Konurnar sem breyttu heiminum

Á mánudaginn voru 40 ár liðin frá því að Samtök um kvennalista voru stofnuð.

Þau buðu fyrst fram til Alþingis í kosningunum 1983. Þá leit Ísland öðruvísi út en það gerir í dag. Það var fábreytt og gamaldags. Samfélagið var gegnsýrt af helmingaskiptum, feðraveldi og körlum. Það var því byltingarkennt að gera kvenfrelsi að baráttumáli heillar stjórnmálahreyfingar. Kröfuna um að allar konur, alls staðar, ráði líkama sínum og lífi, því að það er forsenda þess að þær séu gerendur í lífi sínu og í lýðræðissamfélagi.
Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir voru kosnar á þing vorið 1983 af kvennalistum í Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmum. Samtök um kvennalistann voru grasrótarhreyfing án formanns þar sem dreifstýring og verkaskipting sem aldrei áður hafði sést í íslenskri pólitík var tíðkuð. Málefnin sem Kvennalistinn setti á dagskrá íslenskra stjórnmála höfðu sum aldrei verið orðuð úr ræðustóli Alþingis. Í þingsal hafði til dæmis aldrei verið talað um ofbeldi gegn konum og börnum; kynferðisofbeldi, nauðganir, sifjaspell og heimilisofbeldi. Allt þetta setti Kvennalistinn á dagskrá.
Kvennalistinn var ekki eins máls flokkur eins og sumir héldu fram. Stefnan fjallaði um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu, um byggðakvóta í sjávarútvegi svo að dæmi sé nefnt, ekki síst nýsköpun kvenna í atvinnulífinu. Baráttan fyrir friði og gegn hernaði var lykilmál. Umhverfisvernd gekk eins og grænn þráður í gegnum stefnuna. Barist var gegn ósjálfbærri stóriðju og fyrir því að hér yrði komið á fót umhverfisráðuneyti.
Kvennalistakonur lögðu alla tíð ríka áherslu á að meta störf kvenna til launa. Að hvort tveggja launuð og ólaunuð störf kvenna væru metin að verðleikum, að konur væru ekki til færri fiska metnar eins og stundum var sagt. Kristín Halldórsdóttir heitin lýsti því þannig að þegar þær settust á þing þá hefði það verið eins og ganga í björg feðraveldisins. Kvennalistinn breytti ekki bara Íslandi heldur heiminum. Til hans er enn litið sem fyrirmyndar um víða veröld. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum kvennalistakonum fyrir ómetanlegt framlag til íslenskra stjórnmála og samfélags.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2023.