Þjóðaröryggi Íslands og stríðið í Úkraínu

Þórunn,  kraginn, banner,

Innrás Rússlands í Úkraínu er tilraun Pútíns til að snúa við gangi sögunnar þrjátíu árum eftir að Sovétríkin féllu. Takist honum ætlunarverk sitt mun það hafa langvarandi áhrif á öryggishagsmuni Evrópuríkja.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Ísland er þar ekki undanskilið. Mörg okkar héldum að innrásarstríð á þröskuldi Vestur-Evrópu heyrðu sögunni til. Engum heilvita manni dytti slíkt í hug, hvað þá að hóta notkun kjarnorkuvopna. En nú horfumst við í augu við einar mestu hörmungar í álfunni frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og tæplega tvær milljónir manna hafa lagt á flótta.

Þjóðaröryggisstefna Íslands byggir á nokkrum jafngildum þáttum. Hún tekur til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra þátta. Aðild að NATO er lykilstoð í stefnunni og vörnum landsins en þátttaka Íslands, sem herlausrar þjóðar, í samstarfi á þeim vettvangi er á borgaralegum forsendum. Nú mun reyna á okkur líkt og aðrar aðildarþjóðir NATO í andstöðunni við innrásarstríð Pútíns. Þar skiptir miklu að ríki hafi úthald í mestu efnahags- og viðskiptaþvinganir sem gripið hefur verið til. Þær munu líka bíta viðskiptahagsmuni okkar en þær fórnir eru hjóm eitt við hliðina á þeim sem íbúar Úkraínu og rússneskur almenningur þarf að þola.

Vægi Norðurskautsráðsins hefur vaxið mjög á þessari öld. Þar hafa ríki lagt áherslu á friðsamleg samskipti á norðurslóðum. Rússland tók við formennsku af Íslandi vorið 2021 og mun væntanlega gegna henni til 2023. Hin aðildarríkin sjö hljóta að  hugsa sinn gang á þessum mikilvæga vettvangi næstu misserin í ljósi innrásarinnar í Úkraínu.

Að lokum skal ítrekað að hagsmunir Íslands eiga sem aldrei fyrr samleið með Evrópusambandinu og augljóst að huga þarf fljótlega að því að endursenda umsóknarbréfið sem utanríkisráðherra undirritaði í júlí 2009 og hefja aðildarviðræður á ný. Ísland á heima í Evrópu í nánu samstarfi við vinaþjóðir okkar hvort heldur er í Atlantshafsbandalaginu eða í Evrópusambandinu.