Eftirlitshlutverk Alþingis

Helga Vala fréttabanner

Eitt af grundvallarhlutverkum Alþingis er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, þ.e. ráðherrum og stjórnsýslunni.

Þingmönnum ber að rækja hlutverk sitt samkvæmt bestu sannfæringu og þá skiptir máli að almannahagsmunir ráði ákvörðunum þeirra en ekki hagsmunir stjórnmálaflokka eða líf ríkisstjórnar.

Þingmenn hafa ýmis tæki til að rækja sínar eftirlitsskyldur, þeir geta beðið ráðherra um skýrslur, óskað stjórnsýsluúttektar frá ríkisendurskoðun eða lagt fram fyrirspurnir til ráðherra. Þá óska þingmenn margvíslegra upplýsinga í nefndum þingsins frá sérfræðingum og hagaðilum.

Því miður þá hefur það orðið æ algengara í seinni tíð að stjórnarliðar á Alþingi beita meirihlutavaldi sínu gegn því að mál séu rannsökuð með fullnægjandi hætti. Ráðherrar svara ekki spurningum sem fyrir þá eru lagðar, meirihluti í nefndum greiðir atkvæði um lok rannsóknar mála þrátt fyrir að fulltrúar stjórnarandstöðu hafi óskað frekari upplýsinga.

En Alþingi getur líka sett á laggirnar rannsóknarnefnd á vegum Alþingis en slík nefnd hefur mun meiri heimildir en aðrir tiltækir til að knýja á um afhendingu gagna, hvort sem um er að ræða Alþingi, ríkisendurskoðun eða umboðsmann Alþingis. Hefur það ítrekað gerst að ríkisendurskoðun hafi greint svo frá að hann hafi ekki fengið umbeðin gögn frá stjórnvaldi og var til dæmis um það að ræða hjá settum ríkisendurskoðanda við skoðun hans á sölu eigna Lindarhvols, sem mikið hefur verið rætt um að undanförnu. Sagði hann nýverið fyrir dómi að erfiðlega hafi gengið að fá umbeðin gögn afhent. Því miður hefur meirihluti þings á undanförnum árum einnig hafnað því að skipuð sé rannsóknarnefnd vegna sölu á almenningseignum. 

Leyndarhyggja stjórnarflokkanna hefur nú náð hámarki með atkvæðagreiðslu í þinginu í vikunni gegn því að almenningur fengi að vita hvað settur ríkisendurskoðandi komst á snoðir um. Almenningur má ekki vita hvernig farið er með almannaeigur og við það eigum við að búa.