„Samfylking fordæmir atlögu gegn samtökum og sjóðum launafólks“
Stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar 2022. Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður Samfylkingarinnar kynnti ályktunina og var hún samþykkt með miklu lófataki.
Stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar 2022:
Ný forysta með umboð til breytinga
Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands lítur á það sem höfuðverkefni næstu ára að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi eftir áratug hnignunar. Kjarnamál jafnaðarstefnunnar kalla á alla okkar athygli nú sem aldrei fyrr: húsnæðisöryggi, heilbrigðisþjónusta, almannatryggingar, samgöngur og önnur málefni sem snerta lífskjör og daglegt líf fólks. Samfylkingin var ekki stofnuð til að vera í stjórnarandstöðu heldur til að vera forystuafl í íslenskum stjórnmálum. Nú gengur í hönd tími breytinga í flokknum undir nýrri forystu. Stóra verkefnið er að endurheimta traust til að stjórna landinu.
Samfylkingin fordæmir atlögu að samtökum og sjóðum launafólks
Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands fordæmir atlögu ráðherra og stjórnarþingmanna að samtökum og sjóðum launafólks.
Atlagan birtist nú í lagafrumvarpi til höfuðs stéttarfélögum og í stefnu um að seilast í lífeyrissparnað launafólks til að borga skuldir ÍL-sjóðs. Það er óábyrg stefna.
Ríkissjóður á að jafna byrðar fólks. Það er ekki gert með því að taka 200 milljarða króna af sparnaði tiltekinna hópa launafólks til að borga fyrir afglöp óreiðustjórnmálamanna úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.
Samfylkingin kallar eftir því að ríkisstjórnin sýni ábyrgð í málinu og leiði það til lykta með samstöðu og jafnaðarmennsku að leiðarljósi.
Samfylkingin hafnar lagafrumvarpi um bann við forgangsréttarákvæðum í kjarasamningum og afnám greiðsluskyldu til stéttarfélaga. Í því felst hótun um að kippa fótunum undan sterkri verkalýðshreyfingu á Íslandi. Þannig er vegið að viðkvæmri sátt sem ríkt hefur á íslenskum vinnumarkaði um árabil. Samfylkingin kallar eftir víðtækri samstöðu um að viðhalda sterkri verkalýðshreyfingu í landinu.
Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands vill setja réttlæti í öndvegi og að almannahagsmunir ráði för. Sérhagsmunagæsla og klíkustjórnmál eiga að vera arfleifð fortíðar.