Metuppbygging

Undir forystu Samfylkingarinnar hefur Reykjavíkurborg forgangsraðað velferð borgarbúa, þar er þjónusta við fatlað fólk stór partur.

Heiða Björg Hilmisdóttir Varaformaður Samfylkingarinnar

Við höfum innleitt meira notendasamráð við stuðningsþjónustu, fjölgað virknitækifærum, erum að fjölga NPA-samningum. Þjónustuteymi sem fara heim til fólks og aðstoða við það sem hver og einn þarf og vill hafa verið efld.

Frá 2011, þegar Reykjavíkurborg tók við málaflokki fatlaðs fólks frá ríkinu, hefur íbúum í húsnæði með þjónustu fyrir fatlað fólk fjölgað úr 219 í 489. Við settum okkur metnaðarfulla uppbyggingaráætlun 2018-2030 sem átti að tryggja öllum á biðlista og væntri fjölgun húsnæði. Stefnt var að byggingu og kaupum á 183 íbúðum fyrir fatlað fólk. Nú þegar hafa 170 einstaklingar fengið úthlutað húsnæði, þar af 55 í fyrra.

Þrátt fyrir þessa miklu uppbyggingu og að helmingur húsnæðis fyrir fatlað fólk á landinu sé í Reykjavík meðan hér býr um þriðjungur landsmanna hefur þetta ekki reynst nóg. Við höfum því kynnt nýja uppbyggingaráætlun fyrir velferðarráði. Nú bíða 136 einstaklingar eftir húsnæði við hæfi í Reykjavík, þar af eiga um 20% lögheimili utan Reykjavíkur. Aðstæður þessara einstaklinga eru mismunandi en allir hafa þeir þörf fyrir húsnæði og stuðning og það hefur Samfylkingin lagt áherslu á.

Á kjörtímabilinu höfum við opnað ellefu nýja íbúðakjarna og ráðið í um 450 stöðugildi til að sinna þessari mikilvægu þjónustu. Það væri fróðlegt að vita hvort þeir frambjóðendur sem tala mest um agalega fjölgun starfsfólks ætli sér að segja upp þessu fólki. Í nýrri skýrslu frá Stjórnarráðinu kemur fram að árið 2020 vörðu sveitarfélög um 6 milljörðum meira í þjónustu við fatlað fólk en þau fengu í tekjur til að sinna þessum íbúum sínum. Þessi halli hamlar mikilvægri framþróun þjónustu.

Samfylkingin í Reykjavík stendur með fötluðu fólki í baráttunni fyrir sjálfsagðri þjónustu og sjálfstæðu lífi. Það er mikilvægt að uppbygging sé um allt land svo fatlað fólk geti valið sér búsetu, rétt eins og við hin.