Gagns­laus jafn­launa­vottun

Þórunn,  kraginn, banner,

Nýr jafnlaunastaðall var lögfestur með lúðrablæstri fyrir fimm árum og fullyrt að hér væri loks komið verkfæri sem gæti útrýmt launamun kynjanna.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Ekki var hlustað á efasemdaraddir eða réttmætar athugasemdir um takmarkanir þessa verkfæris. Nýbirtar niðurstöður rannsóknar þriggja fræðikvenna við Háskóla Íslands í Stjórnmálum & stjórnsýslu varpa skýru ljósi á það, sem alltaf var vitað, að innleiðing jafnlaunavottunar tekur ekki á undirliggjandi vanda á kynskiptum vinnumarkaði.

Jafnlaunastaðallinn hefur ekki haft bein áhrif á launamun kynjanna og getur mögulega fest í sessi rök fyrir ólíku virðismati hefðbundinna karla- og kvennastarfa. Með öðrum orðum, staðallinn ryður ekki kerfislægum hindrunum á vinnumarkaði úr vegi.

Fjöldi stofnana og fyrirtækja innleiðir margs konar staðla í starfsemi sína, m.a. til að tryggja öryggi og gæði framleiðslu og þjónustu. Slík innleiðing er sjálfviljug, aldrei bundin í lög og eðlilegur hluti af gæðastarfi. Í þessu ljósi var lögfesting á innleiðingu jafnlaunastaðals frá upphafi umdeilanleg. Vel má vera að jafnlaunavottun kveiki vitund stjórnenda um virði starfa og mismunandi launasetningu starfa en það er ekki nóg, því að viðmið staðalsins eru huglæg og handahófskennd og því ekki samanburðarhæf á milli stofnana og fyrirtækja. Það er stærsti galli staðalsins og sést til dæmis á því að starfaflokkun og launagreining er ekki samræmd. Annað atriði sem ber að nefna er að lítið sem ekkert eftirlit er með því hvernig innleiðingin er vottuð af þar til gerðum aðilum. Íslensk fyrirtæki og stofnanir sem lögin ná yfir hafa varið háum fjárhæðum og dýrmætum tíma í innleiðingu og vottun jafnlaunastaðalsins á undanförnum árum, staðals sem breytir litlu sem engu þegar kemur að stærstu viðfangsefnunum á vinnumarkaði: kynskiptingu hans og lágu virðismati hefðbundinna kvennastarfa. Niðurstaða rannsóknarinnar gefur tilefni til að horfast í augu við mistökin sem gerð hafa verið og setja kraftana í raunverulegar umbætur á vinnumarkaði.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. janúar 2023.