Stjórn SAMAK fundaði á Íslandi

Stjórnarfundur SAMAK fór fram í höfuðstöðvum ASÍ í fyrradag. Kristrún Frostadóttir flutti erindi um orkumál á fundinum. Fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn SAMAK er Kjartan Valgarðsson sem svaraði nokkrum spurningum um stjórn SAMAK og efni fundarins.

Hvað var stjórn SAMAK að gera á Íslandi?
„SAMAK er Samráðsnefnd alþýðusamband og jafnaðarflokka á Norðurlöndum. Samfylkingin og ASÍ eiga aðild að SAMAK. Við höldum stjórnarfundi til skiptis í höfuðborgum Norðurlanda en það er orðið langt síðan við höfum haldið stjórnarfund hér á Íslandi, svo það var kominn tími til.

Jan-Erik Støstad, framkvæmdastjóra  SAMAK, fannst spennandi kostur að koma með stjórnina til Íslands. Kannski að einhverju leyti vegna áhuga á nýrri forystu í flokknum og bætts gengis okkar í fylgiskönnunum. Annars var þetta bara reglulegur stjórnarfundur en orkumál voru sérstakt þema að þessu sinni, bæði vegna orkukrísu í Evrópu og sérstöðu Íslands á þessu sviði.“

Hverjir eiga sæti í stjórn SAMAK? Og hver eru helstu verkefnin?
„Alþýðusambönd Norðurlanda og systurflokkar Samfylkingarinnar eiga einn fulltrúa hvert í stjórninni og það eru yfirleitt flokksritarar flokkanna og varaforsetar alþýðusambandanna sem sækja fundina, oft ásamt alþjóðafulltrúum eða aðstoðarfólki. Ég sit í stjórninni fyrir hönd Samfylkingarinnar og Kristján Þórður Snæbjarnarson fyrir ASÍ en Kristján Þórður var fjarri góðu gamni í vikunni og Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá ASÍ, sat því fundinn í hans stað.

Helstu verkefni SAMAK eru samráð og samstaða um norræna módelið og það gerir nefndin með ýmsum hætti, t.a.m. með Nordenskolen eða Norðurskólanum þar sem módelið er beinlínis kennt ungu fólki í flokki og hreyfingu. Héðan fóru 6 nemendur í fyrra, 3 frá verkalýðshreyfingunni og 3 frá Samfylkingunni og nú er verið að velja nemendur fyrir næsta árgang sem byrjar í haust. Að auki er SAMAK vettvangur til að miðla upplýsingum og þekkingu sem er t.d. gert með vinnustofum og skýrslum um ýmis málefni eða aðferðir til að ná sem mestum árangri í verkalýðshreyfingunni og í stjórnmálunum.

Ríkin skipta á milli sín að veita SAMAK forystu. Finnar eru nýteknir við og forysturíkið stjórnar þá gerð skýrslu eða úttekt á sérstöku efni. Undir forystu Norðmanna kom út skýrsla um hlutastörf og tímabundnar ráðningar og í Svíþjóð kom skýrslan um hæfni sem sérstakt tæki verkafólks til betri kjara og aðstæðna. Það verður til mikil þekking innan SAMAK sem er verðmæt fyrir jafnaðarflokkana og alþýðusamböndin og getur verið verulega gagnleg fyrir okkur hér.“

Hver var aðkoma Samfylkingarinnar og ASÍ að fundinum?
„Við skipulögðum fundinn með stjórn SAMAK. Ásamt mér vann Auður Alfa að undirbúningi í forföllum Kristjáns Þórðar og fundurinn var haldinn í Bárubúð, fundarsal miðstjórnar ASÍ, en Samfylkingin stóð fyrir móttöku daginn áður. Þar hitti stjórnarfólk í SAMAK Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, í fyrsta sinn. Árlegur leiðtogafundur SAMAK fór fram í Helsinki í vetur en um svipað leyti eignaðist Kristrún dóttur og því gat hún ekki hitt kollega sína í það sinn.“

Hvað sagði Kristrún? Hvernig leist fólki á?
„Kristrún fór yfir þær áherslubreytingar sem hún hefur staðið fyrir hjá flokknum, áherslu á fá en mikilvæg mál fyrir venjulegt vinnandi fólk. Hún fékk spurningar m.a. um opnu fundina fimmtíu sem hún hélt í áður en hún varð formaður, sem þeim þótti áhugavert. Ég sé ekki betur en að sú strategía sem flokkurinn fylgir núna hafi vakið áhuga gestanna og Kristrún lét þess getið að aðrir íslenskir stjórnmálaflokkar séu byrjaðir að líkja eftir okkur, halda fleiri opna fundi með fólki en þeir eru vanir, sjá hjá okkur að þetta virkar. Það fór ekkert á milli mála í samtölum mínum við stjórnarfólk SAMAK eftir móttökuna að þau voru stórhrifin, fannst mikið til Kristrúnar koma. Það gladdi mig og fyllti sjálfan mig stolti yfir mínum flokki.“

Hvaða sjónarmið komu fram um orkumál?
„Orkumál voru sérstakt umfjöllunarefni fundarins, bæði vegna krísunnar á Norðurlöndum, íþyngjandi hækkana fyrir heimilin en líka vegna staðsetningar fundarins. Við höfum algera sérstöðu í orkumálum, bæði vegna jarðhita og vatnsaflsvirkjana, og einnig vegna þess að við flytjum ekki út orku og erum þar með ekki aðilar að raforkumarkaði Evrópu.

Kristrún var með sérstakt erindi, svokallað political keynote, á fundinum og fór þar vel yfir bæði stöðu okkar og erfið álitamál á Íslandi, flokkun virkjanakosta í nýtingar- og biðflokk, jafnvægið milli virkjana, nýtingar og iðnaðaruppbyggingar til að skapa fleiri störf, en líka samhengið við aðgerðir í loftslagsmálum og til dæmis ferðaþjónustu.“

Hvaða augum lítur þú samstarfið í SAMAK?
„Samstarf okkar við aðra norræna jafnaðarflokka og alþýðusambönd skiptir okkur í Samfylkingunni máli. Samstarfið styrkir tengsl okkar við verkalýðshreyfinguna sem er gott fyrir vinnandi fólk á Íslandi. Þó að formleg tengsl verði ekki eins og var fyrir 1940 þá er stefna Samfylkingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar nánast eins, það er að vinna að bættum kjörum og lífsaðstæðum venjulegs vinnandi fólks á Íslandi. Verkalýðshreyfingin berst á tvennum vígstöðvum, á götunni og/eða við samningaborðið annars vegar og hins vegar á þjóðþinginu við að tryggja eðlilega aðkomu ríkisins að bættu velferðarkerfi með lagasetningu og aðild að ríkisstjórn. Við í verkalýðshreyfingunni eigum mikið starf fyrir höndum.“

  • Kjartan Valgarðsson, stjórnamaður í SAMAK.