Ræða formanns, Loga Einarssonar, á vorfundi flokksstjórnar

Kæru félagar, verið velkomin á fyrsta flokkstjórnarfundinn eftir kosningar - kosningar sem við hefðum sannarlega viljað að færu betur.

Loksins getum við hist augliti til auglitis og rætt okkar hjartans mál. Á fundinum gefst góður tími til umræðna og ég hvet ykkur til að leggja orð í belg – það er mikilvægt að við nýtum tækifærið og eigum hreinskiptið og hressandi samtal.

Mikilvægasta verkefnið nú er að stíga rétt skref fram á við. Okkar bíða mikilvægar sveitastjórnarkosningar, þar sem við þurfum að tryggja að við höldum þeirri góðu stöðu sem við höfum víða og gera betur annars staðar; styrkja rödd jafnaðarmanna til framtíðar.

__

Þótt stór verkefni bíði okkar er hollt að líta annað slagið í baksýnis spegilinn – í honum finnast ábyggilega eitthvað af þeim svörum sem flokkurinn þarf til að taka næstu skref.

Það er erfitt að benda á einhvern einn þátt sem olli því að okkur tókst ekki ætlunarverkið - að leiða saman annars konar ríkisstjórn frá miðju til vinstri. Á endanum eru það ótal þættir í aðdraganda kosninga sem að raðast saman í eina mynd og úrslitin eiga sér bæði ytri og innri skýringar.

 

Baráttan við heimsfaraldur tók sviðið hálft kjörtímabilið, sem gaf stjórnarflokkunum þremur fjarvistarsönnun í erfiðum pólitískum málum sem hefðu opinberað ólíka stefnu þeirra.

Líklega ofmátum við ákall kjósenda eftir breytingum við þessar aðstæður. Eða þá að þegar á var hólminn komið hafi kjósendur ekki treyst sér til að velja breytingar – sem meirihlutastuðningur er við í mörgum könnunum. Þeir flokkar sem mynda hina frjálslyndi miðju mældust t.d. allir mun betur vikurnar fyrir kosningar en kom upp úr kössunum á kjördag.

 Þá var Samfylkingin ekki ein inni á vellinum og ekkert athugavert við að viðurkenna að einstaka keppinautar okkar háðu einfaldlega mjög vel heppnaða kosninga baráttu.

Ákvörðun Vinstri-grænna í kosningabaráttunni að velja núverandi stjórnarmynstur sem fyrsta valkost, veikti tilboð okkar um annars konar ríkisstjórn - enda byggði sú hugmynd á því að forysta VG gæti hugsað sér að velja sér heppilegri samstarfsfélaga.

Barnaleg tiltrú okkar á að Vinstri-græn hefðu raunverulegan áhuga á ríkisstjórnarsamstarfi til vinstri – reyndust því ein okkar stærstu mistök.

Ef við horfum gagnrýnum augum inn á við er vafalaust hægt að leita skýringa víða; aðferðir við val á lista, mótun skilaboða, samskiptaháttum, mannauð og forystu flokksins. Og þar ber ég að sjálfsögðu ábyrgð.

Þegar öllu er á botninn hvolft má draga dýrmætan lærdóm af síðustu kosningum: Hann er er sá að umbótaflokkar frá miðju til vinstri verða að koma sér upp nýju leikskipulagi – verða valkostur. Það er stórt verkefni sem okkur ber að taka alvarlega.

Það er mjög umhugsunarverð staða ef félagshyggjuflokkarnir verða til lengri tíma áfram sitt hvorum megin víglínu íslenskra stjórnmála. Þá verður verður erfiðara að ná fram nauðsynlegum réttlætis og umbótamálum fyrir almenning í landinu. Og afleiðingin í reynd; nær alltaf hægri stjórn áfram í landinu.

Nýr þingflokkur Samfylkingarinnar er skipaður verulega öflugu, ólíku fólki og mætir sterkur til leiks á Alþingi í forystu stjórnarandstöðunnar - sem er nú þegar, mun samstilltari en á síðasta kjörtímabili – og það lofar góðu.

