Var 1,5°C markmiðinu fórnað við Rauðahafið?

Hraður og öruggur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda með það að markmiði að hætta notkun jarðefnaeldsneytis er mikilvægasta verkefni 21. aldarinnar.

Allt annað bliknar í samanburði. Fyrir liggur að án tafarlausra aðgerða er útilokað að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C ef miðað er við fyrstu iðnbyltinguna. Í ljósi þessara staðreynda var Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ómyrkur í máli við upphaf COP27 í Egyptalandi.
En niðurstaða 27. fundar aðildarríkja loftslagssamningsins í Sharm El Sheikh í Egyptalandi gefur ekki tilefni til aukinnar bjartsýni um að markmiðið um 1,5°C náist. Með jákvæðum huga má segja að náðst hafi „varnarsigur“ sem felst í því að ekki tókst að útvatna árangurinn sem náðist á COP26 í Glasgow í fyrra.
Hamfarahlýnun er „stærsta vandamálið sem stigmagnar öll önnur vandamál,“ var haft eftir Tinnu Hallgrímsdóttur sem fór fyrir öflugri sendinefnd Ungra umhverfissinna í Sharm el Sheikh. Það er kjarni málsins. Ef ríki heims ná ekki tökum á hlýnuninni í síðasta lagi árið 2030 er voðinn vís og önnur úrlausnarefni, svo sem afnám fátæktar og jafnrétti kynjanna, munu verða mun erfiðari viðfangs. Hætt er við að þeir fólksflutningar sem eiga sér stað í heiminum í dag verði aðeins upptaktur að langvarandi og vaxandi fólksstraumi frá suðri til norðurs.
Hænufet var stigið fram á við með samkomulagi um loftslagsbótasjóð sem kenndur er við tap og tjón. Sjóðnum er ætlað að bæta löndum tjón sem verður vegna afleiðinga hamfarahlýnunar sem nú þegar eiga sér stað. Höfum samt í huga að sjóðurinn er enn aðeins texti á blaði og samningar um útfærslu hans, upphæðir og hverjir eigi að greiða til hans eru eftir.
Pakistan var í forystu G77-hópsins á ráðstefnunni í Egyptalandi en það er samstarfshópur fátækra ríkja. Eins og flestir muna lá þriðjungur Pakistans undir vatni í sumar í kjölfar hamfaraflóða sem rekja má til loftslagsbreytinga. Það hafði merkjanleg áhrif á umræðuna og samkomulagið um loftslagsbótasjóðinn. Evrópuríkin horfast einnig í augu við að 20 þúsund manns létust í hitabylgjum sumarsins. Alls staðar má sjá merki hlýnunarinnar í náttúrunni. Aurskriðurnar á Seyðisfirði eru nærtækt íslenskt dæmi.
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, benti á í viðtali við Morgunblaðið að fyrir utan þá augljósu staðreynd að hætta þurfi bruna jarðefnaeldsneytis þá þurfi líka að stemma stigu við óhóflegri neyslu og framleiðslu og ósjálfbærri landnotkun. Það á ekki síður við hér á landi en annars staðar. Ísland hefur alla burði til að vera forysturíki í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Við höfum það sem til þarf og erum í öfundsverðri stöðu meðal þjóða en við verðum að axla ábyrgð á 1,5°C í samræmi við það.
Þórunn Sveinbjarnardóttir er fv. umhverfisráðherra og situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2022.