Sendiherrar Reykjavíkurborgar
Í síðasta mánuði tók ég ásamt borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, á móti hópi sendiherra í borgarstjórnarsalnum. Ekki hópi erlendra erindreka á Íslandi þó að þessi hópur væri ekki síður virðulegur.
Sendiherraverkefnið okkar er nefnilega einstök brú milli menningarheima og bindum við mikla vonir við þessari nálgun. Stærsti hópurinn sem þarf sendiherra eru nefnilega ekki t.d. Þjóðverjar sem þurfa að endurnýja vegabréfið sitt heldur allt fólkið sem hér býr sem hefur annað móðurmál en kemst ekki yfir landamæri þessa samfélags.
Áður en ég varð borgarfulltrúi sat ég í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna. Fyrir mörgum árum síðan fengum við þar styrk til að upplýsa konur af erlendum uppruna um krabbameinsleit á Íslandi. Fyrst fórum við hefðbundnu leiðina: auglýstum fyrirlestur með túlki. Það mætti engin. Ástæðan var kannski augljós – krabbameinsleit kvenna er ekki málefni sem konum finnst einfalt að ræða um í framandi umhverfi við ókunnugt fólk. Við fengum aðra hugmynd: restina af styrknum nýttum við í að þjálfa 10 lykilkonur af mismunandi uppruna sem bæði voru ágætlega inni í íslensku samfélagi og tungumáli en á sama tíma vel tengdar í hópi samlanda sinna. Og svo styrktum við þær með kaffi og meðlæti og hver þeirra hélt einhvers konar saumaklúbb, bauð sem sagt öðrum minnst 10 konum úr sínu heimalandi heim til sín til að ræða málin. Árangurinn var magnaður og tengsl mynduðust sem styrktu þessar konur langt umfram þetta kvöld og fyrirkomulag krabbameinsleitar á Íslandi. Brú var komin á.
Sömu nálgun höfum við nú innleitt í nýsköpunarverkefni sem er starfrækt af frábæru teymi i þjónustumiðstöð Breiðholts, eitt af stórvirkjum borgarinnar í starfi með innflytjendum.
Í gegnum sendiherrana fer fram samtal í báðar áttir, borgin fær betri mynd af skoðunum og þörfum þeirra sem ekki hafa íslensku sem móðurmál en getur á sama tíma komið upplýsingum til þeirra.
Þó þeir takist á við fjölda áskorana þá er okkar hópur sendiherra með eitt mál í brennidepli: Þátttöku barna af erlendum uppruna í frístundastarfi. Íslenska módelið eða forvarnarstarfið sem hefur gert kraftaverk meðal íslenskra ungmenna á síðustu 20 árum er orðið útflutningsvara í öllum heiminum, eins og sýndi sig um daginn á stórri ráðstefnu í Mexíkó þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Heiða Björg Hilmisdóttir hleyptu nýju forvarnarátaki af stokkunum, byggðu á okkar fyrirmynd. En þá megum við ekki gleyma að innleiða þessa byltingu hér heima til fulls. Þátttakan í frístundakortinu er nefnilega lægst í þeim hverfum þar sem fjöldi innflytjenda er hæstur og þó að 60% sé mikið á heimsmælikvarða þá er það ekki mikið í samanburð við önnur hverfi í borginni hvað notkun á frístundakorti varðar.
Öflugt frístundarstarf í íslenskumælandi umhverfi er með sterkustu vopnum sem við höfum til að tryggja að þessi börn og ungmenni fái að njóta sín til fulls í þessu samfélagi. Í tengslum við það hefur borgin á þessu ári samþykkt 30 milljónir í verkefnið Frístund í Breiðholti með það að markmiði að auka þátttökuhlutfall barna í íþrótta- og frístundastarfi og notkun frístundakorts í Breiðholti til jafns við meðaltal í Reykjavík og að styðjast við samfélagslega þátttöku, íslenskunám og félagslega aðlögun barna með annað móðurmál en íslensku.
Þetta samtal við íbúa getur svo í framtíðinni skilað okkur svo miklu öflugra íbúalýðræði sem er orðinn svo stór þáttur í þróun borgarinnar. Ég þreytist ekki á því að benda á hvað innflytjendur eru fjölbreyttur hópur, þeir eiga gæludýr, hjóla eða vilja hefja eigin rekstur, hafa áhuga á skipulags- og umhverfismálum. Og hvergi náum við þessu samtali betur en í gegnum hverfisnálgun.
Starfandi sendiherrar á þessu ári eru Sabit Veselaj (albanska), Karim Askari (arabíska), Maria Sastre (spænska), Pidsinee Dísa Einarsdóttir (tælenska), Emilía Mlynska og Anna Radacz (pólska), Mirabela Blaga og Fer Biamin Alin (rúmenska), Neringa Eidukiené (litáíska) sem og Innocentia Fiati Friðgeirsson og Patience Afrah Antwi, sem brúa bilið fyrir fólk frá Gana, Nígeríu og Keníu.
Í erlendum sendiráðum getur maður fengið endurnýjun á vegabréfinu sínu en þessir sendiherrar gera eitthvað annað og nýtt: þeir búa til vegabréf, ef svo má segja, inn í borgina. Þeir ganga jafnvel lengra og taka niður landamærin, opna vegatálmana upp á gátt, þannig að við Reykvíkingar sitjum allir við sama borð.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. jan. 2022.