Mótvægisaðgerðir fyrir heimilin

Kristrún, þingflokkur, banner

Færa má sterk rök fyrir því að núverandi staða í efnahagsmálum, hvað varðar verðbólgu og húsnæðisverðhækkanir, sé tilkomin vegna hagstjórnarmistaka af hálfu stjórnvalda í upphafi kórónuveirufaraldurs.

Kristrún Frostadóttir Formaður Samfylkingarinnar

Ákveðið var að beita bankakerfinu til að koma fjármagni út í kerfið, í stað þess að beita tækjum ríkisfjármálanna með markvissum hætti. Eiginfjárkröfur á bankanna voru lækkaðar sem og bankaskattur í þeirri von að fyrirtækin fengju fyrirgreiðslu til að halda starfsemi gangandi. Fjármagnið leitaði hins vegar ekki þangað. Með þessum seinagangi á sviði ríkisfjármála varð til tómarúm sem Seðlabankinn þurfti að stíga inn í með mjög afgerandi vaxtalækkunum.

Niðurstaðan er methagnaður bankanna upp á 80 milljarða króna eftir eina mestu kreppu Íslandssögunnar. Niðurstaðan er að nær allar lánveitingar fjármálafyrirtækja hafa ratað inn á húsnæðismarkaðinn. Niðurstaðan er 25% hækkun húsnæðisverðs frá upphafi faraldurs. Önnur slík hækkun á 5 ára tímabili, tímabili þessarar ríkisstjórnar. Og niðurstaðan er tæplega 6% verðbólga.

Nú stefnir í sögulega hraðar vaxtahækkanir. Ungt fólk, og tekjulágt, sem má ekki við hröðum breytingum í greiðslubyrði stendur nú frammi fyrir kostnaðarkreppu. Kæla þarf hagkerfið með því að minnka neyslu vegna þess að skuldirnar eru komnar til að vera sem og íbúðaverðshækkanirnar.

Stjórnvöld vitnuðu ítrekað á undanförnum mánuðum, og sérstaklega í aðdraganda kosninga, til lágra vaxta vegna velheppnaðra efnahagsúrræða og gáfu til kynna að um eðlilegt ástand væri að ræða á markaði fyrir húsnæðislán. Ítrekað hefur komið fram að aldrei hafi fleiri getað skuldsett sig fyrir fyrstu fasteign en nú á tímum kórónuveirufaraldursins. Þetta er fyrst og fremst ungt fólk sem hefur sín fullorðinsár með miklar skuldir á bakinu vegna þess hve mikið íbúðaverð hefur hækkað.

Efnahagsstefna stjórnvalda hefur byggst á því að láta heimilin í landinu skuldsetja sig fyrir efnahagsbatanum. Heimilin bættu við sig 450 milljörðum króna í skuldum á tímum kórónufaraldurs. Þessi viðbótarskuldsetning hefur orðið til þess að auka fjármálaóstöðugleika í landinu, líkt og Seðlabankinn hefur varað við, en að sama skapi gert heimilin berskjölduð fyrir hertu aðhaldsstigi í peningastjórnun. Nú stefnir í talsverða breytingu á greiðslubyrði þessara hópa á mjög skömmum tíma þegar verðbólga rýkur upp.

Í gær lögðum við í þingflokki Samfylkingarinnar ásamt fulltrúm Flokks fólksins, Pírötum og Viðreisnar í fjárlaganefnd fram tillögu á Alþingi um að ríkisstjórnin grípi til mótvægisaðgerða með auknum fjárhagsstuðningi, annars vegar með sértækri niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði viðkvæmra hópa og hins vegar með dreifingu húsnæðisgreiðslna til skamms tíma fyrir stærri hóp heimila til að milda höggið af hröðum viðsnúningi vaxta og verðbólgu. Slíkar aðgerðir verða að byggja á upplýsingum og greiningu á þeim hópum sem geta orðið fyrir mestum skaða vegna örra breytinga á vaxtakjörum og verðhækkunum á nauðsynjavörum.

Þessar hugmyndir okkar eru ekki gripnar úr lausu loft, mótvægisaðgerðir eru skynsamlegar og til marks um ábyrga efnahagsstjórn á þessum tímapunkti. Fordæmin eru nú þegar komin erlendis frá um aðgerðir til að milda höggið fyrir heimilin í landinu. Líta má til Bretlands í því samhengi þar sem gripið hefur verið til mótvægisaðgerða í formi frestunar á greiðslum og skattaafslátta vegna hækkunar á orkuverði þar í landi.

Það má ekki endurtaka þau mistök sem áttu sér stað í upphafi heimsfaraldurs þar sem tregða stjórnvalda til að stíga inn skapaði ójafnvægi í hagkerfinu með þeim afleiðingum sem nú blasa við. Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin verði ekki líka of sein að bregðast við þessum seinni fasa af efnahagsáhrifum kórónuveirunnar, þar sem vandinn er fyrst og fremst verðbólga og ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Kostnaður ríkissjóðs af því að bregðast of seint við verður meiri en ef ráðist er strax í aðgerðir. Úrræðin verða að vera til staðar ef ástandið versnar, en taka mið af þróun efnahagsmála á næstu mánuðum. Þessar mótvægisaðgerðir þurfa að vera klárar þegar kallið kemur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. febrúar 2022.