Hvar standa aðgerðir Íslands í loftslagsmálum?

Þórunn,  kraginn, banner,

Átta ár eru í lok þess árs frá því að Parísarsamningurinn var gerður á milliríkjaráðstefnu um loftslagsmál.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Þar skuldbundu ríki heims sig til að grípa til aðgerða svo að hækkun hitastigs í lofthjúpi Jarðar færi aldrei yfir 2°C og stefnt skyldi að því að takmarka hækkun hitastigs við 1,5°C til að lágmarka röskun loftslags. Að undanskildum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna heimsfaraldurs hefur útblástur stefnt í þveröfuga átt frá því að fundað var í París. Afleiðingarnar láta ekki á sér standa: fordæmalausar hitabylgjur og þurrkar, gróðureldar, úrkoma aurskriður og flóð. Tvö nýleg dæmi um hörmulegar afleiðingar hamfarahlýnunar á fólk eru gróðureldar og ofsaveður á Lahaina á Hawaii og í Yellowknife í Kanada.

Aðgerðir hafa ekki skilað árangri

Loftslagsráð lauk fjögurra ára skipunartíma sínum í sumar. Á þessari stundu er ekki ljóst hvort eða hvernig umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hyggst halda starfi þess áfram. Í uppgjöri ráðsins frá 15. júní sl. leggur það mat á árangurinn sem náðst hefur og ekki náðst í aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar má lesa kurteisislega brýningu til stjórnvalda sem er rituð af þekkingu og þunga sem ekki sést á hverjum degi í opinberum plöggum. Þar segir orðrétt: „Við blasir að aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Samdráttur hefur einungis náðst á nokkrum sviðum en heildarlosun hefur aukist. Markviss loftslagsstefna með tímasettum og mælanlegum markmiðum liggur enn ekki fyrir, þó svo að aðgerðaáætlun sé til staðar.“

Markmiðin enn óljós og ófullnægjandi

Eins og staðan er í dag bendir flest til þess að Ísland nái ekki að uppfylla skuldbindingar sínar um samdrátt fyrir 2030 og kolefnishlutleysi fyrir 2040, segir einnig í uppgjöri Loftslagsráðs. Það er því full ástæða til að spyrja hvar aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum standi. Engar fréttir hafa borist af þeim í langan tíma og morgunljóst að markmið Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eru jafn óljós og ófullnægjandi og þau voru sumarið 2022 þegar Loftslagsráð lýsti þeim með þessum orðum.

28. loftslagsráðstefnan (COP28) verður haldin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í árslok. Forseti ráðstefnunnar er Sultan Al Jaber sem einnig gegnir stöðu forstjóra hins ríkisrekna olíufélags furstadæmanna. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með aðdraganda COP28 en olíuforstjórinn segist meðvitaður um nauðsyn þess að draga úr olíunotkun. Á það mun reyna svo um munar í Dúbaí en það mun ekki síður reyna á aðrar sendinefndir. Hyggst íslenska sendinefndin mæta til leiks á COP28 af fullri ábyrgð og alvöru? Mun hún leggja fram tíma- og tölusettar aðgerðir Íslands í loftslagsmálum til 2030? Eftir því verður tekið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2023.