Tafir í Nýja Skerjó

hjálmar, flokksval, reykjavík
Hjálmar Sveinsson Borgarfulltrúi

685 fjöl­skyldur bíða eftir því að flytja í Nýja Skerjó. Deili­skipu­lag byggðarinnar hefur hlotið lof er­lendis og hér heima. Gert er ráð fyrir grænu neti opinna svæða og skemmti­legum göngu­leiðum í gegnum hverfið. Á­hersla er lögð á for­gang gangandi og hjólandi, hæga bíla­um­ferð og öflugar tengingar við al­mennings­sam­göngur.

Upp­bygging Nýja Skerjó hefur nú verið tafin í 7 mánuði. Full­yrt hefur verið að rekstra­r­öryggi flug­vallarins skerðist verði af upp­byggingunni. En sam­kvæmt rann­sóknum verk­fræði­stofunnar EFLU er það ekki raunin. Bornar voru brigður á þær niður­stöður og því fékk Isavia hollensku flug- og geim­ferða­stofnunina (NRL) til að skoða þetta nánar. Niður­staðan er sú sama. Vandi vegna vinda­fars á flug­vellinum er við­ráðan­legur.

Ekki eru mál­efna­legar á­stæður til að fresta upp­byggingunni (e. „Howe­ver, it is conclu­ded that the i­dentifi­ed risk is mana­gea­ble and should not block the de­velop­ment of the Nýi-Skerja­fjörður resi­denti­al area.“) Málið er á borði inn­viða­ráð­herra og er búið að vera þar allt of lengi.

Skipu­lag Nýja Skerjó byggir á sam­komu­lagi við ríkið frá 2013 sem gerir ráð fyrir að borgin fái af­sal og ó­skoraðan yfir­ráða­rétt yfir landinu. Í sam­komu­laginu stendur að Reykja­víkur­borg kapp­kosti að „skipu­lag verði vandað og að nýting landsins verði góð. Svæðið verður að megin­stefnu til skipu­lagt sem í­búðar­byggð“. Borgin þurfti, undir for­ystu borgar­stjóra, að draga ríkið bæði fyrir héraðs­dóm og Hæsta­rétt til að fá það til að standa við sam­komu­lagið. Það er ein­stakt í sögunni.

Reykja­víkur­borg hefur skrifað undir sam­komu­lag um vil­yrði til lóða­út­hlutunar í Nýja Skerjó til Bjargs í­búða­fé­lags verka­lýðs­hreyfingarinnar, Fé­lags­stofnunar stúdenta og HOOS1, fé­lags stofnaðs til að byggja hag­kvæmt hús­næði. Þessi á­hersla á fé­lags­lega hús­næðis­upp­byggingu, í bland við upp­byggingu á al­mennum markaði, er í sam­ræmi við gildandi hús­næðis­stefnu ríkis og borgar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5.janúar 2023.