Plástur á bilað kerfi

Jóhann, jói

Velferðarþjóðfélag byggir á félagslegum réttindum, ekki á jólabónusum og glaðningum eftir geðþótta stjórnmálamanna.

Jói, Jóhann Páll, þingflokkur
Jóhann Páll Jóhannsson Alþingismaður

Þess vegna er umhugsunarvert að nú sé annað árið í röð deilt um sérstaka eingreiðslu á Alþingi til öryrkja og tekjulágs fólks sem reiðir sig á almannatryggingar.

Allir flokkar viðurkenna mikilvægi þess að eingreiðsla af þessu tagi sé veitt. Hins vegar er tekist á um hversu há hún þurfi að vera og hvort það sé boðlegt að lækka fjárhæðina um helming eins og ríkisstjórnin leggur til í sínum fjárlögum.

En hvað segir þessi umræða okkur um ástandið á almannatryggingakerfinu okkar og afkomu fólksins sem reiðir sig á það?

Kjaragliðnun og skerðingarfrumskógur

Krafan um eingreiðsluna var sett fram í fyrra og aftur nú vegna þess að almannatryggingakerfið á Íslandi stenst ekki þær kröfur sem við hljótum að gera í velferðarþjóðfélagi á 21. öld. Eða hvernig er hægt að réttlæta það að óskertur lífeyrir manneskju sem fær örorkumat 40 ára er aðeins rúmlega 300 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt? Það er óverjandi og þetta vita þingmenn allra flokka.

Á meðan ríkisstjórnin stendur vörð um óbreytt örorkulífeyriskerfi með því að slá grundvallarbreytingum og kjarabótum fyrir öryrkja á frest þarf að plásta kerfið með eingreiðslum, þótt ekki væri nema til að friða samvisku fólksins sem heldur um valdataumana. Ef fólk með skerta starfsgetu hefði það nógu gott þá þyrfti enga eingreiðslu. Þannig felur eingreiðslan i í sér viðurkenningu á því að kerfið er bilað.

Öryrkjar sitja fastir í skerðingarfrumskógi og kjör þeirra hafa dregist jafnt og þétt aftur úr kjörum á almennum vinnumarkaði þvert á ákvæði 69. gr. almannatryggingalaga um að ákvörðun þessara greiðslna skuli fylgja launaþróun.

Kerfið bregst eftirlaunafólki

Tekjulægri eldri borgarar hafa líka fengið að kenna illa á þessari kjaragliðnun. Þriðjungur eftirlaunafólks er með lægri mánaðartekjur en nemur lágmarkstekjum á vinnumarkaði og þetta hlutfall hefur hækkað jafnt og þétt á vakt ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Ójöfnuður meðal eldri borgara á Íslandi en meiri en meðal almennings almennt þegar þessu er öfugt farið víðast hvar í Evrópu, meðal annars í nágrannalöndum okkar eins og Noregi, Danmörku og Finnlandi. Þá benda alþjóðlegar mælingar til þess að talsvert hærra hlutfall eldra fólks á Íslandi eigi erfitt með að ná endum saman heldur en í nágrannaríkjum.

Skarpar tekjuskerðingar gagnvart eftirlaunafólki eru uppspretta gríðarlegrar óánægju. Almenna frítekjumarkið sem tekur til lífeyrissjóðstekna er aðeins 25 þúsund krónur og allar lífeyrissjóðstekjur umfram þá fjárhæð koma til skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Nú er miðgildi lífeyrissjóðstekna hjá eldri konum 150 þúsund krónur á mánuði. Af slíkum lífeyrisréttindum situr aðeins þriðjungur eftir í hverjum mánuði sem auknar ráðstöfunartekjur en 100 þúsund krónur renna til ríkisins vegna skatta og skerðinga. Jaðarskattbyrðin af þessum viðbótartekjum sem koma til vegna sjóðasöfnunar er þannig 67 prósent. Þessi ofurskattlagning stríðir gegn réttlætiskennd fólks og grefur undan sátt og samstöðu um almannatryggingakerfið.

Eftirlaunafólk situr þannig fast í skerðingarkerfi sem er gjörólíkt því sem þekkist í velferðarríkjum sem við erum vön að bera okkur saman við. Þannig bregst almannatryggingakerfið ekki aðeins öryrkjum heldur líka stórum hluta eldra fólks, bæði vegna þess að greiðslurnar eru of lágar og vegna þess að skerðingar bíta alltof neðarlega í tekjustiganum.

3.500 kr. í mínus

Æ fleiri öryrkjar reiða sig á matargjafir og leita til umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsvanda, og skyldi engan undra þegar óskertur örorkulífeyrir er tugþúsundum lægri en lágmarkslaun í landinu. Samkvæmt gögnum frá umboðsmanni er meðalgreiðslugeta þeirra öryrkja sem leita til stofnunarinnar minni en engin, 3.500 kr. í mínus eftir að greitt hefur verið fyrir mat, húsnæði og aðrar nauðsynjar. Verðbólgan bitnar nú sérstaklega fast á þessum hópi. Engu að síður vill fjármálaráðherra skerða eingreiðsluna sem verður veitt í desember um helming og réttlætir það með vísan til hækkunar greiðslna almannatrygginga síðasta sumar, hækkunar sem hefur nú þegar brunnið upp á verðbólgubálinu.

Við jafnaðarmenn á Alþingi munum gera það sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þessa lækkun á eingreiðslunni og tryggja að fjárhæðin verði ekki aðeins óbreytt heldur haldi verðgildi sínu. En munum að svona á velferðarþjóðfélag ekki að virka. Það er skylda Alþingismanna að standa vörð um félagsleg réttindi fólks og mannsæmandi framfærslu alla mánuði ársins og sameinast um gott almannatryggingakerfi sem við getum öll verið stolt af. Stjórnmálamenn sem þvælast fyrir þessu verkefni, biðja fátækt fólk náðarsamlegast að bíða eftir réttlæti og neita því um nauðsynlegar kjarabætur með óljósum fyrirheitum um „heildarendurskoðun“ einhvern tímann í fjarlægri framtíð, ættu að hugsa sinn gang.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. nóvember 2022.