Kapphlaupið um vindorkuna

Þórunn,  kraginn, banner,

Kapphlaup um virkjun vindsins er hafið á Íslandi. Hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar liggja rúmlega þrjátíu hugmyndir um vindorkukosti víðs vegar um land.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Á þessari stundu er óljóst hversu margir þeirra hljóta afgreiðslu eftir skoðun en það er nokkuð ljóst að vindmyllur verða hluti af orkulandslaginu á þessari öld.

Afgreiðsla þriðja áfanga áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða á Alþingi í sumar markaði tímamót að því leyti að þar var samþykkt að setja tvo vindorkukosti í nýtingarflokk: Blöndulund (100 MW) og Búrfellslund (120 MW). Þar er mikilvægt skref stigið í átt til þess að nýta fleiri náttúruauðlindir til raforkuframleiðslu hér á landi en vatnsafl og jarðvarma. En það sama gildir um virkjun vindorku og virkjun jarðvarma og vatnsafls. Það er ekki sama hvernig það er gert og heldur ekki hvar. Um það vitna viðbrögð fólks á Vesturlandi, t.d., við virkjanahugmyndum þar. Hér þarf að vanda til verka, því að öflun raforku með vindorku er hvorki óumdeild né án vandkvæða.

Samfylkingin telur miklu skipta að vindorkukostirnir tveir í nýtingarflokki séu á hendi Landsvirkjunar vegna þess að fyrirtækið er í ríkiseigu og greiðir arð af starfsemi sinni í ríkissjóð. Það er lykilatriði í þessu tilliti að fólkið í landinu njóti ávaxtanna af slíkri orkuvinnslu og því eðlilegt að fyrirtæki í ríkiseigu fari fremst í virkjun vindorku. Einnig liggur fyrir að samspil vatnsafls og vinds getur gert raforkuframleiðslu hagkvæmari og bætt afhendingaröryggi.

Samkvæmt hugmyndunum í 4. áfanga rammaáætlunar bíða einkaaðilar í röðum eftir því að geta virkjað íslenska rokið. Við það er í sjálfu sér ekkert að athuga en staðan setur stjórnmálunum skýrt og afar mikilvægt verkefni; að marka lagaumgjörð um orkuöflun einkaaðila með þeim hætti að auðlindarentan renni í sameiginlega sjóði en ekki í prívatvasa.  Þetta er forgangsmál sem jafnaðarmannaflokkur Íslands mun beita sér fyrir á Alþingi í vetur.

 

Útdráttur:

Öflun vindorku er hvorki óumdeild né án vandkvæða.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. júlí 2022.