Umbótaflokkarnir í stjórnarandstöðu hafa ítrekað staðið saman að þingmálum, nefndarálitum og breytingartillögum. Bætt samvinna þessara flokka um sameiginlegar hugsjónir er fyrsta skrefið í átt að nýju leikskipulagi og skýrum valkosti fyrir næstu kosningar. Á sama tíma og við nýtum sameiginlegan slagkraft okkar til að vinna að mikilvægum málum í þágu almennings.

Það eru mikil sóknarfæri falin í frekara samstarfi. Og mörg stór mál sem við getum sammælst um strax; sem dæmi má nefna réttlátan arð af sjávarauðlindinni, metnaðarfullar aðgerðir í loftslagsmálum og þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Allir þessir flokkar aðhyllast blandað hagkerfi, með áherslu á sterkt norrænt velferðarkerfi, þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð og allir fá jöfn tækifæri til að dafna. Og þótt okkur greini kannski á um leiðir, eru markmiðin sameiginleg og okkur ber að vinna að þeim þvert á flokka.

Við munum nefnilega seint ná þeim árangri sem til þarf nema með miklu nánari samvinnu.

En við fáum aldrei nægan slagkraft til að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum umbótamálum fyrir almenning nema við hættum að stofna nýja og nýja flokka - oft utan um áhugamál einstakra stjórnmálamanna.

Kæru félagar,

Við þurfum þess vegna að ræða stóru myndina í stjórnmálunum: Ræða hreinskiptið hvaða skyldum flokkurinn okkar hefur að gegna? Hverju við þurfum að breyta til að ná betur eyrum kjósenda? Hvaða mál eigum við að setja á oddinn? Með hvaða flokkum á Alþingi eigum við samleið og með hverjum ekki? Og hvað hvert og eitt okkar getur gert, til að áhrif flokksins nýtist sem best í baráttunni?

Við höfum þá bjargföstu trú að sérhverjum einstaklingi skuli tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða. Og það er umhugsunarvert að þótt að þorri almennings sé fylgjandi þeim málun sem við setjum á oddinn fyrir kosningar þá uppskerum við ekki eftir því. Auðvitað taka fleiri flokkar undir þetta og bera oft fram keimlík kosningaloforð en það læðist óneitanlega að manni sá grunur að við séum kannski ekki í nægilega góðum tengslum við almenning. Ég tel mikilvægt að við ræðum þann þátt sérstaklega á þessum tímapunkti;

Eitt af því dásamlega við mannkynið er að við erum alls konar – líka með mjög ólíkar skoðanir.  En mér finnst stundum umhugsunarefni hvort Samfylkingin unir nægilega þessum fjölbreytileika. Hvort afdráttarlausar útfærslur okkar í öllum mögulegum og ómögulegum málum fær of margt fólk –þó það deili með okkur jafnaðarhugsjóninni– til að finnast það ekki eiga samleið með flokknum.

Við dveljum líka örugglega of mikið inni í þeim bergmálshellum sem samfélagsmiðlar eru. Við ættum ef til vill að fara sjaldnar inn á FaceBook, Twitter, Tik Tok og hvað þetta nú allt heitir – þar hittum við fyrst og fremst fyrir viðhorf sem okkur þykja þægileg og speglum okkur í fólki sem er sammála okkur. Fáum einfaldlega skakka mynd af veruleika stórs hluta landsmanna.

Við eigum auðvitað að hafa einarða stefnu í lykilmálum og fylgja henni fast eftir.

En þessir bergmálshellar blinda okkur örugglega líka stundum sýn og gefa afmörkuðum málum vigt, langt umfram tilefni eða áhuga þorra almennings.

Við þykjumst höndla einhvern heilagan sannleik, í samræðum mjög lítils hóps með svipaðar skoðanir og leggjum fram mjög afdráttarlausa stefnu eða útfærslu í einstaka málum. Jafnvel þótt ólík afstaða til þeirra skilgreini á engan hátt hvort fólk sé trútt jafnaðarstefnunni eða ekki – hefur jafnvel alls ekkert með jafnaðarstefnuna að gera.

