allir hinir (hvað sem það nú þýð­ir) og nú þarf að breyta mér og beygla þangað til ég passa inn í mót­ið. Ef við hugsum þetta svona, ef loka­tak­markið er að ég verði Íslend­ingur eins og hinir þá er ég dæmd til að mis­heppnast, því ég verð það aldrei. Í mínu til­felli þá byrj­aði ég ekki að tala íslensku fyrr en ég flutti hingað á fer­tugs­aldri, ég losna aldrei við hreim­inn eða mál­villur hér og þar. Þekk­ing og reynsla, ekki bara mín eigin heldur þjóð­ar­minni fylgja mér og ef þetta er ann­að­hvort einskis virði eða jafn­vel talið vera byrði þá er ég, og önnur sem eins er komið fyr­ir, dæmd út á jað­ar­inn.

Aðlögun gengur sem sagt út frá því að til sé eitt sam­fé­lag, eitt mynstur, ein gerð af „réttri menn­ingu“ og þar fyrir utan er lít­ill hópur sem verður að laga sig að hinum til að fá aðgang að öllu sem sam­fé­lagið býður upp á. Ein­falt er að sjá að það getur aldrei gengið upp og ef við inn­flytj­endur eigum að hafa það mark­mið að skilja við allt sem við erum eða vorum og byrja á núlli að mótast, aðlagast, ef allt það sem við höfum fram að færa er einskis virði og sam­fé­lagið lítur ein­ungis á það sem vantar í okkur þá erum við dæmd til að vera alltaf ann­ars flokks Íslend­ing­ar. Og ekki bara við en líka næstu kyn­slóð­ir.

Aðlög­unin er í raun kúg­un­ar­tæki meiri­hluta sem vill ekki sam­þykkja þau sem öðru­vísi eru, eða halda þeim fyrir utan vegna þess að þau eru þannig. Þetta er ekki endi­lega með­vit­að, engin ill­girni, ein­ungis ótti við að þurfa að laga sig að því sem er fram­andi og nýtt. Hug­myndin um aðlögun er meira að segja hugsuð sem góð­verk, að gera inn­flytj­endum kleift að taka þátt í sam­fé­lag­inu á for­sendum þess en ekki þeirra.

Fjöl­menn­ing

Fjöl­menn­ing­ar­stefnan hefur verið leið sem Ísland hefur farið að und­an­förnu, þetta er sam­fé­lag sem heldur fjöl­menn­ing­ar­há­tíðir og telur sig vera upp­lýst og fram­sækið vegna þess en hleypir samt ekki inn­flytj­endum í ábyrgð­ar­stöður eða hindrar menntun erlendra ung­menna vegna þess að þau tala ekki Norð­ur­landa­mál. Það vantar alls ekki umburð­ar­lyndi á Íslandi, það er meira að segja mjög mik­ið, vil ég segja, en þegar útlend­ingar leita sér að annarri vinnu en fyrir verka­menn rekast þeir aftur og aftur á kröfu um að tala full­komna íslensku, ensku og Norð­ur­landa­mál.  Þar með er búið að skella dyrum á vel­flesta inn­flytj­endur sem kannski hafa góða þekk­ingu og hæfi­leika til að starfa á til­teknum vett­vangi.

Þetta skref í þróun sam­fé­lags­ins okkar var kannski bara aðeins mann­legri fram­leng­ing á aðlög­un. Hér er gert ráð fyrir aðeins betri stuðn­ingi en þetta breytir í raun­inni engu um við­horf­ið: þeir sem koma utan frá þurfa að breyta sjálfum sér til þess að fá aðgang að því sem yfir­burða­sam­fé­lagið hefur fram að færa. Sem er á end­anum ein­fald­lega rétt­læt­ing á úti­lokun á þeim sem ná ekki að breyta sjálfum sér nægi­lega mik­ið, hvort sem það er vilj­andi eða ef þeir ein­fald­lega fá ekki tæki­færi til þess.

Inn­gild­ing 

Inn­gild­ing er mæl­an­legt mark­mið um þátt­töku allra í því sem sam­fé­lag hefur upp á að bjóða í mennt­un, atvinnu­mögu­leik­um, lýð­heilsu, opin­berri stjórn­sýslu, menn­ingu, íbúa­lýð­ræði.

Þátt­taka allra í sam­fé­lag­inu er and­staða við úti­lokun og til þess að ná því mark­miði þarf að auka sýni­leika þeirra mis­mun­andi mögu­leika sem í boði eru og ryðja þarf úr vegi hindr­unum sem koma í veg fyrir að fólk nýti þessi tæki­færi.

Fjöl­breyti­leiki hefur alltaf marga kosti, felur í sér betri ákvarð­ana­töku, fleiri hug­myndir o.s.frv. Um þetta efast fáir, en það er þó van­metið í við­skipta­líf­inu að bland­aðar stjórnir af konum og körlum skila betri árangri, mis­mun­andi sjón­ar­mið eru uppi, áhættu­sækni fær á sig annan blæ og þar fram eftir göt­un­um.

Inn­gild­ing þýðir ekki að við gerum engar kröfur til dæmis varð­andi íslensku­kunn­áttu eða mann­rétt­indi sem gilda í okkar sam­fé­lagi hér. Inn­gild­ing er ein­fald­lega öðru­vísi nálg­un, annað við­horf.

