Stjórn án ábyrgðar

Verðbólgan er aftur á uppleið. Vextir hækka í kjölfarið eins og við vitum.

Hvað er til ráða? Hefur ríkisstjórnin einhverja stjórn á þróun efnahagsmála? Og ber hún þá einhverja ábyrgð í baráttunni við verðbólguna – eða er ríkisstjórnin eins og hver annar áhorfandi í efnahagslífi þjóðarinnar?
Þetta ræddum við á Alþingi í vikunni. Forsætisráðherra benti á Seðlabankann og vísaði ábyrgðinni á baráttunni við verðbólguna þangað. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar benti á fólkið í landinu og sagði að almenningur væri því miður að „eyða of miklu“.
Hvers konar forystuleysi er þetta? Þau tala eins áhorfendur án ábyrgðar en ekki eins og stjórnendur. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin er á harðahlaupum undan eigin ábyrgð á stjórn efnahagsmála. Það dugar ekki að lýsa áhyggjum af stöðunni. Nú þurfum við ríkisstjórn sem lýsir áætlun út úr stöðunni.
Ríkisstjórnin hefur ekkert plan
Eða hvert er planið? Það er ekkert plan. Ríkisstjórnin hefur ekki sett fram neina stefnu eða neitt plan um það hvernig á að taka á vaxandi verðbólgu. Stefnuleysið er algjört og árangurinn eftir því.
Við getum rifjað upp það sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar sögðu við kynningu fjárlaga síðasta haust. Það var sagt að fjárlögin myndu vinna gegn verðbólgu. En hvaða aðgerðir var ráðist í? Jú, framlög til stjórnmálaflokka voru lækkuð lítillega og skilagjald á einnota drykkjarumbúðum var fryst, eins og frægt varð. Þetta hefur auðvitað engin áhrif í þjóðhagslegu samhengi. Mikilvægum fjárfestingum var frestað og loks voru öll krónutölugjöld ríkisins skrúfuð algjörlega upp í topp.
Þetta síðastnefnda er einmitt aðalástæða þess að verðbólgan er núna aftur á uppleið.
Hallinn á rekstri ríkissjóðs var 90 milljarðar þegar fjárlögin voru kynnt í haust en var kominn upp í 120 milljarða fyrir jól. Í hvaða veruleika kallast þetta að vinna gegn verðbólgu? Þessar aðgerðir eru ekki hluti af neinni stefnu eða áætlun. Þetta er bara eitthvað dinglumdangl – handahófskenndar aðgerðir hingað og þangað. Enda kom á daginn að þær hafa ekki skilað neinum árangri.
Nú hefur verkalýðshreyfingin lagt sitt af mörkum með hóflegum launahækkunum í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. En fólkið í landinu hlýtur að klóra sér í kollinum yfir stefnuleysinu hjá ríkisstjórninni.
Samfylkingin hefur sett fram plan
Við í Samfylkingunni höfum haldið uppi uppbyggilegri og málefnalegri gagnrýni á ríkisstjórnina. En við höfum líkt lagt fram okkar tillögur. Við kynntum kjarapakka fyrir jól með útfærðum tillögum um að verja heimilisbókhaldið en vinna um leið gegn verðbólgu.
Hugmyndafræði kjarapakkans var einföld: Að taka á verðbólgunni þar sem þenslan er í raun og veru – eftir metár í fjármagnstekjum, metarðsemi hjá stórútgerð og methagnað hjá bönkunum. Að draga þannig úr hallarekstri ríkissjóðs en hlífa um leið heimilunum – með því til dæmis að falla frá ítrustu gjaldahækkunum ríkisstjórnarinnar sem nú eru farnar að bíta.
Samfylkingin er með plan og nýtur góðs af skeleggri forystu Kristrúnar Frostadóttur þegar kemur að efnahags- og velferðarmálum. Það er nú eitthvað annað en ríkisstjórnin sem vísar bara allri ábyrgð á undirstofnanir sínar og fólkið í landinu. Gott ef þetta minnir ekki á bankasölumálið þar sem ráðherra bar enga ábyrgð á neinu – það var bara fólkið í landinu sem skildi ekki snilldina (og svo varð að leggja niður eina undirstofnun).
En í ljósi þess að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa ekki borið árangur í baráttunni við verðbólguna má ég til með að benda ráðherrum stjórnarflokkanna á kíkja aftur á kjarapakka Samfylkingarinnar. Með opnum hug. Nú er sagt að verðbólgan sé að hluta til hagnaðardrifin. Væri ekki þjóðráð að fylgja plani Samfylkingarinnar og vinna gegn verðbólgunni þar sem þenslan er í raun og veru?
Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. febrúar 2023.