Eldra fólk er alls konar

Hvað vill eldra fólk og hvernig þjónustu á að veita þessum hópi, sem er fjölmennur og fer stækkandi? Svarið er að það þarf fjölbreytta og ólíka þjónustu og eldra fólk á sjálft að vera með í að móta hana.

Sæmilega hraustur einstaklingur, rétt kominn á eftirlaun, þarf ekki það sama og sá sem er eldri og hrumari og áhugamálin eru ólík í þessum hópi eins og öðrum.

Heilsan er mikilvæg og það er hagur allra að fólk geti haldið haldið góðri heilsu og þreki. Þess vegna hafa Félag eldri borgara á Akureyri og öldungaráð bæjarins lagt mikla áherslu á að að boðið sé upp á góð tækifæri til heilsueflingar. Fjölbreytt og ólík eftir áhuga og getu. Heilsurækt er ekki aðeins líkamleg, það eflir líka heilsu og kemur í veg fyrir einangrun, að taka þátt í skapandi félagsstarfi, fá fræðslu, eiga kost á góðum máltíðum, viðburðum, menningu og allri nærandi samveru með öðrum.

Auk heilsueflingar er öryggi annar lykilþáttur. Það dugar ekki að segja að flestir vilji búa heima sem lengst, það þarf að gera fólki það kleift. Þar skiptir góð, fjölbreytt og sveigjanleg heimaþjónusta miklu, veitt í samvinnu og með virðingu fyrir þeim sem njóta - og aðstandendum þeirra, sem búa oft við óhóflegt álag. Fólk þarf líka að eiga kost á öruggri og fjölbreyttri búsetu. Sumir þurfa öruggar leiguíbúðir með lágri leigu, aðrir geta átt sínar íbúðir, en vilja gjarnan minnka við sig og vera í hagkvæmu og þægilegu húsnæði. Sumir vilja vera í sérstökum húsum með öðru eldra fólki, aðrir í blandaðri byggð, en gjarnan nálægt þjónustu. Það er bæjarstjórnar og skipulagsyfirvalda að tryggja að þessir valkostir séu til og hlusta vel þegar óskir eru settar fram og samvinnu leitað. Þegar ekki er lengur hægt að búa heima þurfa góð hjúkrunarheimili að taka við.

Síðustu fjögur ár hef ég setið í öldungaráði bæjarins sem einn af fulltrúum Félags eldri borgara. Við höfum aflað upplýsinga og sett fram fjölmargar skoðanir, ábendingar og tillögur. Við höfum lagt áherslu á að hlustað sé á þetta lögbundna ráð og öll þjónusta og aðgerðir unnar í samvinnu við það. Við höfum ekki alltaf verið ánægð með viðbrögð og árangur og að mínu mati vantar talsvert á yfirsýn og samvinnu í þessum málaflokki. Í lok síðasta árs náðist, að okkar frumkvæði, sá góði áfangi að bæjarstjórn samþykkti fyrsta áfanga aðgerðaáætlunar fyrir eldra fólk og veitti fé til. Nú þarf að framkvæma, orð á blaði duga ekki.
Til að fylgja þessum málum eftir ákvað ég að vera enn einu sinni með í stefnumótun og kosningabaráttu fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri og mun fylgja því starfi eftir á næsta kjörtímabili. Samfylkingin er sá flokkur sem ég treysti best og það hefur sannarlega verið ánægjulegt að finna áhuga og góðan samhljóm við þau sjónarmið sem ég hef talað fyrir. Bæði hjá nýliðum og því reynsluríka fólki sem skipar listann. Til viðbótar við heilsueflingarátakið Virk efri ár, sem þegar er samþykkt, viljum við líka að loksins verði ókeypis í sund fyrir 67 ára og eldri. Öll þau sjónarmið sem eru rakin hér að ofan endurspeglast í stefnuskrá flokksins.

Akureyri á að vera aldursvænn bær þar sem gott er að verja efri árunum.

Sigríður Stefánsdóttir er varaformaður öldungaráðs Akureyrar og skipar 10. sæti á S lista Samfylkingar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri.