Konurnar sem breyttu heiminum

Þórunn,  kraginn, banner,

Á mánu­daginn voru 40 ár liðin frá því að Sam­tök um kvenna­lista voru stofnuð.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Þau buðu fyrst fram til Al­þingis í kosningunum 1983. Þá leit Ís­land öðru­vísi út en það gerir í dag. Það var fá­breytt og gamal­dags. Sam­fé­lagið var gegn­sýrt af helminga­skiptum, feðra­veldi og körlum. Það var því byltingar­kennt að gera kven­frelsi að bar­áttu­máli heillar stjórn­mála­hreyfingar. Kröfuna um að allar konur, alls staðar, ráði líkama sínum og lífi, því að það er for­senda þess að þær séu ger­endur í lífi sínu og í lýð­ræðis­sam­fé­lagi.

Guð­rún Agnars­dóttir, Kristín Hall­dórs­dóttir og Sig­ríður Dúna Krist­munds­dóttir voru kosnar á þing vorið 1983 af kvenna­listum í Reykja­víkur- og Reykja­nes­kjör­dæmum. Sam­tök um kvenna­listann voru gras­rótar­hreyfing án formanns þar sem dreif­stýring og verka­skipting sem aldrei áður hafði sést í ís­lenskri pólitík var tíðkuð. Mál­efnin sem Kvenna­listinn setti á dag­skrá ís­lenskra stjórn­mála höfðu sum aldrei verið orðuð úr ræðu­stóli Al­þingis. Í þing­sal hafði til dæmis aldrei verið talað um of­beldi gegn konum og börnum; kyn­ferðis­­of­beldi, nauðganir, sifja­spell og heimilis­of­beldi. Allt þetta setti Kvenna­listinn á dag­skrá.

Kvenna­listinn var ekki eins máls flokkur eins og sumir héldu fram. Stefnan fjallaði um fjöl­breytta at­vinnu­upp­byggingu, um byggða­kvóta í sjávar­út­vegi svo að dæmi sé nefnt, ekki síst ný­sköpun kvenna í at­vinnu­lífinu. Bar­áttan fyrir friði og gegn hernaði var lykil­mál. Um­hverfis­vernd gekk eins og grænn þráður í gegnum stefnuna. Barist var gegn ó­sjálf­bærri stór­iðju og fyrir því að hér yrði komið á fót um­hverfis­ráðu­neyti.

Kvenna­lista­konur lögðu alla tíð ríka á­herslu á að meta störf kvenna til launa. Að hvort tveggja launuð og ó­launuð störf kvenna væru metin að verð­leikum, að konur væru ekki til færri fiska metnar eins og stundum var sagt. Kristín Hall­dórs­dóttir heitin lýsti því þannig að þegar þær settust á þing þá hefði það verið eins og ganga í björg feðra­veldisins. Kvenna­listinn breytti ekki bara Ís­landi heldur heiminum. Til hans er enn litið sem fyrir­myndar um víða ver­öld. Ég vil nota þetta tæki­færi og þakka öllum kvenna­lista­konum fyrir ó­metan­legt fram­lag til ís­lenskra stjórn­mála og sam­fé­lags.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2023.