Sigur Flugfreyjufélagsins

Oddný banner

Niðurstöður Félagsdóms voru birtar 25. janúar sl. í máli Alþýðusambands Íslands fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, gegn Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair ehf.

Oddný,
Oddný G. Harðardóttir Alþingismaður

Gerð var sú eðlilega krafa að Icelandair, sem hafði þegið stuðning ríkisins við   að segja upp fólki, réði starfsfólkið inn aftur í starfsaldursröð þegar starfsemi fyrirtækisins leyfði. Icelandair hafði ekki gert það heldur valið úr hópnum eftir eigin geðþótta.

Niðurstaða félagsdóms er skýr um að Icelandair, hafi  borið að  fara  eftir  starfsaldri  þegar félagið  afturkallaði  uppsagnir  flugfreyja  og  flugþjóna.

Í rökstuðningi Samtaka atvinnulífsins sem tók til varnar fyrir Icelandair segir: „Stefndi  bendir  á  að  við  meðferð  Alþingis  á frumvarpi  því,  sem  orðið  hafi  að  lögum  nr.  50/2020,  hafi  verið  hafnað  þeirri breytingartillögu að starfsaldur ætti að ráða við endurráðningu í störf.“

Við afgreiðslu uppsagnarleiðarinnar með lögum nr. 50 vorið 2020 lagði ég fram breytingartillögu um að skýrt yrði kveðið á um í lögunum að endurráðning skyldi verða í starfsaldursröð. Sú tillaga var felld. Reyndar voru það aðeins þingmenn Samfylkingarinnar sem greiddu henni atkvæði ásamt einum þingmanni utan flokka.

Milli umræðna um málið hafði forseti ASÍ sent öllum þingmönnum bréf um mikilvægi þess að slík tillaga yrði samþykkt. Stjórnarþingmönnum og ráðherrum í ríkisstjórninni var því alveg ljóst hver gallinn var á frumvarpinu en höfnuðu tillögunni og gáfu með því skýr skilaboð til fyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins að starfsaldur skipti ekki máli við endurráðningu.

Markmiðið með uppsagnarleiðinni var að koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja en ekki að skerða réttindi launafólks. Tillaga okkar í Samfylkingunni um að koma í veg fyrir að brotið yrði á starfsmönnum fyrirtækja sem fengju aðstoð ríkisins við að segja upp fólki, var felld af ráðherrum og stjórnarþingmönnum. Og nú þegar félagsdómur hefur dæmt Flugfreyjufélaginu í vil verða stjórnvöld að axla ábyrgð.

Ríkið greiddi út rúmar 12 milljarða króna til fyrirtækja til að aðstoða þau við að segja upp fólki. Við í Samfylkingunni studdum ekki uppsagnarleið ríkisstjórnarinnar. Nær hefði verið að aðstoða fyrirtækin við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt í heimsfaraldri.

Bláa lónið, hótel, rútufyrirtæki og ýmis fyrirtæki flest tengd ferðaþjónustu fengu líka styrki. Ráðast verður í greiningu á því hvernig endurráðningum þessara fyrirtækja hefur verið háttað. Stjórnvöld eiga að gera þá skýlausu kröfu til fyrirtækja sem njóta ríkisaðstoðar að þau sýni samfélagslega ábyrgð og virði rétt launamanna.

Til hamingju með sigurinn Flugfreyjufélag Íslands!

 Greinin birtist í Morgunblaðinu.