Af orkuskorti og orkuskiptum

Ýmsir hafa haldið því fram að hér á landi ríki orkuskortur sem bregðast þurfi við með meiri raforkuframleiðslu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Ekki ætla ég að gera lítið úr nauðsyn þess að framleiða endurnýjanlega orku til framtíðar en þau sem halda því fram að það eina sem dugi til að svara þörf orkuskiptanna sé meiri framleiðsla hér og nú ættu að staldra við og hugsa málið til enda.

Í okkar auðlindaríka landi eru í raun tveir orkumarkaðir: raforkumarkaður stórnotenda sem keppa á samkeppnismarkaði og gera leynilega langtímasamninga við íslenska raforkuframleiðendur og markaður almennra notenda – heimila og fyrirtækja. Seinni hópurinn kaupir u.þ.b. 18% af raforkunni, stórnotendur 78% og tæp 5% tapast í flutningskerfinu.

Í samræmi við ákvæði þriðja orkupakkans bera stjórnvöld sérstaka ábyrgð gagnvart almennum notendum og eiga að skilgreina þá ábyrgð sem alþjónustu (e. public service obligation) í lögum. Á þetta hefur Orkumálastjóri margoft bent í almennri umræðu en ekkert bólar á breytingum á raforkulögum sem tryggja raforkuöryggi almennra notenda.

Ég hef því ásamt þingflokki Samfylkingarinnar lagt fram tillögu um að ríkisstjórnin ráðist strax í nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum sem hafi það að markmiði að:

  1. Skilgreina alþjónustu með fullnægjandi hætti í raforkulögum.
  2. Skilgreina hlutverk allra aðila á raforkumarkaði við að tryggja raforkuöryggi.
  3. Tryggja raforkuöryggi til kaupenda á almennum orkumarkaði og kveða á um að þau skuli njóta forgangs ef til skömmtunar kemur vegna ónógs raforkuframboðs.
  4. Veita Orkustofnun lagaheimild til að grípa inn í á orkumarkaði svo að hægt sé að tryggja raforkuöryggi á almennum orkumarkaði.
  5. Forgangsraða raforkuframleiðslu til orkuskipta.

Samfylkingin telur brýnt að stefnumótun stjórnvalda og lagaumhverfi stuðli að innlendum orkuskiptum og að forgangsraðað verði í þágu orkuskipta. Einnig að skilgreining alþjónustu á orkumarkaði verndi almenna notendur fyrir sveiflum í orkuverði og tryggi orkuöryggi þeirra umfram aðra kaupendur. Veita þarf Orkustofnun heimild í lögum til að tilnefna aðila sem bera ábyrgð á raforkuöryggi heimila og fyrirtækja í landinu. Það er lykilatriði.

Ekkert í núverandi lagaumhverfi raforkunýtingar gerir stjórnvöldum kleift að stýra raforkuframleiðslu hér á landi þannig að hún nýtist beint til orkuskipta. Þannig hafa stjórnvöld ekki í höndunum nauðsynleg tæki til að framfylgja áætlunum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og uppfylla markmið Íslands í loftslagsmálum. Það er því langt frá því að vera öruggt að orka úr nýjum virkjanakostum renni til orkuskipta. Ef það er ekki gert eru digurbarkalegar yfirlýsingar um orkuskiptin lítið annað en orðin tóm.