Mannúðin hunsuð

Helga Vala fréttabanner

Senn líður að lokum haustþings og meðal verkefna er að ljúka umfjöllun um breytingar á útlendingalögum.

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Frumvarp dómsmálaráðherra var kynnt sem lausn á neyðarástandi sem skapast hefði vegna fjölda fólks á flótta.

Svo er hins vegar ekki.

Í fyrsta lagi hefur verið bent á að efast megi um að ákvæði frumvarpsins standist mannréttindaákvæði stjórnarskrár og að engin tilraun hafi verið gerð til að ganga úr skugga um það við samningu frumvarpsins.

Þá er frumvarpinu ætlað að mynda sterkan fælingarkraft frá landinu, en það hefur hins vegar láðst að huga að því að það er fordæmalaus fjöldi fólks á flótta í heiminum vegna stríðs Rússa í Úkraínu, en einmitt sá fjölmenni hópur flóttafólks er vegna aðgerða stjórnvalda  velkominn til Íslands. Frumvarpið nær hvorki til þeirra né heldur til næstfjölmennasta hópsins, flóttafólks frá  Venesúela, hvar vargöld ríkir og Flóttamannastofnun Sameinuðu skorar á ríki heims að veita fólki á flótta þaðan vernd.

Frumvarpið leggur hins vegar til að þeir umsækjendur sem komnir eru  með endanlega synjun á umsókn sinni á stjórnsýslustigi missi húsaskjól og heilbrigðisþjónustu að 30 dögum liðnum hafi ekki tekist að brottvísa þeim.

Nánast allir umsagnaraðilar hafa lagt til að fallið verði frá þessari fyrirætlan enda leysir þetta engan vanda. Þetta færir til vanda milli stjórnsýslukerfa en leysir ekkert. Ekkert Norðurlandanna fer þessa leið enda vitað að með því að fella niður alla þjónustu þá færist vandinn yfir á sveitarfélögin, löggæsluna, heilbrigðiskerfið og réttarvörslukerfið. Einstaklingarnir hverfa ekki því þau hafa engan stað til að hverfa til og enda því á götunni.

Dómsmálaráðherra leggur einnig til að í stað þess að afgreiða umsóknir um vernd þá sendum við einstaklinga bara til einhvers ríkis utan Evrópu sem umsækjandi telst hafa einhver tengsl við, óháð því hvort einstaklingurinn hafi þar einhvern rétt til dvalar. Hvernig ráðherra ætlar að framkvæma þetta er óljóst. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur m.a. bent á að þetta sé ekki framkvæmanlegt því viðkomandi ríki sé ekki, frekar en Ísland, öllum opið. Þannig kæmust t.d. Bandaríkin ekki upp með að senda einstakling, sem sótt hefði þar um vernd, til Íslands á þeim forsendum að hann hefði hér óljósar tengingar, svo sem systkini eða fyrri dvöl til skemmri tíma. Engir samningar um móttöku fólks eru fyrir hendi meðal annarra ríkja um móttöku annarra en ríkisborgara og meira að segja hafna sum ríki móttöku á eigin ríkisborgurum ef þeir hafa yfirgefið ríkið í óþökk stjórnvalda.

Frumvarpið er með öðrum orðum stórlega gallað og að hluta óframkvæmanlegt. En það verður samt afgreitt sem lög af þingmönnum stjórnarflokkanna en „neyðarástandið“ helst óbreytt og mannúðin hunsuð. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. desember 2022.