Var 1,5°C markmiðinu fórnað við Rauðahafið?

Þórunn,  kraginn, banner,

Hraður og ör­ugg­ur sam­drátt­ur í los­un gróður­húsaloft­teg­unda með það að mark­miði að hætta notk­un jarðefna­eldsneyt­is er mik­il­væg­asta verk­efni 21. ald­ar­inn­ar.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Allt annað blikn­ar í sam­an­b­urði. Fyr­ir ligg­ur að án taf­ar­lausra aðgerða er úti­lokað að halda hlýn­un jarðar inn­an við 1,5°C ef miðað er við fyrstu iðnbylt­ing­una. Í ljósi þess­ara staðreynda var Ant­onio Guter­res, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, ómyrk­ur í máli við upp­haf COP27 í Egyptalandi.

En niðurstaða 27. fund­ar aðild­ar­ríkja lofts­lags­samn­ings­ins í Sharm El Sheikh í Egyptalandi gef­ur ekki til­efni til auk­inn­ar bjart­sýni um að mark­miðið um 1,5°C ná­ist. Með já­kvæðum huga má segja að náðst hafi „varn­ar­sig­ur“ sem felst í því að ekki tókst að út­vatna ár­ang­ur­inn sem náðist á COP26 í Glasgow í fyrra.

Ham­fara­hlýn­un er „stærsta vanda­málið sem stig­magn­ar öll önn­ur vanda­mál,“ var haft eft­ir Tinnu Hall­gríms­dótt­ur sem fór fyr­ir öfl­ugri sendi­nefnd Ungra um­hverf­issinna í Sharm el Sheikh. Það er kjarni máls­ins. Ef ríki heims ná ekki tök­um á hlýn­un­inni í síðasta lagi árið 2030 er voðinn vís og önn­ur úr­lausn­ar­efni, svo sem af­nám fá­tækt­ar og jafn­rétti kynj­anna, munu verða mun erfiðari viðfangs. Hætt er við að þeir fólks­flutn­ing­ar sem eiga sér stað í heim­in­um í dag verði aðeins upp­takt­ur að langvar­andi og vax­andi fólks­straumi frá suðri til norðurs.

Hænu­fet var stigið fram á við með sam­komu­lagi um lofts­lags­bóta­sjóð sem kennd­ur er við tap og tjón. Sjóðnum er ætlað að bæta lönd­um tjón sem verður vegna af­leiðinga ham­fara­hlýn­un­ar sem nú þegar eiga sér stað. Höf­um samt í huga að sjóður­inn er enn aðeins texti á blaði og samn­ing­ar um út­færslu hans, upp­hæðir og hverj­ir eigi að greiða til hans eru eft­ir.

Pak­ist­an var í for­ystu G77-hóps­ins á ráðstefn­unni í Egyptalandi en það er sam­starfs­hóp­ur fá­tækra ríkja. Eins og flest­ir muna lá þriðjung­ur Pak­ist­ans und­ir vatni í sum­ar í kjöl­far ham­fara­flóða sem rekja má til lofts­lags­breyt­inga. Það hafði merkj­an­leg áhrif á umræðuna og sam­komu­lagið um lofts­lags­bóta­sjóðinn. Evr­ópu­rík­in horf­ast einnig í augu við að 20 þúsund manns lét­ust í hita­bylgj­um sum­ars­ins. Alls staðar má sjá merki hlýn­un­ar­inn­ar í nátt­úr­unni. Aur­skriðurn­ar á Seyðis­firði eru nær­tækt ís­lenskt dæmi.

Auður Önnu Magnús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Land­vernd­ar, benti á í viðtali við Morg­un­blaðið að fyr­ir utan þá aug­ljósu staðreynd að hætta þurfi bruna jarðefna­eldsneyt­is þá þurfi líka að stemma stigu við óhóf­legri neyslu og fram­leiðslu og ósjálf­bærri land­notk­un. Það á ekki síður við hér á landi en ann­ars staðar. Ísland hef­ur alla burði til að vera for­ystu­ríki í bar­átt­unni gegn ham­fara­hlýn­un. Við höf­um það sem til þarf og erum í öf­undsverðri stöðu meðal þjóða en við verðum að axla ábyrgð á 1,5°C í sam­ræmi við það.

Þórunn Sveinbjarnardóttir er fv. umhverfisráðherra og situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2022.