GRUNNUR AÐ GÓÐU SAMFÉLAGI

Norðurþing rekur óhemju margar fasteignir sem hýsa margvíslega starfsemi sveitarfélagsins.

Reglubundnu viðhaldi á mörgum þessara fasteigna hefur verið ábótavant undanfarin ár og jafnvel áratugi en sem dæmi má nefna stjórnsýsluhúsin á Húsavík og Raufarhöfn, skólahúsnæði á Húsavík, Lundi og á Raufarhöfn, íþróttahöll á Húsavík, gervigrasvelli og sundlaug á Húsavík. Höfundur telur þó rétt að nefna að nýverið fengust samþykkt útskipti á þakjárni á stjórnsýsluhúsinu og klæðning á norðurhlið skólahúss á Raufarhöfn.

Með gagnsæi, vissu aðhaldi og eftirfylgni í rekstri undanfarin kjörtímabil hefur, með góðum árangri, tekist að lækka skuldaviðmið sveitarfélagsins úr 160% árið 2014 niður í 77% árið 2021. Á þeim tíma hefur nýbyggingum fjölgað og á kjörtímabilinu sem er að líða voru byggðar 60 nýjar íbúðir. Á kostnað nýframkvæmda hefur þó of lítið verið lagt í viðhald núverandi eigna að mati höfundar og því ærið verkefni verðandi kjörinna fulltrúa að koma eignum Norðurþings í stand á nýjan leik. S-listinn vill að fyrsta verk nýkjörinna fulltrúa verði að fara yfir núverandi viðhaldslista en til er nokkuð góð þarfagreining á viðhaldi og búið að kostnaðarmeta margt. Fulltrúar skuli þá forgangsraða eftir mikilvægi og mynda heildstæða stefnu utan um reglubundið viðhald og framkvæmdir í sveitarfélaginu. Þegar horft er til framtíðar þarf að huga að fjölnýtingu húsnæðis í samhengi við stærð sveitarfélagsins og þeirra mörgu hópa sem því er ætlað að þjónusta og fara varlega og vel undirbúin í frekari uppbyggingu á húsnæði. Um leið þurfi að endurhanna skólabyggingar sveitarfélagsins til framtíðar og taka mið af breyttum þörfum samfélagsins og væntanlegri fólksfjölgun. 

Segja má að viðhald bygginga tengist lýðheilsu þar sem vinnustaður fólks verður að vera bæði heilsusamlegur og aðgengilegur. Þó er ekki nóg að huga að byggingum í þessu samhengi og horfa verður til uppbyggingar göngu- og hjólastíga og því að gera gönguleiðir barna öruggar með upphækkuðum göngubrautum. Við hjá S-lista viljum sjá slíkar aðgerðir settar í forgang og efla skuli styrkjasókn hvað þetta varðar. Í því samhengi viljum við sérstaklega sjá göngustíg alla leið frá Sjóböðum, niður með Þorvaldsstaðará og að golfvellinum. 

Á næstu árum má búast við fólksfjölgun á Kópaskeri og möguleg uppbygging á Raufarhöfn einnig í farvatninu. Húsnæðisskortur er á Kópaskeri og því mikilvægt að úr því verði leyst, en einnig þarf að hugsa til framtíðar á Raufarhöfn og Kópaskeri er kemur að samgöngum innan þéttbýlis með lagfæringum gangstétta til að greiða aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda um þorpin.

Aðstaða frístundar grunnskólabarna á Húsavík hefur einnig mikið verið í umræðu undanfarin ár. Sem bráðabirgðalausn hefur frístund verið komið fyrir í samkomusal íþróttahallarinnar á Húsavík, en sú aðstaða er hvorki iðkendum né starfsfólki bjóðandi til lengri tíma. Þar fyrir utan er samkomusalur íþróttahallarinnar mikilvæg aðstaða ef halda á hvers kyns íþróttatengda viðburði innanhúss. Því er mikilvægt, þegar horfa á til framtíðar frístundar eða hvers kyns tómstunda að skoða fjölnýtingu húsnæðis til lengri tíma, áætla hvað getur farið saman og á kjörtímabillinu vera með uppbyggingarplan fyrir það næsta. Fjögur ár eru þó langur tími og því verður að skoða í þaula allar aðrar hugmyndir sem gætu nýst frístund í lengri eða skemmri tíma. 

Horfum til framtíðar, verum skynsöm og Samfó.

Höfundur er íþrótta- og heilsufræðingur og skipar 4. sæti á S-lista í Norðurþingi