Litlir hlutir í stóru samhengi
Akranes varð að Heilsueflandi Samfélagi árið 2019.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er styðja samfélagið á Akranesi í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa, þannig að sveitarfélagið verði sjálfbærara, skilvirkara og eftirsóknarverðara til búsetu. Áhersla er lögð á að bæta lífsgæði íbúanna þar sem andleg og líkamleg heilsa er í öndvegi og stuðlar þannig að ánægðari, hamingjusamari og heilsuhraustari íbúum.
Hvaða þættir hafa áhrif?
Heilsa og líðan geta verið breytileg eftir þáttum sem ekki er hægt að breyta, s.s. aldri, kyni og erfðafræðilegum þáttum en einnig þáttum sem hafa má áhrif á. Þar má nefna lifnaðarhætti á borð við áfengis- og tóbaksneyslu, mataræði og hreyfingu, samskipti við fjölskyldu og vini auk lífsskilyrða eins og menntun, atvinnu, húsnæði, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þessir þættir geta ýmist stuðlað að betri heilsu eða aukið líkur á sjúkdómum. Aðgerðir sem stuðla að bættu vinnuumhverfi og skólaumhverfi geta t.d. stuðlað að betri heilsu og líðan og dregið úr ójöfnuði.
Öll höfum við mismunandi sýn á þjónustu, úrræði og hvað það er sem gefur lífi okkar gildi. Við erum jafn ólík og við erum mörg og höfum mismunandi þarfir, búum við mismunandi fjölskylduaðstæður, fjármagn og sinnum ýmis konar áhugamálum.
Í Heilsueflandi samfélagi er heilsa og líðan allra íbúa í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum og allir geirar hafa hlutverk. Unnið er með áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðan s.s. félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, manngert og náttúrulegt umhverfi til að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum.
Hvaða litlu hlutir skipta okkur máli?
Við sameinumst í því að vilja hlúa að heilsunni. Því náum við fram á mismunandi vegu á mismunandi æviskeiði og þurfum mismikinn stuðning til.
Á meðan ein glöð Skaga-vístölufjölskylda gleðst yfir lengri opnunartíma Guðlaugar á góðum sólardegi þá bíður önnur fjölskylda eftir því að það komi góð lyfta og aðstaða til að geta farið öll saman í sund í sínum heimabæ.
Á meðan einn vaskur og virkur Skagamaður gleðst yfir því að bæta eigi hlaupa- og hjólastíga á Akranesi og í nærumhverfi þá fagnar ein aðeins eldri kona því að fá fjölbreyttari gönguleiðir í því að settir eru upp bekkir á gönguleiðum í hennar nærumhverfi sem gera henni kleift að auka sjálfstæði sitt, rjúfa félagslega einangrun og komast um og verða virkari í samfélaginu.
Aðgerðaáætlun fyrir heilsueflingu aldraðra
Í janúar 2021 skilaði starfshópur, skipaður af heilbrigðisráðherra, skýrslu með tillögum um fyrirkomulag samstarfsverkefna í heilsueflingu aldraðra með það að markmiði að gera öldruðum kleift að búa í heimahúsum eins lengi og kostur er. Sérstaklega var horft til samstarfs ríkis og sveitarfélaga og verkaskiptingar í málaflokknum sem lýtur að heilsueflingu aldraðra. Í skýrslu starfshópsins eru m.a. tillögur að samstarfi um heilsueflingu, hreyfingu og virkni og húsnæði og ytra umhverfi.
Velja þarf hagkvæmar leiðir til að halda áfram að viðhalda og bæta heilsu og færni fólks á öllum æviskeiðum. Ef vel tekst til við innleiðingu Heilsueflandi samfélags á Akranesi má vænta að andleg, líkamleg og félagsleg heilsa og vellíðan íbúa verði betri en annars, jöfnuður verði meiri sem og öryggi og lífsgæði almennt.
Sparnaður til framtíðar
Það eru litlu hlutirnir og forvarnirnar sem kosta minnst í stóra samhenginu en eru á sama tíma stórir þættir í lífi einstaklingsins þegar verið að tala um færni, virkni og þátttöku út ævina. Hugum að framtíðarsýn og framtíðarskipulagi en vinnum að bættum lífsgæðum strax! Það sparar til framtíðar og eykur á sama tíma lífsgæði.
Við í Samfylkingunni viljum halda áfram að bæta aðstæður allra til heilsueflingar og horfa á litlu hlutina í stóra samhenginu með því að:
- Bæta aðgengi í Bjarnalaug og huga að uppbyggingu útisvæðis til heilsuræktar
- Bæta aðgengi að Jaðarsbakkalaug
- Bæta aðgengi að fjörum
- Huga vel að hreyfi-og leiktækjum og grænum svæðum
- Hækka íþrótta-og tómstundaframlag og lækka aldursmörk
- Hreyfiávísun fyrir 18 ára og eldri
- Bæta hlaupa,-göngu og -hjólastíga
- Fjölga bekkjum á gönguleiðum
- Efla samstarf á milli Félags eldri borgara, íþróttastarfs og heilsueflandi samfélags fyrir eldri íbúa
Sönsum það saman-fyrir heilsuna.
XS – Að sjálfsögðu
Höfundur skipar fjórða sætið á lista Samfylkingarinnar á Akranesi: