Svikin við Afganistan

Þórunn,  kraginn, banner,
Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Fyrir réttu ári féll Afganistan aftur í hendur talibana og 20 ára veru NATO og stofnana Sameinuðu þjóðanna í landinu lauk. Forsetinn, Ashraf Ghani, flúði land og fullyrt er að hann hafi haft með sér illa fengin auðæfi. Afganski herinn veitti talibönum litla mótspyrnu og sóknin inn í Kabúl var hröð. Heimsbyggðin fylgdist með í forundran þegar talibanar stilltu sér upp til myndatöku í forsetahöllinni og eðlilega var spurt: Hvernig gat þetta gerst?

Bandaríkin réðust inn í Afganistan haustið 2001, með stuðningi bandamanna sinna, til þess að uppræta starfsemi hryðjuverkasamtakanna al-Kaída eftir árás þeirra á tvíburaturnana í New York og varnarmálaráðuneytið í höfuðborg Bandaríkjanna 11. september 2001. Aðgerðin fékk nafnið Operation Enduring Freedom. Leiðtogar al-Kaída höfðu fundið skjól hjá talibönum í Afganistan og reyndar víðar því að Osama bin Laden hugmyndafræðingur hryðjuverkaárásanna hafðist við í Pakistan þar til hann var ráðinn af dögum árið 2011.

En talibanar höfðu ekki gefist upp. 

Barack Obama fjölgaði í herliði Bandaríkjanna í Afganistan eftir að hann tók við embætti 2009 með það að markmiði að ráða niðurlögum talibana. Stríðinu lauk formlega árið 2014 og varð þar með lengsta stríð í sögu Bandaríkjanna. Ljóst var að Donald Trump vildi draga allt herlið Bandaríkjanna til baka og árið 2020 gerði hann samning við forystumenn talibana um að vorið 2020 hyrfi Bandaríkjaher á brott. Joe Biden tók við forsetaembætti í ársbyrjun 2021 og ákvað að standa við samninginn, þó þannig að fresta brottförinni um nokkra mánuði.

Viðskilnaðurinn var skelfilegur. Fall Kabúl minnti helst á fall Saigon árið 1975. Ástandið sem skapaðist við flugvöllinn í Kabúl gleymist seint. 

Rúmlega 60% Afgana er undir 25 ára aldri. Meiri hluti þeirra er fæddur eftir innrásina 2001 og hefur alist upp við loforð Vesturveldanna um frið, betri réttindi og lífsgæði. Ný kynslóð afganskra kvenna hefur hlotið menntun og fengið að starfa utan heimilis. Nú er staða þeirra ömurleg. Stúlkur eldri en 12 ára fá ekki að ganga í skóla og athafna- og ferðafrelsi kvenna er afar takmarkað. Hryllilegar frásagnir berast af barnabrúðkaupum og mansali. Hvert sem litið er blasir neyðin við. Helmingur Afgana hefur ekki hugmynd um hvaðan næsta máltíðin kemur og enn fleiri þurfa á mannúðaraðstoð að halda. 

Þegar á reyndi kom á daginn að alþjóðastofnanir höfðu í raun starfrækt afganska ríkið, lögregluna og herinn, sem féll eins og spilaborg í ágúst 2021. Bandaríkin höfðu á tveimur áratugum varið 2,3 trilljónum bandaríkjadollara í hernaðinn og uppbygginguna í Afganistan. Upphæð sem erfitt er að skilja og kannski ekki að furða að spurt sé um árangur.

Eftir stendur svikin þjóð í sárum.

Greinin birtist í Mgunblaðinu 25. ágúst 2022