Sigurvegarar og taparar í boði ríkisstjórnar Íslands

Við stöndum frammi fyrir hröðum viðsnúningi í hagstjórn vegna eignabólu á húsnæðismarkaði, stríðs í Evrópu og eftir aðgerðir í heimsfaraldri.

Ábyrgð ríkisstjórnarinnar í núverandi verðbólguástandi og vaxtahækkunarumhverfi er margþætt, en benda má sérstaklega á þrjá þætti:
Fyrir það fyrsta kynti ríkisstjórnin undir verðbólgunni á tímum heimsfaraldurs þegar ákveðið var að örva hagkerfið með óbeinum hætti í gegnum eignamarkaði í stað þess að ráðast hratt og örugglega í markvissar aðgerðir á hlið ríkisfjármálanna. Kreddufastar og úreltar hugmyndir um hlutverk ríkissjóðs komu okkur í þessa klemmu. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hikuðu við að beina fjármagni þangað sem þess var þörf og útvistuðu þess í stað björgunaraðgerðum til Seðlabankans. Aðgerðir sem þöndu eignamarkaði.
Í öðru lagi báru tveir af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar í fjármálum, seðlabankastjóri og fjármálaráðherra, út þann boðskap á síðustu árum að Ísland væri að stíga inn í nýtt og langvarandi lágvaxtatímabil. Fjármálaráðherra rak sína kosningabaráttu haustið 2021 á þeim skilaboðum að hagstjórnin undir hans handleiðslu hefði leitt af sér lágt vaxtastig, ekki að um tímabundna kreppuvexti væri að ræða. Núverandi staða er algjör forsendubrestur fyrir ungt fólk, lágtekjufólk og fjölskyldufólk sem tók ákvörðun um að skuldsetja sig mikið fyrir dýrri eign, í boði eignabólu ríkisstjórnarinnar, á forsendum lágra vaxta sem ráðamenn eignuðu sér í aðdraganda kosninga.
Í þriðja lagi hafa ytri aðstæður í heimsmálum skapað sigurvegara og tapara og varpað skýru ljósi á undirliggjandi vandamál í íslensku samfélagi. Íslenskt hagkerfi nýtur góðs af auðlindagrein, stórútgerðinni, sem hefur hagnast verulega undanfarna mánuði vegna snarhækkandi heimsmarkaðsverðs á sjávarafurðum í kjölfar stríðs og aðfangatruflana eftir heimfaraldur. Orkukrísan og hækkandi álverð hefur einnig skilað mikilli arðsemi til Landsvirkjunar. En munurinn er sá að þjóðin fær hlut sinn óskertan af arðsemi orkunnar í gegnum Landsvirkjun. Um það er ekki að ræða í sjávarútvegi. Á sama tíma eru heimili hér á landi í stöðu tapara: mörg hver hafa séð kaupmátt sinn rýrna vegna hækkandi húsnæðisgreiðslubyrði og hækkunar á nauðsynjavörum.
Fókus á pólitískt umboð, ekki ókjörna embættismenn
Enginn vilji er aftur á móti hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar til að dreifa ábatanum og dempa efnahagshöggið, en slíkt gerist ekki sjálfkrafa í núverandi umhverfi. Slíkar aðgerðir krefjast auðvitað skýrrar pólitískrar sýnar um sanngjarnt velferðarsamfélag. Landinu er aftur á móti stýrt úr fjármálaráðuneytinu þar sem hlutverk ríkisins hefur verið endurskilgreint frá því að vera aflvaki samstöðu og samábyrgðar, og því að styðja við borgarana, í að draga úr bolmagni grunnþjónustunnar, lækka skatta og hvetja til hólfaskiptingar í samfélaginu.
Seðlabanki Íslands vill dempa eignabóluna í landinu með vaxtatólinu, en sú aðgerð er almenn og gerir ekki greinarmun á stöðu fólks. Skiptar skoðanir eru um áherslur í peningamálastjórn víða um heim þessa dagana. En í lok dags er Seðlabankinn með það lögbundna hlutverk að stuðla að verðstöðugleika. Við búum því miður við samfélagsgerð þar sem ókjörnir embættismenn í Seðlabankanum geta haft gífurleg áhrif á jöfnuð með aðgerðum sínum í þágu verðstöðugleika, en hafa ekki umboð til að vinna á móti þeim hliðaráhrifum. Það eitt og sér er efni í mikla umræðu. En í núverandi ástandi þarf að horfa til þess hvar getan, ábyrgðin og umboðið liggur.
Alþingi hefur vald sem Seðlabankinn hefur ekki; til að dreifa byrðunum af vaxtahækkunum með sanngjörnum hætti um samfélagið. Ríkisstjórninni ber beinlínis skylda til þess miðað við fyrrgreinda og þríþætta ábyrgð hennar á stöðunni: aðkomu hennar að eignabólu, eftir óábyrgar og hápólitískar hagstjórnaryfirlýsingar ráðamanna um vaxtastigið og vegna sögulegs viljaleysis um að breyta samfélagsgerð sem skapar sigurvegara og tapara.
Á þá skyldu og ábyrgð á fókusinn að vera í þingsal Alþingis þessa dagana. Ekki aðgerðir ókjörinna embættismanna í Seðlabankanum. Samfylkingin hefur nú þegar lagt fram þingmál um samstöðuaðgerðir vegna vaxtahækkana og verðbólgu sem snúa að því að dreifa ábatanum og högginu af núverandi efnahagsástandi með sanngjörnum hætti um samfélagið: með hvalrekasköttum á fjármagn og stórútgerð sem eyrnamerkja á í vaxtabætur og barnabætur og með tillögu um leigubremsu á meðan verðhækkunarkúfurinn gengur yfir.
Það er ekki hægt að fría forystumenn ríkisstjórnarinnar ábyrgð á stöðunni. Valdið sem og aðgerðaleysið í núverandi ástandi er þeirra.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. sept. 2022.