Frumvarp um breytingar á fæðingarorlofskerfinu: meðgönguorlof, réttur til vinnutímastyttingar og óskertar lægstu tekjur

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar hefur lagt fram frumvarp um ýmsar breytingar á fæðingarorlofskerfinu í þeim tilgangi að tryggja betur afkomuöryggi foreldra og stuðla að jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs.

Í frumvarpinu, sem þingflokkurinn í heild stendur að, er m.a. lagt til að fyrstu 350.000 kr. af viðmiðunartekjum fæðingarorlofsgreiðslna verði óskertar, fæðingarstyrkur til námsmanna, fæðingarstyrkur til fólks utan vinnumarkaðar og hámarksgreiðslur fæðingarorlofs hækki, tryggður verði réttur til launaðs meðgönguorlofs í allt að mánuð fyrir áætlaðan fæðingardag og að lögfestur verði sérstakur réttur foreldra til vinnutímastyttingar að loknu fæðingarorlofi með stuðningi úr Fæðingarorlofssjóði í allt að sex mánuði.

Með innleiðingu meðgönguorlofs verður barnshafandi foreldri heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að fjórum vikum fyrir áætlaðan fæðingardag án þess að vikurnar komi til frádráttar þeim tíma sem foreldri á rétt á til launaðs fæðingarorlofs eftir að barn fæðist. Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að heilsufarsleg rök hnígi að þessu og breytingin sé í samræmi við fæðingarorlofslöggjöfina í Noregi og Danmörku og sjónarmið sem fagfélög fæðingarlækna og ljósmæðra hafi haldið á lofti.

Tillagan um sérstakan rétt foreldra ungra barna til vinnutímastyttingar er einnig að norrænni fyrirmynd þótt útfærslan sé önnur og ný. Með breytingu sem lögð er til í frumvarpinu mun hvort foreldri fyrir sig eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sem reiknast á sama hátt og hefðbundnar fæðingarorlofsgreiðslur nema í hlutfalli við skerðingu á starfshlutfalli, allt að 20% minnkun starfshlutfalls í allt að sex mánuði.

„Markmið tillögunnar um rétt til vinnutímastyttingar er að stuðla að bættum uppeldisskilyrðum ungra barna, draga úr álagi foreldra og gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna,“ segir í greinargerð frumvarpsins. Þar segir jafnframt að óháð því hvort og hvaða breytingar verði ráðist í á einstökum þáttum fæðingarorlofskerfisins skipti miklu að stigin verði skref til frekari lengingar fæðingarorlofs á næstu árum í samráði við aðila vinnumarkaðarins.