Hag­sæld og vel­ferð

heiða, borgafulltrúi, varaformaður, velferð, flokksval, reykjavík

Helstu áskorunum samtímans verður ekki mætt án kröftugrar aðkomu sveitarfélaga. Þar get ég nefnt loftslagsmálin, baráttuna fyrir jöfnuði og jöfnum tækifærum fólks, jafnrétti kynjanna, farsæla móttöku flóttafólks og margt, margt fleira.

Heiða Björg Hilmisdóttir Borgarfulltrúi og formaður Velferðaráðs Reykjavíkurborgar

Sveitarfélögin móta líka umgjörð okkar daglega lífs, húsnæði, atvinnu, menntun og velferð allra íbúa. Þrátt fyrir að sveitarfélögin séu mörg og ólík þá liggja hagsmunir þeirra saman, enda eru verkefni þeirra þau sömu, að skapa gott samfélag þar sem fólk velur að búa, starfa og njóta lífsins saman. Mikilvægt er að tryggja gagnkvæma virðingu í samskiptum og samvinnu ríkis og sveitarfélaga því þessir aðilar þurfa að ná saman um skýra verka- og ábyrgðarskiptingu við veitingu opinberrar þjónustu. Nú þegar sveitarstjórnarmál, húsnæðismál, skipulagsmál, byggðamál og samgöngumál eru öll komin undir eitt ráðuneyti, innviðaráðuneyti, er tækifæri til að hugsa þessa hluti upp á nýtt.

Við viljum byggð um allt land, það er okkar sameiginlega mikilvæga verkefni. Þannig byggist upp samkeppnishæft lífsgæðaland til lengri tíma. Samgöngusáttmálinn var mikilvægt framfaraskref í þessum efnum og nýr rammasamningur um húsnæðisáætlun gefur okkur tækifæri til að semja um uppbyggingu húsnæðis í takt við þörf á hverjum stað. Hið sama þyrfti að gera í öðrum stórum málaflokkum þar sem ríki og sveitarfélög þurfa að leggjast á eitt, til að mynda við innleiðingu farsældarlaganna um þjónustu við börn, þjónustu við fatlaða í samræmi við skuldbindingar sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þjónustu við aldraða og fleira.

Þá er nauðsynlegt að semja um nýja tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna þannig að þau verði sjálfbær og fær um að byggja upp innviði og þá öflugu þjónustu sem við öll viljum að sé veitt. Góð fjárhagsleg staða ríkissjóðs samanborið við þá krefjandi stöðu sem mörg sveitarfélög standa nú frammi fyrir eftir þrengingar Covid-áranna, sýnir svo ekki verður um villst, að vitlaust er gefið. Það er allra hagur að úr því verði leyst sem fyrst enda eru sterkari sveitarfélög lykillinn að hagsæld og velferð um allt land.

Höfundur er borgarfulltrúi og varaformaður Sambands íslenskra ­sveitarfélaga.