Froskmenn skutla eldislaxa
Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafa reynst veikburða og brotakennd og ekki í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum.
Þannig lýsti Ríkisendurskoðun stöðunni í viðamikilli skýrslu um lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit með sjókvíaeldi sem skilað var til Alþingis í upphafi þessa árs. Skýrslan fékk ítarlega umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins og var nefndin á einu máli um mikilvægi þess að Matvælaráðuneytið, ásamt Hafrannsókna-, Matvæla- og Umhverfisstofnun, brygðist hratt og vel við ábendingum Ríkisendurskoðunar enda skiptu þær tugum.
Að mati Ríkisendurskoðunar höfðu lagabreytingar sem gerðar voru 2014 og 2019 ekki í för með sér skilvirkari ferli eða betra eftirlit með nýrri atvinnugrein. Niðurstaða skýrslunnar var afgerandi og varpar skýru ljósi á kostnaðinn – fyrir samfélag og umhverfi – af því að leyfa óheftum markaðsöflunum að byggja upp heila atvinnugrein með miklum hraði og á stuttum tíma. Á engan er hallað þótt bent sé á að síðastliðinn áratug hafi sjókvíaeldið notið sérstakrar velþóknunar sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Nú er birtingarmynd sjókvíaeldis því miður farsakennd: norskir froskmenn að skutla eldislaxa í íslenskum veiðiám. Út um göt á sjókví í Patreksfirði sluppu þúsundir kynþroska eldislaxa, sem nú ganga upp í ár á norðvesturhluta landsins í stórum stíl og eru jafnvel farnir að para sig við villta laxinn. Það eru hörmulegar fréttir fyrir lífríki Íslands og fjölbreytileika þess. Fyrirtækið sem í hlut á klikkaði að því að vakta sjókvína. MAST hefur farið fram á opinbera rannsókn á því hvernig það gat gerst.
Þetta er ófremdarástand en það dapurlegasta við þessa stöðu er að hún á ekki að koma neinum á óvart sem hefur kynnt sér eldi í opnum sjókvíum í nágrannalöndum okkar og mögulegar afleiðingar þess fyrir lífríkið. Tvennt stendur upp úr og er brýnast að takast á við strax. Í fyrsta lagi þarf að endurskoða burðarþolsmat fjarðanna þar sem sjókvíaeldi er leyft og í öðru lagi verður framkvæma nýtt áhættumat erfðablöndunar, svo að einhver möguleiki sé að vernda villta laxastofna.
Um burðarþolsmatið, sem er lögbundin vöktun á lífrænu álagi, segir í lögum að Hafrannsóknastofnun beri að framkvæma það „eins oft og þurfa þykir.“ Það segir sína sögu um stjórnsýsluna að Hafró hafi þurft að sækja styrki í samkeppnissjóði til að fjármagna vöktunina. Markmið áhættumats erfðablöndunar er að meta áhættu af óafturkræfum skaða á villta laxastofna vegna fiskeldis. Hafró tilkynnti í vikunni að stofnunin hyggist endurmeta áhættuna fyrir lífríkið. Það hlýtur það að vera algert forgangsmál að gera nýtt áhættumat sem byggir á öruggum og staðreyndum gögnum úr sjókvíaeldi við Íslandsstrendur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2023.