Íslenskir listamenn án landamæra

„Heimskt er heimaalið barn“, segir gamall málsháttur.

Viðar Eggertsson Varaþingmaður

Það er í eðli skapandi fólks að þurfa hleypa heimdraganum og leita á nýjar lendur til að takast á við nýjar og gefandi áskoranir.

Það hefur vart farið framhjá nokkrum Íslendingi hversu öflug íslensk menning og listsköpun hefur orðið á síðustu árum og áratugum. EES samningurinn, sem við undirrituðum árið 1994, hefur opnað fyrir íslenska listamenn áður lokuð hlið og rutt úr vegi ókleifa múra, til menningarlegra landvinninga í Evrópu. Hin skapandi stétt listamanna hefur nýtt sér þau miklu tækifæri sem þá gáfust með ótrúlega gefandi hætti. Og uppskorið ríkulega.

Gott orðspor íslenskrar listar og menningar hefur aukist gífurlega vegna þessa.

Ófáir íslenskir listamenn hafa rennt styrkum stoðum undir starf sitt sem listamenn, eftir að samningurinn tók gildi, víða um Evrópu og þannig hefur atvinnugrundvöllur þeirra eflst til muna vegna samningsins og ýmissa tækifæra sem hafa gefist í samstarfi við önnur þau 26 Evrópulönd sem samningurinn nær til.

Fyrir þann tíma var Ísland ekki bara eyland úti í hafi heldur var engu líkara en ókleifur múr hefði verið reistur af okkur eyjarskeggum umhverfis okkur sjálf, sem bitnaði illilega á möguleikum einstaklinga og stofnana til að eflast í samstarfi við aðra.

EES samkomulagið hefur brotið niður múra og gert Evrópu aðgengilega fyrir stórhuga listamenn. Því samningurinn felur í sér ótal tækifæri til listsköpunar fyrir frjóa Íslendinga. Samningurinn nær til náinna samstarfsverkefna á ýmsum sviðum – ekki síst menningu. Þar gefast margvísleg tækifæri ef vandað er til verka og til staðar er árvökulir aðstoðarmenn á vettvangi – í iðu ákvarðana og framfara.

Það eru enn gífurleg sóknarfæri fyrir okkur fólgin í menningu ekki síður en viðskiptum og því brýnt að að halda áfram að sækja fram okkur öllum til heilla.

Því er það með ólíkindum að menningar- og viðskiptaráðuneytið eigi ekki einn einasta starfsmann á sendiráðsskrifstofu okkar í Brussel eins og öll önnur ráðuneyti hafa þegar þar, til að vinna að hagsmunamálum og tækifærum sem okkur gefast.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. mars 2023.