Við þurfum húsnæðissáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið

dagur, borgarstjóri, flokksval, reykjavík

Staðan á húsnæðismarkaði er að mörgu leyti með ólíkindum. Fyrir liggur að undanfarin ár hafa verið metár í húsnæðisuppbyggingu, einkum í Reykjavík.

Dagur B. Eggertsson Borgarstjóri

Og ekki er lengra síðan að Seðlabankinn varaði við offramboði á húsnæðismarkaði en árið 2019. Í kjölfarið hægði á fjármögnun nýrra verkefna.

Vaxtalækkanir síðastliðin tvö ár hafa hins vegar gjörbreytt þessari stöðu og eftirspurn eftir fasteignum er nú langt umfram framboð. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur farið frá því að telja 2.000 íbúðir þurfa árlega í að telja 4.000 íbúðir þurfa á ári næstu fimm ár.

Reykjavík tvöfaldar lóðaframboð

Reykjavík er tilbúin til að mæta stórum hluta af þessari þörf með tvöföldun á fyrirhuguðu framboði lóða til uppbyggingar íbúða. Í haust tilkynnti Reykjavík að úthlutun lóða yrði aukin og næstu tíu ár yrði úthlutað fyrir yfir þúsund íbúðir á ári. Lóðir í samþykktu skipulagi sem eru í höndum einkaaðila og byggingafélaga eru annað eins og eðlilegt að þær byggist nú upp af sama krafti. Reykjavík vill bregðast við breyttri stöðu með því tvöfalda fyrri uppbyggingaráætlanir. Með samstilltu átaki allra eiga yfir 2.000 íbúðir að geta farið í uppbyggingu á hverju ári næstu fimm ár í Reykjavík, eða alls 10.000 íbúðir til að mæta þeirri eftirspurn sem er á húsnæðismarkaði á fjölbreyttan hátt.

Í húsnæðisáætlun borgarinnar er skilgreint nákvæmlega hvar þessar íbúðir eiga að rísa, í samræmi við nýsamþykkt aðalskipulag Reykjavíkur til 2040. Sérstök áhersla er lögð á íbúðir við þróunarása Borgarlínu.

Bara húsnæði fyrir alla í Reykjavík?

Þegar horft er á undanfarin ár í húsnæðisuppbyggingu sker ýmislegt í augu. Víða hefur verið byggt en nær öll uppbygging fyrir tekjulægri hópa, stúdenta og eldri borgara hefur átt sé stað í Reykjavík. Mikið vantar hins vegar upp á í þeim efnum í ýmsum nágrannasveitarfélögum. Félagslegum íbúðum hefur fjölgað mikið í Reykjavík og biðlistar hafa dregist saman um helming á þremur árum. Fjölgun annars staðar er í mýflugumynd.

Óhagnaðardrifin húsnæðisfélög hafa einnig lyft grettistaki í samvinnu við borgina. Fjöldi stúdentaíbúða hefur nær tvöfaldast á örfáum árum. Þær eru allar í Reykjavík. Íbúðafélag verkalýðshreyfingarinnar fyrir vinnandi fólk, Bjarg, hefur tryggt þúsundum öruggt þak yfir höfuðið með svokölluðum stofnframlögum. Fjórar af hverjum fimm slíkum íbúðum sem risið hafa á undanförnum árum eru í Reykjavík. Svipaða sögu er að mörgu leyti að segja af uppbyggingu í þágu öryrkja og fatlaðs fólks.

Ég er stoltur af húsnæðisstefnu borgarinnar og verkunum í Reykjavík en við fáum betra samfélag fyrir alla ef markviss og skipulögð félagsleg blöndun á sér stað í öllum sveitarfélögum, ekki aðeins í höfuðborginni.

Það vantar húsnæðissáttmála

Það vantar yfirsýn á húsnæðismarkaði. Það vantar betri spár og áætlanir. Það vantar meira jafnvægi í uppbygginguna. Það vantar að tæki til að tryggja að félagslegt húsnæði byggist í öllum sveitarfélögum. Það vantar festu og fyrirsjáanleika í stuðning ríkis og sveitarfélaga í formi stofnframlaga. Það þarf 15 ára sýn. Fimmtán ára áætlun. Og það þarf að ganga skipulega til verka.

Þannig var unnið að samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið. Gögnum var safnað og greiningar gerðar. Valkostir voru settir fram og metnir. Loks var sett saman heildarsýn um verkefni og fjármögnun og sameinast um eina niðurstöðu sem standa myndi í lengri tíma.

Samgöngusáttmálinn hefur mælst vel fyrir og nýtur víðtæks stuðnings. Nú þurfum við að gera húsnæðissáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið. Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og sameiginleg þróunaráætlun sveitarfélaganna í íbúðauppbyggingu er góður grunnur en það þyrfti einnig að huga að félagslegum þáttum. Fjármögnun verkefna og uppbyggingar á svæðum sem ekki eru í eigu sveitarfélaga, sem víða eru einu byggingarsvæðin sem til er að dreifa, utan Reykjavíkur.