Nærtækt er að nefna t.d. afstöðu fólks til mála er varða sölu á áfengi – orkunýtingu,  fiskeldi, jarðgöng, og hægt væri að nefna fjölda annarra mála. Allt mál sem við getum deilt hart um - og verið á öndverðum meiði - en um leið gott og gilt jafnaðarfólk sem á heima í Samfylkingunni.

Ég er með öðrum orðum að hvetja til þess að við leitum leiða til að breikka skírskotun okkar – ekki þrengja.

Við skulum fagna fjölbreytileikanum og ólíkri sýn flokksfólks á umheiminn; gefa því frelsi til að takast á um leiðir að þeim markmiðum sem við deilum: Gildunum um frelsi, jafnrétti og samstöðu.

Ég er sannfærður um að þetta mun laða fleiri fylgjendur til liðs við okkur og þetta mun örugglega auðvelda það verk sem hlýtur að vera framundan; að leitast frekar eftir því að þjappa félagshyggjufólki saman í færri flokka en fleiri. Og við ættum að geta þetta. Mörg af þeim málum sem við berjumst fyrir eru hlutir sem gagnast öllum þorra almennings.

En þetta mun aldrei ganga nema að við temjum okkar meira umburðarlyndi. Umburðarlyndi fyrir mismunandi sýn á umheiminn; hvernig við erum, hvernig við tölum – og hvaða leiðir við teljum bestar til að auka jöfnuð í heiminum. 

Ef okkur tekst þetta verður okkur treyst fyrir þeim risa áskorunum sem bíða okkar í kjaramálum almennings, loftslagsmálum, og alþjóðamálum. – Og það er mikilvægt að jafnaðarfólk leiði þau.  Það munum við gera af dirfsku og festu, án þess að nauðsynlegar aðgerðir bitni á þeim sem síst mega við því.

Þetta er okkar sameiginlega verkefni, nú. Og verður leiðarljósið í aðdraganda Landsfundarins í október, þar sem við tökum stórar ákvarðanir um framtíð flokksins.

__

Kæru félagar,

Engum þarf að koma á óvart að ríkisstjórn sem var upphaflega mynduð fyrir fjórum árum, um völd og stöðugleika stjórnmálastéttarinnar, verði áfram afturhaldssöm í stórum framfaramálum og standi vörð um kerfi sem hygla fáum - hvort heldur sem er í sjávarútvegi, efnahagsmálum eða alþjóðlegri samvinnu.

Það er sérstaklega bagalegt í ljósi þess að víða eru alvarleg teikn á lofti. Um loftlags- og öryggismál þarf ekki að fjölyrða en í efnahagsmálum innanlands eru líka vísbendingar um að mörg heimili þurfi að kvíða komandi mánuðum. Vextir hafa hækkað, verðbólga líka og stríð í Evrópu gerir útlitið sannarlega ekki bjartara. Eins gleðilegt og það er að við fetum okkur nú út úr faraldrinum, er mikilvægt að endurræsing hagkerfisins bitni ekki í viðkvæmustu hópum samfélagsins – og auki þannig ójöfnuð enn frekar.

Því miður sýna rannsóknir að ákveðnir samfélagshópar hafa farið verr út úr COVID en aðrir og ljóst að versnandi efnahagsástand, með hærra vöruverði og ófullburða húsnæðismarkaði, mun bæta gráu ofan á svart og bíta marga fast, ef ekki verður brugðist við með sértækum mótvægisaðgerðum.

Við í Samfylkingunni höfum kallað eftir beinskeittum viðbrögðum við þessu; m.a. með því að ríkisstjórnin stígi nú fast inn á framboðshlið húsnæðismarkaðarins, endurreisi félagslega íbúðakerfið, og styðji þingsályktanir Samfylkingarinnar um fleiri félagslegar íbúðir og mótvægisaðgerðir fyrir heimilin; vegna verðbólgu og hækkana á húsnæðiskostnaði.

En ef marka má orð forsætisráðherra og fjármálaráðherra virðist áhugi ríkisstjórnarinnar á því að styðja þau heimili sem eru nú að lenda í vanda, afar takmarkaður. En yfirlýsingar varaformanns og ráðherra Framsóknarflokksins, í þessa veru, eru líklega innihaldslaus hróp úr flokki sem virðist halda að hann sé enn í kosningabaráttu og ekki þegar kominn að ríkisstjórnarborðinu.

__

Kæru vinir,

Samfylkingin fordæmir hina ólögmætu og hryllilegu árás rússneskra stjórnvalda á Úkraínu. Ef rússneskum stjórnvöldum tekst að mylja Úkraínu undir sig með valdi getur það opnað á svipaðar kröfur og hernaðaraðgerðir gegn fleiri löndum við landamæri Rússlands. Innrás Rússa er því ekki eingöngu árás gegn Úkraínu heldur árás gegn sjálfsákvörðunarrétti þjóða og ógn við lýðræði, frið og öryggi til langs tíma.

Leiðarljós stjórnvalda í viðbrögðum sínum þarf að taka mið að þrennu; að taka fullan þátt í sameiginlegum þvingunaraðgerðum lýðræðisríkja gegn Rússlandi, að styðja íbúa Úkraínu með öllum tiltækum ráðum en einnig leita leiða að tryggja öryggi og styrkja varnir Íslands til framtíðar.

Við Íslendingar njótum þess að tilheyra varnarbandalagi Atlandshafsbandalagsins en það nægir ekki eitt og sér. Í ljósi þess að Evrópusambandið hefur tekið sér vaxandi hlutverk í varnar og öryggismálum í kjölfar innrásarinnar, í þeim tilgangi að tryggja betur lýðræði og frið í Evrópu, er enn meiri ástæða en áður til að Ísland gerist fullgildur aðili í þessu samstarfi lýðræðisríkja. Það verður að endurnýja samfélagslega umræðu um aðild að sambandinu en einnig skerpa málflutning innan okkar eigin raða. Um er að ræða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar og það er tími til kominn að setja aðildarumsókn að Evrópusambandi aftur rækilega á dagskrá;

Okkar jafnaðarmanna bíða því sannarlega stór verkefni. Og ekkert annað í stöðunni en að takast á við þau með þeirri baráttugleði og hugsjónaeldi sem einkennir félaga og talsmenn flokksins.

__

Kæra flokksstjórn,

Við búum að gríðarlegum mannauði sem er tilbúin að leggja mikið á sig fyrir jafnaðarmannahugsjónina. Sérstaklega vil ég nefna allan fjölda ungs fólks sem kom að krafti inn í kosningabaráttuna síðasta haust - og mun leika lykilhlutverk í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Þeirra er framtíðin.

Og talandi um sveitarstjórnarkosningar.

Styrkur Samfylkingarinnar birtist skýrt í forystu okkar í mörgum af stærstu sveitarfélögum landsins. Þar má t.d. nefna Akureyri, Reykjanesbæ, Árborg, Akranes og auðvitað Reykjavík sem okkar farsæli borgarstjóri hefur leitt síðastliðin átta ár.

Svo ekki sé minnst á forystu gegnheilla jafnaðarmanna undir merkjum sameinaðra lista félagshyggjufólks, sem við styðjum heils hugar.

Og það er staðreynd að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi er í meirihlutastjórnum fyrir hönd fleiri Íslendinga en flokkurinn okkar, Samfylkingin, og munurinn er reyndar mikill á milli okkar og þess flokks sem kemur næstur að þessu leyti.

