Úr takti við tímann

Alþingi samþykkti nýverið ramma utan um öll umsvif hins opinbera út árið 2026; fjármálastefnu stjórnvalda.

Ramminn tekur fyrst og fremst mið af skuldastöðu ríkissjóðs til skamms tíma í stað þess að horfa á sjálfbærni samfélagsins og þar með fjárhagsstöðu hins opinbera til langs tíma. Hann tekur ekki mið af stöðunni á húsnæðismarkaði og stöðunni á vinnumarkaði né af fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Af því leiðir að annað hvort stefnir í afturför í velferðarmálum hér á landi ef samþykktur rammi á að halda, eða þá að nýsamþykkt fjármálastefna ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára er nú þegar sprungin.

Ramminn tekur ekki mið af veruleika og þörfum fatlaðs fólks á Íslandi. Áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir 0,7% raunaukningu útgjalda árlega, eða um 8 milljörðum króna frá 2023-26. Þjónusta við fatlað fólk hefur verið vanfjármögnuð frá því að málaflokkurinn var fluttur yfir til sveitarfélaganna árið 2012 og um 9 milljarða króna vantar inn í málaflokkinn samkvæmt greiningum. Bara það eitt að fullfjármagna þjónustu við fatlað fólk, sem er bundin í lög, með samningum við sveitarfélögin myndi taka allt svigrúmið sem ríkisstjórnin hefur gert ráð fyrir í áætlun sinni út kjörtímabilið.

Húsnæðisverð hefur hækkað um 25% á síðustu tveimur árum, verðbólga er rúmlega 6% og stefnir í frekari verðþrýsting vegna stríðsins í Úkraínu. Forsendur þess að ramminn haldi er stöðugleiki á vinnumarkaði. Sá stöðugleiki er háður aðgerðum nú en úrræðaleysi stjórnvalda gagnvart verðhækkunum hefur reynst algjört. Úrræðaleysi í dag skapar spennu sem mun brjótast út strax í haust. Aukinn launakostnaður og kostnaður vegna verðbólgu getur hæglega slagað í þá 8 milljarða króna sem ríkisstjórnin hefur skammtað sér í núverandi fjármálastefnu ef ekkert er að gert til að milda höggið af verðhækkunum.

Þá tekur ramminn heldur ekki mið af þörfum framtíðarkynslóða þrátt fyrir allt tal um mikilvægi þess að auka ekki byrðar þeirra út frá þröngum mælikvarða um ríkisskuldir. Í umfjöllun fjármálaráðs um fjármálastefnu stjórnvalda kemur fram að fjárfestingarstig í landinu sé orðið varanlega lægra en það var í kringum aldamót. Fjármunastofninn er metinn lægri en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Vanfjárfesting á sér aftur á móti ekki aðeins stað hjá ríkinu, heldur er vandinn mun verri á sveitarstjórnarstiginu. Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu hefur fallið hjá sveitarfélögum og núverandi áætlanir benda til þess að fjárfestingarhlutfallið fari lækkandi út árið 2026.

Þetta er sjálfskapaður vítahringur sem stjórnvöld vilja ekki rjúfa. Staðan í fjárfestingum sveitarfélaga er nefnilega afleiðing niðurskurðar bakdyramegin í rekstri ríkissjóðs. Málaflokkar hafa verið fluttir yfir til sveitarfélaga til að hreinsa borð ríkissjóðs og bæta afkomustöðuna, og á móti dregið úr getu sveitarfélaga til að sækja fram. Fjárfesting sveitarfélaga hefur sögulega verið um 1,9% af landsframleiðslu en verður undir lok tímabils fjármálastefnu stjórnvalda um 1,2% af landsframleiðslu. Þessi 0,7% munur er ígildi um 20 milljarða króna í dag. Því má segja að vanfjármögnun í málaflokki fatlaðs fólks jafngildi um helmingnum af þessu fjárfestingargati.

Þetta er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að svigrúm sveitarfélaga til að auka tekjur sínar er mjög takmarkað og tekjustofnar fáir. Sveitarfélögin eiga erfiðara með að nálgast lánsfjármagn og njóta verri lánskjara en ríkissjóður. Stærri sveitarfélög, líkt og Reykjavíkurborg, geta sótt fjármagn á mörkuðum á hagstæðum kjörum sökum stærðar og því sinnt nauðsynlegri fjárfestingu og framtíðaruppbyggingu. Þannig getur Reykjavíkurborg fylgt nútímalegri efnahagsráðgjöf um að skera ekki niður fjárfestingu á erfiðum tímum en fjöldi sveitarfélaga getur ekki leyft sér slíkt vegna úreltrar efnahagsstefnu þeirra flokka sem fara með landstjórnina. Ríkisstjórnin ætti að leitast eftir því að efla sveitarstjórnarstigið og getu þess til að sækja fram, ekki halda aftur því, með efnahagsstefnu sem er verulega úr takti við tímann.

Höfundar eru þingmenn Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmum suður og norður.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. mars 2022.