Inn­gild­ing gengur út frá því að hver ein­stak­lingur fái að njóta sín til fulls og sam­fé­lagið þarf að vera þannig upp­byggt að það gerir honum það kleift. Einmitt eins og skóli án aðgrein­ingar sem snýst ekki um að sleppa til­teknu náms­efni heldur að efla kerfið svo það úti­loki eng­an.

Inngilding felur í sér að litið er á okkur öll sem verð­mæta ein­stak­linga, hvern á sinn hátt og gengur ekki út frá því að allir þurfi að vera eins til þess að hlutir gangi vel eða að sá sem er aðeins öðru­vísi sé meiri háttar trufl­un. Þetta er í raun­inni svipuð hugsun og algild hönnun er varð­andi götur og bygg­ing­ar. Ef við hönnum skóla fyrir börn sem eru ekki með hreyfi­höml­un, þá lendum við í vand­ræðum þegar eitt barn mætir í hjóla­stól. Þá er rokið upp til handa og fóta og við er bætt römpum og lyftu ef pen­ingar eru til en barnið kemst alltaf bara í hluta af bygg­ing­unni og finnur hvaða byrði það er fyrir skóla­sam­fé­lag­ið. Í dag hönnum við þá bygg­ingar frekar þannig að þetta vanda­mál kemur aldrei upp, bygg­ingin á að ganga upp fyrir alla, hvort það kemur barn með hreyfi­höml­un, sjón­skerð­ingu – eða þá annað tungu­mál.

Inn­gild­ing krefst þess ekki af ein­stak­lingum að þeir þurfi að breyt­ast í öllu til þess að fá aðgang að sam­fé­lag­inu. Inn­gild­ing raðar ekki fólki eftir verð­mætum út frá einni hug­mynd og gild­is­mati heldur lítur á fjöl­breyti­leik­ann  sem kost, jafn­vel und­ir­stöðu jákvæðrar þró­un­ar. Inn­gild­ing krefst hins vegar af kerf­inu að sé nægi­lega sveigj­an­legt að allir hafi tæki­færi til að taka þátt.

Þetta þýðir að þeir sem hafa búið hér alla ævi þeir sleppa ekki við að þurfa að læra. Heim­ur­inn breyt­ist og ekki bara vegna íbúa­sam­setn­ingar hér á landi. Við þurfum líka að læra að umgang­ast lofts­lags­breyt­ingar eða tækni­lega þró­un, það er ekk­ert öðru­vísi. Jú, það þarf stundum að breyta aðeins til þegar maður skilur að eitt­hvað er orðið úrelt eða var kannski aldrei svo snið­ugt. Það var nú fyrst pínu vesen að læra að flokka í stað­inn fyrir að henda bara öllu í sömu rusla­föt­una. En með dálitlu fram­taki þá lærist það og manni líður eig­in­lega miklu betur vit­andi að maður leggur sitt af mörkum til að bjarga umhverf­inu.

Á þennan hátt er sam­búð fólks af mörgum menn­ing­ar­heimum aldrei nein ógn við menn­ingu þeirra sem hafa búið hér alla ævi. Kannski er ein­fald­ast að slá á hræðslu þeirra með að skoða mat­ar­menn­ingu – ég kom til Íslands í fyrsta skipti 1991 var úrval á veit­inga­stöðum enn frekar fábrot­ið, það voru samt komnir ein­hverjar staðir sem buðu upp á ítalskan eða asískan mat. Svo bætt­ust fleiri og fleiri inn í þennan hóp, til dæmis tapa­s-­staðir með spænska smá­rétti. Á síð­ustu 2-3 árum hef ég tekið eftir því að fjöl­margir veit­inga­staðir bjóða nú upp á að borða frekar 2-3 smá­rétti en eina stóra mál­tíð. En úrvalið er alls ekki bara spænskt heldur er líka heil­mikið af íslenskum réttum í boði. Inn­blást­ur­inn kom að utan sem við­bót en svo gerði íslenskt sam­fé­lag – eða frekar sam­fé­lagið á Íslandi – þetta að sínu og allir græða á því, eng­inn missir neitt. Og úrvalið er orðið það mikið að allir finna eitt­hvað sem þeim líður vel með án þess að láta trufla sig af ein­hverjum stöðum sem bjóða ekki upp á upp­á­halds­mat­inn þeirra.

Við þurfum sem sagt ekki fjöl­menn­ing­ar­stefnu fyrir inn­flytj­end­ur, heldur algilda hönnun fyrir allt sam­fé­lag­ið.

Inn­gild­ing þýðir að við sættum okkur ekki bara við fjöl­breyti­leik­ann heldur skil­greinum það sem eðli­legt ástand að við erum ekki öll eins og það er ábyrgð okkar sem fara með völd að skapa rammann í kringum það svo að allir vinni.

Og hér er ég nú að ein­hverju leyti sam­mála skæð­ustu gagn­rýnendum í athuga­semda­kerf­unum sem benda á hvað hefur farið úrskeiðis á Norð­ur­lönd­unum í mál­efnum inn­flytj­enda. Því þessi hálf­kæra leið að vera góð við útlend­inga en hleypa þeim samt ekki að hefur ekki gengið upp heldur skapar tví­skipt sam­fé­lag til fram­búð­ar. Mín leið út úr því er hins vegar ekki meiri úti­lokun heldur minni – eða frekar sagt, eng­in.

Greinin birtist í Kjarnanum 2. janúar 2022.