Húsnæðismál og græn borgarþróun

Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins felur í sér mikil tækifæri til góðrar borgarþróunar og uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Þéttingarreitir með fram Borgarlínu eru þar í fremstu röð. Ný og spennandi byggingarsvæði í Ártúnshöfða og síðar Keldnalandi verða einnig fyrstu hverfin sem skipulögð eru með Borgarlínu í huga frá grunni.

Með húsnæðissáttmála kæmi nauðsynleg áætlun í takt við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Til viðbótar við samgöngur og húsnæði væri þar komin áætlun um landnotkun og þar með loftslagsmál. Sameiginleg framtíðarsýn hvoru tveggja væri kolefnishlutlaust borgarsamfélag, eins og segir í samgöngusáttmálanum.

Húsnæðissáttmáli væri langtímasýn og framkvæmdaáætlun sem myndi auka fyrirsjáanleika í húsnæðisuppbyggingu landsins til muna og koma í veg fyrir vondar ákvarðanir teknar í flýti vegna þess að betri lausnir virðast ekki í boði. Dreifing byggðar væri slíkt skyndiráð. Dreifing byggðar fellur á þremur prófum. Dreifing byggðar er dýr og tímafrek í samanburði við uppbyggingarreiti sem þegar liggja fyrir. Dreifing byggðar eykur umferð, veikir almenningssamgöngur og eykur tafatíma í umferðinni. Og dreifing byggðar eykur á loftslagsvandann.

Húsnæðisuppbygging án hagnaðarsjónarmiða

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 er það markmið sett að fjórðungur allrar húsnæðisuppbyggingar verði á vegum óhagnaðardrifinna félaga. Þetta er lykilverkefni sem ekki mun ganga eftir af sjálfu sér. Í ljósi þess að stefnt er að byggingu 10.000 íbúða í Reykjavík næstu fimm ár verður að eiga sér stað sambærilegt átak í byggingu 2.500 leigu- og búseturéttaríbúða eins og hrundið var af stokkunum árið 2014 og hefur gjörbreytt stöðu þúsunda reykvískra einstaklinga og fjölskyldna á húsnæðismarkaði síðustu ár. Sérstök þörf er á að halda áfram uppbyggingu á húsnæði fatlaðs fólks og tryggja því þannig skilyrði til sjálfstæðrar búsetu.

Húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur

Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi við að byggðar verði íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Fyrstu íbúðirnar í verkefninu eru þegar orðnar að veruleika en yfir 500 slíkar eiga að fylgja á komandi kjörtímabili.

Lífsgæðakjarnar fyrir eldri borgara

Stefnt skal að því að minnsta kosti þrír nýir lífsgæðakjarnar fyrir eldra fólk fari í uppbyggingu í Reykjavík á næsta kjörtímabili, í Ártúnshöfða, Úlfarsárdal og á einum til tveimur stöðum vestan Elliðaár. Í lífsgæðakjörnum eru heimili og þjónusta tengd saman til að skapa öryggi og samveru. Þar er að finna góða blöndu eignaíbúða, búseturéttar og minni leiguíbúða sem tengjast hvers konar þjónustu, skapa öryggi og samveru. Skoðaður verði sá kostur að efnt verði til samkeppni um bestu útfærslu þessara hugmynda. Áhugaverðast er að lífsgæðakjarnar eldra fólks verði í blandaðri byggð þannig að allir aldurshópar blandist í daglegu lífi og hverfistengdri þjónustu.

Húsnæðissáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið

Langtímasýn og jafnvægi í húsnæðismálum er lífsnauðsyn á húsnæðismarkaði. Algjör skortur er á heildstæðri húsnæðisstefnu fyrir Ísland. Hana ætti að setja með áherslu á húsnæðisöryggi, markvissa og fjölbreytta húsnæðisuppbyggingu, kjör heimila og markmið um kolefnishlutlaust borgarsamfélag. Brýnt er að gera langtímaáætlun um úthlutun stofnframlaga til byggingar íbúða á viðráðanlegu verði. Tryggja þarf aukið öryggi fólks á leigumarkaði með lagasetningu. Húsnæðisbætur ætti að einfalda og efla. Útrýma þarf óviðunandi og hættulegu íbúðarhúsnæði í markvissum skrefum, meðal annars á atvinnusvæðum, en heimila búsetu á umbreytingarsvæðum, með skilyrðum, þar sem búsetuskilyrði og eldvarnir eru í lagi.

Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg sýnt með samstarfi við verkalýðshreyfinguna, stúdenta og byggingafélög eldra fólks að góðar lausnir sem tryggja viðráðanlegt verð og húsnæðisöryggi eru til. Sömu sögu er að segja um fjölgun félagslegra íbúða í eigu borgarinnar. Þörf er á sáttmála til lengri tíma um að öll sveitarfélög axli ábyrgð í húsnæðismálum líkt og borgin hefur gert. Þar væri kveðið á um hlutfall félagslegra leiguíbúða, hlutfall óhagnaðardrifinnar uppbyggingar og samræmingu og hækkun á húsnæðisstuðningi þeirra sem hann þurfa. Fjármagn þyrfti að tryggja fyrir hverjum og einum lið líkt og í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þetta væri Húsnæðissáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið – eða Ísland allt.