Brask og brall

Oddný frétta banner

Næstum allir á Íslandi eru óánægðir með söluna á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Könnun Fréttablaðsins sýndi að 83% landsmanna segjast vera óánægðir með hvernig tekist hefur til.

Oddný,
Oddný G. Harðardóttir Alþingismaður

Lögin um sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum sem samþykkt voru í desember 2012 áttu að skapa trausta umgjörð ef ætti að selja hlutina. Leiðarstef laganna eru gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Draga átti dýran lærdóm af bankahruninu.

Salan í höndum fjármála- og efnahagsráðherrans hefur hins vegar orðið til þess að almenn óánægja ríkir og traust til ráðherrans og ríkisstjórnarinnar hefur beðið hnekki. Ásakanir um spillingu og vanrækslu eru háværar og um að lögin um söluna hafi verið brotin.

Hæfir fjárfestar og hinir

Aðferðin sem fjármála- og efnahagsráðherra samþykkti að nota var lokað útboð ætlað hæfum fjárfestum, fagfjárfestum. Á Íslandi er ekki til neinn opinber listi yfir fagfjárfesta líkt og víða erlendis (institutional investors). Hér þarf hver miðlari að flokka viðskiptavini sem almenna fjárfesta eða fagfjárfesta eftir forskrift í lögum. Einstaklingar sem skilgreina ætti sem almenna fjárfesta fengu að taka þátt í lokaða útboðinu líkt og þeir sem skilgreindir eru sem fagfjárfestar. Fjármálaeftirlitið hefur nú kallað eftir upplýsingum um þessa flokkun á þeim sem tóku þátt í útboðinu og það er vel.

Niðurstaðan virðist vera sú að miðlararnir gátu bætt í hóp þeirra sem fengu að kaupa á afslætti fram á síðustu stundu. Við höfum séð listann yfir þá sem keyptu. Þar eru margir smáir fjárfestar sem fengu afslátt á þeim forsendum að þeir væru eftirsóttir eigendur bankans. Spurningin um hvort þetta hafi verið einhvers konar brask og brall eða allt gert í samráði við bankasýsluna og ráðherra er áleitin og við verðum að fá svör við henni.

Þingmenn stjórnarflokkanna sem og stjórnarandstöðu hafa lýst vonbrigðum sínum með niðurstöðuna. Formaður fjárlaganefndar sagði í ræðu á Alþingi að hún hefði staðið í þeirri trú að um langtímafjárfesta væri að ræða og því hafi niðurstaðan komið á óvart.

En Bankasýslan segir að hvert skref í söluferlinu hafi verið tekið í nánu samstarfi við stjórnvöld sem hafi verið ítarlega upplýst um öll skref sem stigin voru. Enda gera lögin um söluna ráð fyrir því.

Fara á að lögum

Í fyrstu grein laganna um bankasölu er tilgreint hvað ráðherra er heimilt að selja af eignarhlutum í bönkunum. Þegar lögin voru samþykkt í desember 2012 áttum við 5% í Íslandsbanka, 13% í Arion banka og 81%  í Landsbanka. Samkvæmt lögunum á að halda eftir í eigu ríkisins 70% af Landsbanka. Það var svo á árinu 2015 sem ríkið sat með nánast allt bankakerfið í fanginu og umræða hófst um sölu á stærri hlutum. En lögin um söluna eru þau sömu og enn í fullu gildi.

Önnur grein laganna fjallar um ákvörðun um sölumeðferð. Bankasýslan gerir tillögu um sölumeðferðina og þegar ráðherra hefur fallist á tillöguna leggur hann greinargerð um hana fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Ráðherra leitar einnig umsagnar Seðlabankans m.a. um gjaldeyrisforða og laust fé í umferð. Í greinargerð ráðherrans eiga að koma fram upplýsingar um helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig sölumeðferð verði háttað. Þegar umsagnir hafa borist ráðherra tekur hann ákvörðun um hvort sölumeðferð verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar eða hvort hann geri breytingar á fyrirhugaðri sölumeðferð eftir að hafa tekið tillit til umsagna. Ljóst er af lestri greinarinnar að ráðherra hefur heimildir til að gera breytingar á tillögum Bankasýslunnar, honum er því ætlað að hafa virkt hlutverk í ákvarðanatöku um sölumeðferðina.

Fjallað er um meginreglur við sölumeðferð í þriðju grein laganna. Áherslan er á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Skilyrðin sem sett eru eiga að vera sanngjörn og tilboðsgjafar eiga að njóta jafnræðis. Þá skal við söluna kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.

Í frumvarpinu um söluna segir um 3. gr.: „Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt milli þeirra sem koma til greina sem mögulegir kaupendur að eignarhlut svo að allir líklegir kaupendur hafi jafna möguleika á því að gera tilboð. Jafnræði verður best tryggt með því að skilyrði við sölu séu fá, skýr og öllum ljós.“

Um sölumeðferðina er fjallað í fjórðu grein laganna. Þar er farið yfir hvað Bankasýslunni er ætlað að gera, þ.e. undirbúa söluna, leita tilboða, meta tilboð, hafa umsjón með samingaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð. Seinni málsgrein greinarinnar er svona: „Þegar tilboð í eignarhluti liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutans.“ Hér er alveg skýrt að það er ráðherra sem tekur ákvörðun um tilboðin, samþykkir þau eða hafnar. Ráðherrann getur ekki falið sig á bak við Bankasýsluna eða miðlara úti í bæ. Ráðherra ber alla ábyrgð.

Rannsóknar nefnd Alþingis

Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur kallað eftir því að strax verði sett á laggirnar rannsóknarnefnd Alþingis til að rannsaka bankasöluna. Við teljum það nauðsynlegt enda er niðurstaðan í svo hróplegu ósamræmi við markmið laganna um trausta umgjörð, gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni.

Forsætisráðherra hefur sagt að umgjörðin um bankasöluna hafi ekki haldið og því þurfi að breyta henni og byrja á að leggja niður Bankasýsluna.

Mér finnst hins vegar augljóst að fjármála- og efnahagsráðherra hafi ekki haldið sér innan umgjarðarinnar sem lögbundin er og að á því þurfi hann að axla ábyrgð.

Greinin birtist í Kjarnanum 26. apríl 2022.