Á sveitarstjórnarstiginu höfum við sýnt og sannað að það er hægt að vinna og það er hægt að vinna saman - að mikilvægum málum í þágu almennings, í nánu samstarfi við aðra umbótaflokka. Þetta þurfum viða að gera í landsstjórninni líka; að sameina umbótaaöflin svo næsta ríkisstjórn verði fær um að ráðast í nauðsynlegar breytingar og gera betur fyrir fólkið í landinu.

Ég kom sjálfur inn í stjórnmálin í gegnum sveitarstjórnarmálin. Og með þá reynslu í farteskinu get ég orðið býsna leiður á því þegar kollegar á Alþingi og fólk í ýmsum áhrifastöðum í samfélaginu láta eins og sveitarstjórnarmálin séu annars flokks stjórnmál. Þau skipti minna máli en landsmálin, séu í besta falli einhverskonar stökkpallur fyrir vonarstjörnur stjórnmálaflokkanna.

En það er á sveitarstjórnarstiginu sem ákvarðanir eru teknar um okkar dýrmætustu nærþjónustu. Þar má nefna dagvistun, leikskóla- og grunnskólamál, frístundir barna og ungmenna, barnavernd, húsnæðismál, þjónustu við aldraða, málefni fatlaðra, samgöngur, íþróttir, menningu og listir. - og skiptir miklu máli hver kemur að ákvarðanatökunni.

Það er greinilegt að Íslendingar treysta Samfylkingunni vel til að taka ákvarðanir um þau mál sem snerta þeirra daglega líf.

Og það er gott – og skynsamlegt af kjósendum en það breytir ekki því hrópandi óréttlæti sem blasir við þegar skoðuð er sú þjónusta sem sveitafélög veita og sá hlutur af skattekjum sem þau fá til þess. Þar vantar mikið uppá.

Og til að bæta gráu ofan á svart eru ráðherrar duglegir að leggja fram frumvörp, sem Alþingi samþykkir, sem auka á þennan halla. Því sama hversu góð þau málu eru í eðli sínu er, þá er óforskammað að leggja nýjar skyldur á herðar sveitarfélaga, án þess að það sé tryggt að nægilegt fjármagn fylgi með. Nærtækt er farsældarfrumvarp fyrrverandi velferðar- og barnamálaráðherra.

Það hefur verið og verður áfram eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á þingi að berjast fyrir meira sanngirni þegar kemur að tekjuskiptingu ríkis- og sveitafélaga.

Kæru félagar,

Þrátt fyrir að vera nú þegar í mjög sterkri stöðu vítt og breitt um landið, erum við í dauðafæri að vinna sigra á fleiri vígstöðvum. Í hverri viku birtast glæsilegir listar jafnaðarmanna fyrir kosningarnar í maí. Og það er ótrúlega gleðilegt að sjá hvað mikið af fjölbreyttu fólki gefur kost á sér í þágu nærsamfélags síns. – Nýtt fólk en gamlir og sigursælir refir líka.  Öll eiga þau það sameiginlegt að vera öflugir málsvarar jafnaðarstefnunnar.

Framboð Samfylkingarinnar um allt land byggja öll á grundvallargildum jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og samstöðu.

Við setjum velferð fólks í fyrsta sæti, leggjum áherslu á menntun og velferð barna og höfum forystu um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði.

Við viljum fjölga valkostum og auka öryggi og fjölbreytni í samgöngum, svo sem með að efla almenningssamgöngur. Styðja þannig við efnahag fjölskyldna, skapa heilnæmara umhverfi og stíga stór skref í loftlagsmálum.

Við viljum byggja upp fjölbreyttari, grænni og skemmtilegri samfélög þar sem hlúð er að unga fólkinu og þjónusta við eldra fólk er framúrskarandi. Samfélög þar sem atvinnulíf getur blómstrað, fólk hefur greiðan aðgang að menningu, listum og íþróttum, og mannréttindi eru í hávegum höfð.

Við siglum nú inn í spennandi kosningabaráttu og ef við leggjumst öll á árar er ég sannfærður um við uppskerum ríkulega 14. maí.

Svo sækjum sameinuð fram í átt að heilbrigðara og betra samfélagi