Tafir í Nýja Skerjó


685 fjölskyldur bíða eftir því að flytja í Nýja Skerjó. Deiliskipulag byggðarinnar hefur hlotið lof erlendis og hér heima. Gert er ráð fyrir grænu neti opinna svæða og skemmtilegum gönguleiðum í gegnum hverfið. Áhersla er lögð á forgang gangandi og hjólandi, hæga bílaumferð og öflugar tengingar við almenningssamgöngur.
Uppbygging Nýja Skerjó hefur nú verið tafin í 7 mánuði. Fullyrt hefur verið að rekstraröryggi flugvallarins skerðist verði af uppbyggingunni. En samkvæmt rannsóknum verkfræðistofunnar EFLU er það ekki raunin. Bornar voru brigður á þær niðurstöður og því fékk Isavia hollensku flug- og geimferðastofnunina (NRL) til að skoða þetta nánar. Niðurstaðan er sú sama. Vandi vegna vindafars á flugvellinum er viðráðanlegur.
Ekki eru málefnalegar ástæður til að fresta uppbyggingunni (e. „However, it is concluded that the identified risk is manageable and should not block the development of the Nýi-Skerjafjörður residential area.“) Málið er á borði innviðaráðherra og er búið að vera þar allt of lengi.
Skipulag Nýja Skerjó byggir á samkomulagi við ríkið frá 2013 sem gerir ráð fyrir að borgin fái afsal og óskoraðan yfirráðarétt yfir landinu. Í samkomulaginu stendur að Reykjavíkurborg kappkosti að „skipulag verði vandað og að nýting landsins verði góð. Svæðið verður að meginstefnu til skipulagt sem íbúðarbyggð“. Borgin þurfti, undir forystu borgarstjóra, að draga ríkið bæði fyrir héraðsdóm og Hæstarétt til að fá það til að standa við samkomulagið. Það er einstakt í sögunni.
Reykjavíkurborg hefur skrifað undir samkomulag um vilyrði til lóðaúthlutunar í Nýja Skerjó til Bjargs íbúðafélags verkalýðshreyfingarinnar, Félagsstofnunar stúdenta og HOOS1, félags stofnaðs til að byggja hagkvæmt húsnæði. Þessi áhersla á félagslega húsnæðisuppbyggingu, í bland við uppbyggingu á almennum markaði, er í samræmi við gildandi húsnæðisstefnu ríkis og borgar.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 5.janúar 2023.